Fréttir

Íslenski togarinn sem varð vettvangur vinsællar útvarpsstöðvar

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 25. mars 2018 14:53

Skipið var í íslenskri eigu í rúm þrjú ár en lauk viðburðaríkum ferli sínum sem vettvangur sjóræningjaútvarpsstöðvar

Þann 24. ágúst 1960 bættist nýr glæsilegur síðutogari í flota Íslendinga. Skipið hlaut nafnið Freyr RE 1 en hann var smíðaður í Þýskalandi. Verkkaupi var Ísbjörninn hf. sem var að stærstum hluta í eigu útgerðarmannsins Ingvars Vilhjálmssonar. Ingvar, sem var fæddur árið 1899, var frumkvöðull í vélbátaútgerð frá Reykjavík og stofnaði áðurnefnt fyrirtæki árið 1944 í félagi við bræðurna Þórð og Tryggva Ólafssyni. Ingvar var framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi.

Freyr átti þrjú systurskip hér á landi, þau Maí GK 346, Sigurð ÍS 33 og Víking AK 100. Tvö síðastnefndu skipin komu til landsins um svipað leyti og Freyr.

Þetta voru erfiðir tímar í togaraútgerð á Íslandi. Síldarævintýrið var hafið og því gekk illa að manna skipin.  Svo fór að togaranum Sigurði var lagt eftir aðeins tvo túra og togarinn Freyr varð ekki langlífur á íslenskum fiskimiðum, hann var seldur til Englands árið 1963.

Kaupandinn var útgerðarfyrirtækið Ross Trawlers í Grimsby og fékk Freyr heitið Ross Revenge. Þar sannaði togarinn getu sína sem úrvals fiskiskip í um sextán ár. Árið 1981 var skipinu lagt og var ráðgert að rífa það niður í brotajárn. Eigendur Radio Caroline komu þá auga á skipið og keyptu það. Í kjölfarið var því breytt þannig að það hentaði undir útvarpsrekstur og síðan var skipið skráð í Panama enda var þá ólöglegt fyrir breska aðila að stunda slíkan rekstur.

Útvarpsstöðin Radio Caroline var stofnuð árið 1964 af írska athafnamanninum Ronan O’Rahilly sem þá hafði skapað sér nafn í næturklúbbarekstri og útgáfustarfsemi, aðeins 24 ára gamall. Hugmyndin kom í kjölfar þess að hann hafði gefið út plötu tónlistarmannsins Georgie Fame og reynt árangurslaust að fá plötuna spilaða hjá BBC. O’Rahilly rakst þá á þann vegg að stóru tónlistarframleiðendurnir réðu öllu sem þeir vildu innan BBC og því ákvað hinn ungi írski viðskiptamaður að taka málið í sínar hendur.

Hann fékk fjárfesta í lið með sér og keyptu þeir gamla ferju frá Danmörku, MS Fredericia, sem síðan var breytt til þess að henta undir útvarpsreksturinn. Skipinu var síðan siglt út fyrir breska lögsögu og síðan hófust útsendingar um páskana 1964. Dagskráin var einföld – látlaus vinsæl tónlist og því voru breskir hlustendur ekki vanir. Rétt er að geta þess að hugmynd O’Rahilly var ekki ný af nálinni, slíkur útvarpsrekstur hafði tíðkast í nokkur ár í öðrum löndum þar sem útvarpsstöðvum var sniðinn þröngur stakkur.

Radio Caroline varð þegar feikivinsæl en reksturinn var sviptingasamur í meira lagi og efni í langa söguúttekt. Í mars 1980 kom þáverandi útvarpsskip Radio Caroline, að landi í síðasta sinn og leitin hófst að nýju skipi.

Þá víkur sögunni að síðutogaranum Frey, sem nú hét Ross Revenge eins og áður segir. Skipið lá við akkeri í Skotlandi og leit út fyrir að dagar þess væru taldir. Kaldhæðni örlaganna var sú að sigur Íslendinga í þorskastríðunum var stærsta ástæða þess að skipið lá nú verkefnalaust við bryggju. Það breyttist þegar fulltrúar Radio Caroline komu auga á skipið og sáu að það smellpassaði fyrir rekstur útvarpsstöðvar á hafi úti. Það var ekki síst vegna stöðugleika skipsins.

Það tók hins vegar nokkur ár að fjármagna framkvæmdirnar á skipinu en loks í ágúst 1983 gekk Freyr enn á ný í gegnum endurnýjun lífdaga og nú sem útvarpsskip með 91 metra hátt útvarpsmastur. Togarinn var vettvangur útvarpssendinga í rúm sjö ár en skipinu var lagt í nóvember 1990.

Skipið liggur nú við akkeri við ána Blackwater í Essex-sýslu í suðausturhluta Englands. Sérstakur hópur áhugamanna hefur haldið skipinu við og vill veg þess sem mestan. Þann 31. maí 2017 var skipið skráð á lista yfir söguleg skip Bretlands enda eina útvarpsskipið sem enn er til.

Ross Revenge, áður Freyr RE-1, var vettvangur sjóræningjaútvarpsstöðvarinnar Radio Caroline á sjö ára tímabili 1983–1990.

Þess má geta að Radio Caroline er enn í fullu fjöri þó að starfsmenn hennar séu í dag allir landkrabbar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Veiparar Íslands
Fréttir
Í gær

Stórbruni í gluggaverksmiðju í Hafnarfirði

Stórbruni í gluggaverksmiðju í Hafnarfirði
Fréttir
Í gær

Azra er íslenskur múslimi og segir kirkjuheimsóknir skóla slæmar: „Kveið reglulega fyrir jólunum“

Azra er íslenskur múslimi og segir kirkjuheimsóknir skóla slæmar: „Kveið reglulega fyrir jólunum“
Fréttir
Í gær

Karl uggandi yfir ungum fíklum í Vesturbænum – Nágrannar á öðru máli

Karl uggandi yfir ungum fíklum í Vesturbænum – Nágrannar á öðru máli
Fréttir
Í gær

Tryggvi er miður sín: „Ég er heimilislaus í fyrsta skipti á ævinni“ – Upplifir sig sem einskis nýtan pappakassa

Tryggvi er miður sín: „Ég er heimilislaus í fyrsta skipti á ævinni“ – Upplifir sig sem einskis nýtan pappakassa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harpa – Á meðan ég eldaði kvöldmatinn sprautaði hann sig inni á klósetti og var næstum dáinn

Harpa – Á meðan ég eldaði kvöldmatinn sprautaði hann sig inni á klósetti og var næstum dáinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stóru málin: Segir Orkuveituna geta lækkað greiðslubyrði heimila um tugi þúsunda

Stóru málin: Segir Orkuveituna geta lækkað greiðslubyrði heimila um tugi þúsunda
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óttast aukna heróínneyslu á Íslandi: „Í raun verið að búa til þennan grunn“

Óttast aukna heróínneyslu á Íslandi: „Í raun verið að búa til þennan grunn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Með sterkari tilfinningu fyrir gosi í Kötlu en áður – Dýpri skjálftar og meiri jökulfýla

Með sterkari tilfinningu fyrir gosi í Kötlu en áður – Dýpri skjálftar og meiri jökulfýla