Gústaf lúffar fyrir spænska ríkinu: „Frú Bergþóra fær ekkert hvítvín“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

„Okkar maður tók erfiða ákvörðun í morgun. Hann afréð að lúta í lægra haldi fyrir „Hinu opinbera" hér á Spáni og greiða aukaskatt, enda of dýrt að verjast, þegar niðurstaðan kann að vera óviss. Ískalt hagsmunamat.“

Þetta skrifar Gústaf Níelsson á Facebooksíðu sína en hann flutti sem kunnugt er nýlega til Spánar með eiginkonu sinni, Bergþóru, að sögn til að „þurfa ekki aftur að skafa bílrúður“. Fyrstu búskapardagar Gústafs á Spáni hafa ekki verið áfallalausir en hann var illa bitinn af moskítóflugum um daginn. Sagði Gústaf að þökk sé líkamsþrótti hans og góðri ummönnun væri hann á batavegi.

Enn fremur hefur Gústaf lent í ágreiningi við skattheimtumenn spænska ríkisins sem gert hafi á hann ósvífna og ómálefnalega kröfu. Sagðist hann hvergi ætla að hopa í því stríði. En nú er komið annað hljóð í strokkinn og að sögn Gústafs mun eftirgjöf hans við spænska ríkið hafa afleiðingar á neyslumynstrið:

Þetta hefur auðvitað félagslegar afleiðingar. Frú Bergþóra fær ekkert hvítvín, nema til alspari í heilt ár, fótboltafélag þorpsins fær engan fjárstyrk í ár og ekki heldur kirkjukórinn, sem syngur fallega.

Það er þó ekki svo að skatturinn sé óbærilegur, en forsendur hans eru ósanngjarnar. „Hið opinbera", segir okkar mann hafa greitt meira fyrir vistarverur sínar og sinnar spúsu, en upp er gefið, sem nemur 13.000.-€ og af þeirri upphæð beri að greiða 10% skatt. Allur þessi málatilbúnaður er fals, en okkar maður er orðinn vígamóður í þessu máli og mun nú snúa sér að öðrum málum mikilvægari fyrir framtíð Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.