fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Íslendingur dæmdur í 20 ára fangelsi: Magni játar morð – skaut fórnarlambið í hjartað

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 13. apríl 2018 07:40

Magni Böðvar bjó lengi í Keflavík. Mynd tekin árið 2016 en hann var handtekinn það sama ár.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Sherry ásamt dætrum sínum, Mandy og Britney, sem sakna móður sinnar á hverjum degi.

Keflvíkingurinn Magni Böðvar Þorvaldsson hefur játað að hafa myrt Sherry Prather þann 12. október árið 2012. Hún var 43 ára þegar hún hvarf í Jacksonville í Flórída og lýst var eftir henni. Magni Böðvar sem er 43 ára situr í fangelsi í Bandaríkjunum. Hann var handtekinn fyrir tveimur árum og lýsti þá yfir sakleysi sínu. Þá tjáði unnusta hans, Sara Hatt, sig við íslenska fjölmiðla og kvaðst trúa á sakleysi hans. Einnig stofnuðu börn og unnusta Magna Facebook-síðu og biðluðu til yfirvalda um að láta föður þeirra lausan.

Sherry Prather var 43 ára þegar Magni drap hana en gátan leystist ekki fyrr en sex árum síðar þegar Magni loks játaði að hafa myrt hana. Árið 2012 fundust líkamsleifar í skógi við Jacksonville sem erfitt reyndist að bera kennsl á en ljóst var að dýr höfðu leikið líkið grátt.

Eftir nákvæmar rannsóknir kom í ljós að líkið var af hinni 43 ára gömlu Sherry Prather sem hafði verið saknað í mánuð. Niðurstaðan var að hún hefði verið drepin með skotvopni og morðinginn hæft hana í brjóstið. Sara var tveggja barna móðir og hafði farið út á lífið með vinkonum sínum hið örlagaríka kvöld. Hún fannst 31 einum degi eftir að lýst var eftir henni.

„Ég leitaði hennar á hverjum degi,“ sagði móðir hennar, Norma Ellis. „Ég sagði við alla sem vildu heyra: „Ég mun aldrei gefast upp fyrr en ég finn þig barnið mitt. Þú ert barnið mitt og ég er staðráðin í að þú fáir frið og hvíld áður en ég hrekk upp af.“ Ég meinti hvert orð.“

Magni var fyrst yfirheyrður skömmu eftir að lík konunnar fannst. Sést hafði til þeirra yfirgefa krá saman þann 12. október og sást á eftirlitsmyndavélum að hún hafði fengið far með Magna á bifhjóli hans. Við yfirheyrslur viðurkenndi Magni að hafa gefið henni far en neitaði að hafa skaðað hana. Yfirvöld tóku útskýringu Magna trúanlega og var honum sleppt að loknum yfirheyrslum. Árið 2012 steig eitt vitni fram og sagði Magna bera ábyrgð á morði Sherry og fjórum árum síðar steig fram vitni með mikilvægar upplýsingar en um var að ræða fyrrverandi eiginkonu Magna. Sagði hún að Magni hefði játað fyrir henni glæpinn. Magni var handtekinn en sem fyrr neitaði hann sök. Móðir Sherry sagði við fjölmiðla eftir handtökuna:

„Ég og tvær dætur hennar höfum syrgt og beðið til æðri máttarvalda að réttlætinu yrði fullnægt.“

Síðan talaði Norma beint til dóttur sinnar:

„Við elskum þig af öllu hjarta og biðjum þess að réttlætinu verði fullnægt svo þú getir hvílt í friði. Ég sendi þér alla mína ást á hverjum einasta degi. Ekki gleyma hversu mikið þú ert elskuð. Við tölum um þig á hverjum degi. Ég elska þig svo mikið. Ástarkveðjur, þín mamma.“

Á þessum stað fannst lík Sherry. Ekki er vitað hvort Magni hafi drepið hana í skóginum.

