Fréttir

18 mánaða stúlka slapp út um hlið á leikskóla

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 20. apríl 2018 18:30

Á fimmtudag í síðustu viku var hringt í Sonboleh Norouzs, sem býr í Kaupmannahöfn, frá leikskólanum þar sem dóttir hennar var. Leikskólastjórinn var í símanum og spurði Norouzs hvort hún gæti komið á leikskólann sem fyrst því það þyrfti að segja henni svolítið. Leikskólastjórinn fullvissaði Norouzs um að allt væri í lagi en vildi ekki segja meira í símann.

Norouzs ók strax til Labyrinten-leikskólans á Amager en segist ekki muna neitt eftir ferðinni, hún vildi bara komast til dóttur sinnar og átti erfitt með að hugsa um nokkuð annað en hana. Þegar hún kom á leikskólann fékk hún að vita að dóttir hennar hefði sloppið út um opið hlið og síðan gengið sem leið lá niður að umferðarþungri götu í nágrenninu.

Norouzs fékk að vita að börnin hefðu verið úti að leika sér þegar leikskólakennari af stofu dóttur hennar þurfti að fara inn til að skipta á einu barni. Þá náði dóttir hennar að komast út um opið hlið.

TV2 hefur eftir Norouzs að 300–400 metrar séu frá leiksvæðinu á leikskólalóðinni að hliðinu sem dóttir hennar fór út um. Hún sagðist vera mjög ósátt við að starfsfólkið hafi ekki tekið eftir að dóttir hennar væri horfin og að hliðið hafi getað verið opið.

Tvær konur sáu til ferða litlu stúlkunnar við umferðarþungu götuna og ákváðu að fara með hana á næsta leikskóla þar sem þeim fannst undarlegt að hún væri ein á ferð. Á leið á leikskólann mættu konurnar leikskólakennara sem hafði verið sendur út til að leita að stúlkunni.

Foreldrarnir hafa ákveðið að dóttir þeirra sæki þennan leikskóla ekki framar því þeir geti ekki verið vissir um að öryggi hennar sé tryggt þar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af