fbpx
Fréttir

Aukinn þrýstingur á sjálfstæði Grænlands: Eitt heitasta málið í þingkosningunum í næstu viku

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 21. apríl 2018 14:30

Grænlendingar ganga að kjörborðinu á þriðjudag í næstu viku og kjósa til þings. Flestir flokkanna, sem bjóða fram, hafa á stefnuskrá sinni að Grænland verði sjálfstætt ríki og segi skilið við konungsríkið Danmörku. Meirihluti kjósenda vill einnig sjálfstæði frá Danmörku en eins og hjá stjórnmálaflokkunum er sá fyrirvari að sjálfstæðið megi ekki eyðileggja velferðarsamfélagið. Til að það geti orðið að veruleika þurfa Grænlendingar að finna leiðir til að fjármagna rekstur velferðarsamfélagsins án fjárstuðnings frá Danmörku en þeir fá nú um fjóra milljarða danskra króna í beinan fjárstuðning árlega.

Stóru flokkarnir, Siumut og IA, vilja ekki negla niður einhverja dagsetningu fyrir sjálfstæði Grænlands en Partii Naleraq vill efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði svo fljótt sem mögulegt er og vill gjarnan stefna að sjálfstæði 2021.

Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar, er hlynntur sjálfstæði en vill þróa efnahagslífið áður en til sjálfstæðis kemur til að Grænlendingar verði í stakk búnir til að vera án fjárframlagsins frá Dönum.

Of mikil dönsk áhrif

Um helmingur landsmanna talar nær eingöngu grænlensku.

Mörgum Grænlendingum þykir sem dönsk áhrif séu of mikil í landinu. Rannsóknir hafa sýnt að dönsk áhrif eru töluverð á mörgum sviðum. Um helmingur landsmanna talar nær eingöngu grænlensku og skilur lítið sem ekkert í dönsku. Um 44 prósent tala bæði málin mjög vel. Þetta skiptir miklu máli því lykillinn að góðum árangri er að tala dönsku og þá góða dönsku. Ef fólk getur það ekki takmarkar það mjög tækifæri þess í lífinu.

Í menntaskólanum í Nuuk eru nær allir kennararnir Danir og það veldur nemendunum vandræðum ef þeir hafa ekki fullt vald á dönsku. Sumir segja að grænlenskir fjölmiðlar séu einnig með danska slagsíðu því yfirleitt séu ritstjórarnir Danir og einnig blaðamennirnir. Fréttaflutningur á Grænlandi sé því alltof oft út frá dönsku sjónarhorni.

Margir eru ósáttir við að þeir geti ekki farið til læknis, á skrifstofu sveitarfélagsins eða kveikt á sjónvarpi án þess að danska og dönsk menning taki á móti þeim.

Innviðirnir eru einnig vanmáttugir í þessu mikla og volduga landi þar sem oft er um langan veg að fara á milli bæja. Af þeim sökum eru það aðeins forréttindahópar og embættismenn, sem oft eru danskir, sem komast um landið. Aðrir hafa einfaldlega ekki efni á því að ferðast innanlands né utan.

Pele Broberg

Jótlandspósturinn hefur eftir Pele Broberg, sem er í framboði fyrir Partii Naleraq, að hann vilji efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði eins fljótt og unnt er. Í framhaldi eigi síðan að byggja upp nýtt land.

„Ef það eru alltaf þeir ljóshærðu og bláeygðu sem fá góðu störfin kemur upp öfund. Við Grænlendingar verðum að komast úr fórnarlambshlutverkinu sem við höfum verið í. Þess vegna verðum við að halda lífi í sjálfstæðisbaráttunni,“

segir Broberg sem telur að sú barátta geti ekki gengið nægilega hratt.

Geta lýst yfir sjálfstæði

Samkvæmt samningi Dana og Grænlendinga geta Grænlendingar lýst yfir sjálfstæði ef meirihluti landsmanna samþykkir það. Dönsk stjórnvöld hafa ekki farið leynt með að þau vilja gjarnan halda Grænlandi í konungsríkinu en ef, eða kannski frekar þegar, Grænlendingar lýsa yfir sjálfstæði þá muni beinn fjárstuðningur Dana við Grænland falla niður.

Eins og áður sagði er þessi fjárstuðningur um fjórir milljarðar danskra króna í dag en það er um helmingur útgjalda hins opinbera á Grænlandi.

Broberg segir að þetta sé flokkur hans vel meðvitaður um en sé samt sem áður reiðubúinn til að stíga skrefið til fulls. Flokkurinn sé með áætlun til að leysa þetta en hún feli í sér að þá verði að gera hlutina öðruvísi og á einfaldari hátt. Þetta muni koma sérstaklega illa niður á mörgum embættismönnum.

Vittus Qujaukitsoq er í framboði fyrir Nunatta Qitornai en hann var áður utanríkisráðherra en yfirgaf Siumut eftir deilur við Kim Kielsen, formann landsstjórnarinnar, um hversu hratt eigi að fara í átt að sjálfstæði. Jótlandspósturinn hefur eftir Qitornai að það liggi á að Grænlendingar taki við ýmsum málaflokkum af Dönum, til dæmis umsjón með lofthelginni, landhelginni og útlendingum. Hann á von á að fyrstu skrefin í átt að sjálfstæði verði tekin á næstu fjórum árum og að Grænland verði sjálfstætt land innan 10 ára.

Tala kannski við Íslendinga

Svend Hardenberg er fæddur og uppalinn á Grænlandi. Hann talar góða dönsku og tilheyrir elítunni í landinu. Hann hefur gegnt ábyrgðarstöðum hjá heimastjórninni og verið í samninganefndum sem hafa fundað með dönskum stjórnvöldum um framtíð Grænlands. Hann var einnig framkvæmdastjóri nyrsta sveitarfélags Grænlands sem nær yfir svæði sem er 20 prósentum stærra en Frakkland.

Hann er einn þeirra Grænlendinga sem munu koma að því að hrinda sjálfstæðisdraumum Grænlendinga í framkvæmd. Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að það að Grænlendingar kveðji Dani á einhverjum tímapunkti þýði ekki endilega að Danmörk verði fyrsta landið sem Grænlendingar muni ræða við í framtíðinni.

„Það getur verið Ísland, Kanada, Bandaríkin eða önnur lönd. Ef við værum jafningjar myndum við fá viðurkenningu á allt annan hátt. En við fáum ekki þann stuðning og þann kærleika sem við ættum að fá frá Danmörku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Veiktust báðar – „Ég var alltaf veik, hárið á mér var að hrynja af mér“

Veiktust báðar – „Ég var alltaf veik, hárið á mér var að hrynja af mér“
Fréttir
Í gær

Helga Rún lýsir grimmdinni í Reykjavík – Veik kona höfð að athlægi: „Ég sá að hún var pissublaut, vissi ekkert hvar hún væri eða hvað væri að gerast“

Helga Rún lýsir grimmdinni í Reykjavík – Veik kona höfð að athlægi: „Ég sá að hún var pissublaut, vissi ekkert hvar hún væri eða hvað væri að gerast“
Fréttir
Í gær

Dóttir Sifjar var vistuð í fangaklefa í geðrofi: „Erfiðasta sem ég hef upplifað að horfa upp á litlu stelpuna mína í þessum aðstæðum“

Dóttir Sifjar var vistuð í fangaklefa í geðrofi: „Erfiðasta sem ég hef upplifað að horfa upp á litlu stelpuna mína í þessum aðstæðum“
Fréttir
Í gær

Ugla segir samtökin boða að það sé betra að börn hugsanlega deyi en séu trans

Ugla segir samtökin boða að það sé betra að börn hugsanlega deyi en séu trans
Fyrir 2 dögum

Svarthöfði: Rimma mín við mannanafnanefnd

Svarthöfði: Rimma mín við mannanafnanefnd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekki hægt að auka kaupmátt launþega í næstu kjarasamningum

Ekki hægt að auka kaupmátt launþega í næstu kjarasamningum