Fæddur í Bandaríkjunum

Magni Böðvar er með tvöfaldan ríkisborgararétt en hann fæddist árið 1974 í Bandaríkjunum. Hann á íslenskan föður en bandaríska móður. Í frétt á Stundinni var greint frá því að fimm ára gamall hafi Magni Böðvar flutt til Keflavíkur og búið hjá afa sínum og ömmu.

Starfaði Magni meðal annars við vöruflutninga og bjó af og til á Íslandi til ársins 2010 en settist það ár að í Bandaríkjunum eftir að faðir hans lést.

Fréttablaðið greindi frá í umfjöllum árið 2016 að Magni hefði ekki efni á að ráða sér lögmann. Þá kom þar einnig fram að hann hefði árið 1996 verið dæmdur í ellefu mánaða fangelsi fyrir innbrot og þjófnað auk þess sem hann hefur verið sakfelldur fyrir þrjú umferðarlagabrot.

Fyrrverandi í hefndarhug

Magni hafði ávallt haldið fram sakleysi sínu. Unnusta hans, Sara, taldi að ákæran væri hefndaraðgerð af hálfu fyrrverandi eiginkonu hans. Fullyrti Sara að eiginkonan fyrrverandi og besti vinur hennar hafi þegið þrjú þúsund Bandaríkjadali fyrir að bendla Magna við morðið.

„Hún kom einungis fram þegar verðlaun voru boðin fyrir upplýsingar sem myndu leiða til handtöku, ekki sakfellingar, í málinu,“ sagði Sara í samtali við Fréttablaðið í nóvember 2016. Í samtali við Stundina sagði hún:

Sara barðist fyrir því að að frelsa Magna. Hefur hún alltaf haldið fram sakleysi hans.

„Þeir tóku DNA af fötunum hans, mótorhjólinu og rúminu sem hann svaf í. Hann var yfirheyrður tvisvar þá og síðan sleppt því lögreglan hafði engin sönnunargögn sem tengdu hann við morðið.“

Í gögnum lögreglu kemur fram að Magni hafi smám saman breytt smáatriðum í sögu sinni frá því að hann var yfirheyrður fyrst árið 2012. Sara sagði enn fremur:

„Ég veit í hjarta mínu að hann er saklaus […] Ég hef verið með honum í þrjú ár og aldrei fundist ég vera óörugg. Hann setur þarfir annarra framar sínum eigin og trúir ekki á ofbeldi gegn konum. Hann er verndari. Hann styrkir þurfandi fjölskyldur og heldur dyrum opnum fyrir öðrum. Hann reynir alltaf að fá fólk til að brosa og elskar að verja tíma með börnunum.“

Norma ásamt dóttur sinni en Sherry var hennar eina barn.

Elskaði hana af öllu hjarta

Norma tjáði sig ítrekað við fjölmiðla fyrir dómsuppkvaðninguna. Felldi hún tár í samtali við fréttamann en léttirinn var mikill.

„Á hverri einustu nóttu hugsaði ég um hver örlög dóttur minnar hefðu verið. Lá hún þarna og þjáðist. Hefði ég getað bjargað lífi hennar hefðum við fundið hana fyrr,“ sagði Norma og bætti við:

„Hún var einkabarnið mitt og ég elskaði hana af öllu hjarta. Ég mun aldrei komast yfir þetta. Ég vona að Magni fái þyngstu refsingu sem er í boði vegna þess að hann rústaði fjölskyldunni minni. Hann reif úr okkur hjartað.“

Játning

Magni Böðvar hefur nú játað að hafa myrt Sherry Prather. Var hann dæmdur í rúmlega 20 ára fangelsi án möguleika á reynslulausn.

„Loks get ég hvílst og sagt að dóttir mín sé hjá æðri máttarvöldum,“ sagði Norma Ellis, móðir Sherry, eftir að dómur var kveðinn upp:

„Þú getur ekki fyllt upp í tómarúmið í hjartanu.“

Norma segir ástæðu þess að Magni drap Sherry enn vera óljósa. „Hann hefur sagt svo margar mismunandi sögur að yfirvöld vita ekki enn hvaða útskýring er sú rétta. Ég tel að hann hafi ætlað að myrða einhvern þetta kvöld og hún varð fyrir valinu.“

Þrátt fyrir að vita ekki að fullu hið sanna í málinu er fjölskylda Sherry sátt og getur nú horft fram á veginn. Strax eftir uppkvaðninguna hélt Norma á staðinn þar sem jarðneskar leifar dóttur hennar fundust til að kveðja hana í síðasta sinn:

„Ég sagði henni að nú gæti hún loks hvílst og það yrði allt í lagi með okkur,“ sagði Norma og bætti við: „Og ég myndi hitta hana aftur síðar. Ég lét hana líka vita hversu mikið ég elskaði hana.“

Seinasta sólarlagið sem Magni sá sem frjáls maður.

Seinasta sólarlagið

Sara stofnaði Facebook-síðu til að vekja athygli á stöðu Magna. Þar er að finna skilaboð frá börnum hans en þau eru fimm talsins. Þá deildi Sara myndum frá heimili þeirra, af dýrum og börnum. Þar var einnig að finna ljósmynd af síðasta sólarlaginu sem Magni sá sem frjáls maður. Áður en Magni Böðvar játaði glæpinn birtu Sara og börn Magna hvatningarorð á síðunni.

„Hundarnir okkar geta ekki beðið eftir að fá þig heim. Þau annaðhvort bíða fyrir utan eða við bílskúrsdyrnar. Börnin okkar sakna þín og elska þig. […] Við munum aldrei gefast upp við að reyna að sanna sakleysi þitt. Vertu jákvæður ástin mín. Ég elska þig,“ segir í einum skilaboðunum.

„Ég veit þú gerðir ekki það sem þú ert sakaður um pabbi,“ skrifaði ungur sonur Magna á stuðningssíðuna. „Þú ert ekki þannig manneskja. Þú ert góður og ástríkur. Ég veit að þú myndir aldrei myrða aðra manneskju vitandi að þú ættir fimm börn og myndir ekki vilja missa okkur. Ég elska þig pabbi,“ bætti hann við.

„Pabbi, við styðjum þig öll og við vitum að þessar ásakanir eru kjaftæði. Þeir vilja koma sökinni á þig en þegar þú kemur heim getum við öll gleymt þessu máli,“ skrifaði annar sonur Magna.

Loks réttlæti

Fjölskylda Sherry stofnaði einnig síðu á Facebook en markmið hennar var af öðrum toga – réttlæti fyrir hina tveggja barna móður. Sex árum síðar fagnaði fjölskyldan að Magni hefði verið dæmdur.

„Loksins réttlæti eftir löng sex ár,“ sagði önnur dóttir Sherry.

„Nú getur hann ekki skaðað neinn annan,“ bætti amma hennar við.

„Við söknum þín mamma og við munum aldrei gefast upp á að réttlætinu verði fullnægt,“

Dætur Sherry minntust móður sinnar á mæðradaginn.

sagði dóttir Sherry.

„Mæðradagurinn hefur síðustu ár reynst erfiður fyrir fjölskylduna,“ sagði önnur dóttir Sherry. Amma átti eina dóttur og hún var tekin frá okkur og ég missti mömmu mína. Verið þakklát fyrir að mamma ykkar sé til staðar til að nöldra í ykkur, hafa áhyggjur og styðja ykkur í gegnum það sem þið eruð að kljást við. Það eru litlu hlutirnir sem ég sakna þegar hún er farin. Metið mömmu ykkar að verðleikum og elskið hana skilyrðislaust líkt og hún elskar ykkur. Sum okkar eigum enga mömmu lengur og myndum gera allt til að fá hana aftur. Til hamingju með mæðradaginn, mamma.“

Sherry
Magni er mikill dýravinur að sögn Söru.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar