fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Flosi í HAM öskraði af kvölum: „Eins og brennandi heitum teini væri stungið beint í gegnum lærið“

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 25. júní 2018 15:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flosi Þorgeirsson, gítarleikari hljómsveitarinnar HAM og leiðsögumaður, lét ekki sársauka í fætinum stöðva sig frá því að stíga á svið og spila áreynslulaust með sinni sveit á útihátíðinni Secret Solstice, en á dögunum neyddist hann til þess að kalla eftir aðstoð björgunarsveitar eftir átakanlega gönguferð við móbergs- og grágrýtisfjallið Hengil. Segir hann að eitruð karlmennska hafi rakið sig áfram en reyndist það honum dýrkeypt.

Flosi tjáði sig um málið í samtali við DV en birti upphaflega söguna í Facebook-færslu þar sem hann segist hafa skammast sín fyrir að kalla eftir aðstoð hjálparsveitar. Jafnframt tekur hann fram að kveikiþráður þessarar gönguferðar hafi verið gleðitilfinningin sem kom eftir frækinn jafnteflissigur Íslands á móti Argentínu. Þá ákvað hann að bruna heim í göngugallann og keyra út fyrir bæjarmörkin til þess að taka gönguferð að Hengilssvæðinu. Þar gekk hann oft á yngri árum en gönguferðin endaði á því að vera tæplega hálfum sólarhringi lengur en var ætlað.

Öskraði af kvölum

„Ég gerði ýmis mistök,“ segir Flosi í færslu sinni. „Ef maður fer einn í fjallgöngu á maður að skilja Pollýönnu eftir heima og búast við hinu versta. Hafa með sér áttavita, vatn, kort, plástur og aukafatnað. Einnig á maður að senda skilaboð á 112 appinu svo hægt sé að miða við þann punkt ef leit hefst af einhverjum orsökum. Maður á einnig alltaf að segja einhverjum frá ferðum manns. Enginn í heiminum vissi hvar ég var.“

Flosi ákvað að prófa að ganga upp á topp Hengils, sem er rúmlega 800 metra ganga, en þá var hann farinn að finna fyrir vægum verk í vinstri mjöðm. „Ég ákvað að leiða það hjá mér, taka þetta á hörkunni.“

Þegar Flosi mætti loksins á fjallstoppinn var verkurinn ekki að lagast og til að bæta gráu ofan á svart var þá skollin á þoka. „Eftir nokkurn tíma sá ég þó göngustikur og fylgdi þeim. Skyndilega birti upp og ég sá Þingvallavatn beint fyrir framan mig. Þá vissi ég að ég væri að ganga í vitlausa átt. Ég lét það ekki á mig fá og hugsaði að þetta yrði þá bara aðeins lengri ganga. Mjaðmarverkurinn var nú farinn að pirra mig verulega og fann ég meira og meira fyrir honum. Skyndilega var eins og brennandi heitum teini væri stungið beint í gegnum lærið og inn í mjöðm.“

„Ég öskraði af kvölum og féll við, sem betur fer tók mosabreiða á móti mér. Ég reyndi að standa upp en vinstri fóturinn lét ekki að stjórn, í hvert skipti sem ég teygði úr honum eða kreppti, þá fann ég alveg nístandi sársauka.“

Sprakk á hjóli í bakaleið

Þegar Flosi náði samband við Neyðarlínuna var ákveðið að best væri fyrir hann að setjast niður og bíða eftir því að vera sóttur. Á þeim tíma var ekki um annað að ræða þar sem bassaleikarinn komst ekkert áfram. Hálftími leið og þá fékk hann skilaboð frá björgunarsveitinni um að þeir væru búnir að miða hann út og væru á leiðinni. Þá tók við hátt í tveggja klukkustunda bið en um síðir komu tveir strákar á fjórhjólum og lagt var af stað til baka.

„Ferðin gekk frekar hægt og sprakk einu sinni á öðru hjólinu og einu sinni festist hitt svo varð að draga það upp. Ég skammaðist mín er ég sá spjöllin sem hjólin unnu á mosanum, allt vegna ofkapps í mér, segir hann. „Ég hafði huggað mig við að þetta feigðarflan hafði aðeins tekið tíma tveggja hjálparsveitamanna en brátt sá ég að svo var ekki. Við veginn biðu 6 manns og tveir bílar! Seinna fékk ég að vita að jafnvel fleiri hefðu verið kallaðir út. Hvílík skömm.“

„Einn þeirra klappaði mér á öxlina og sagði „Við viljum frekar hafa þig lifandi en dauðann“, bætir Flosi við. „Það er ekkert sjálfsagt mál að eiga hjálparsveitirnar að. Við gleymum því kannski stundum.“

Verkjaður á Solstice

„Ég er ennþá dálítið bólginn,“ segir Flosi um stöðu sína og heilsu í dag, rúmri viku eftir atvikið. „Mér finnst þetta vera bara eins og ekta tognaður nári. Þetta hefði getað farið svo miklu verr. Ég hef hugsað mikið um það.“

Flosi steig á svið með hljómsveit sinni HAM um liðna helgi og segist ekki hafa fundið fyrir miklum sársauka fyrr en eftir tónleikanna. „Verkurinn fór að segja til sín þegar ég stóð og fylgdist með Slayer.“

Þá tekur hann fram að allir starfsmenn Björgunarsveitarinnar hafi verið hreinir fagmenn fram í fingurgóma. „Þeir voru svo rólegir og undir allt búnir. Nú fylgist ég betur með fréttum af Björgunarsveitinni eftir þetta,“ segir Flosi og hyggst kaupa dágóðan slatta af flugeldum þetta árið til að styrkja hjálparsveitina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv