Fréttir

Ert þú með stálmaga? Karl Ingi er með uppboð á „almesta viðbjóði“ sem til er

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 12. janúar 2018 10:00

Margir, þá sér í lagi yngri kynslóðin, súpa hveljur við tilhugsunina að borða skötu eða þorramat á meðan mörgum finnst það hressileg tilbreyting og jafnvel einstaklega gott. Kæstur hákarl sem við þekkjum hér á landi er þó ekki í hálfkvisti við það sem Svíar eiga til að borða. Surströmning er síld sem geymd er í salti í hálft ár, þegar dósin er opnuð gýs upp hressileg ýldulykt. Dæmi eru um að hringt hafi verið í lögregluna þegar dós af surströmning var opnuð í fjölbýlishúsi. Einnig er bannað að flytja surströmning í flugvélum British Airways og Air France.

Karl Ingi Björnsson er nú með uppboð á einni slíkri dós inni á Fésbókarsíðunni Brask og brall (allt leyfilegt), uppboðinu lýkur kl. 18 á föstudag og vonast hann til að fá minnst 10 þúsund krónur fyrir dósina. Karl Ingi segir í samtali við DV að hann hafi keypt tvær dósir í þeirri trú að hann gæti borðað allt: „Ég er einn af þeim sem taldi mig geta étið allt. Ég borða súrmat og hákarl og allt þetta drasl einsog ekkert sé, ég hef líka borðað pöddur og snáka og allskonar erlendis og alltaf haldið því niðri og aldrei kúgast. Svo var ég í Svíþjóð í fyrra og ákvað að slá til og prófa þetta og keypti tvær dósir.“

Karl Ingi segir surströmning vera almesta viðbjóð sem hann hafi kynnst. „Þetta er sá almesti viðbjóður sem ég hef kynnst. Lyktin er slæm, það má segja að þetta sé svona sterk ýldulykt, en hún er alls ekki það versta. Það versta við þetta er áferðin, þetta er svo ógeðslega slepjulegt að það nær engri átt,“ segir Karl Ingi, mun það hafa tekið heila fjóra daga að losna við ýldulyktina. „Ég tók einn góðan munnbita og kúgaðist um leið. Ég reyndi að kyngja en þetta bara fór ekki niður. Svo núna er bara hin dósin til sölu.“

Eins og áður segir lýkur uppboðinu kl. 18 í dag, föstudag, Karl Ingi leitar að einhverjum með stálmaga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af