Ráðstefna um hatursorðræðu í íslensku samfélagi

„Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir ráðstefnu um hatursorðræðu í íslensku samfélagi á morgun, föstudaginn 22. september, milli kl. 9 og 12 í Hörpu. Um er að ræða fyrstu ráðstefnu af þessari stærðargráðu um þetta mikilvæga viðfangsefni samfélagsins.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar. Þar segir enn fremur:

„Hatursorðræða og annars konar áróður á sér stað í öllum samfélögum í mismiklum mæli og af mismiklu kappi. Um er að ræða samfélagsmein sem getur haft alvarlegar afleiðingar ef það er látið óáreitt, jafnt á einstaklinga sem og samfélagið í heild sinni. Hatursorðræða getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar fólks eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun flytja opnunarerindi ráðstefnunnar. Að því loknu verður m.a. farið yfir hvað hatursorðræða er, m.a. í skilningi laganna, hérlendis sem og erlendis, auk þess sem farið verður yfir hvað íslensk yfirvöld eru að gera til þess að sporna gegn hatursorðræðu. Sigrid Dahl, ráðgjafi hjá barna-, ungmenna- og fjölskyldusviði norska barna- og jafnréttisráðuneytisins, mun kynna aðgerðaráætlun norskra stjórnvalda gegn hatursorðræðu, sem við getum örugglega lært mikið af.

Í pallborðsumræðum á ráðstefnunni verða mismunandi birtingarmyndir fordóma og haturs í íslensku samfélagi ræddar en á meðal þeirra sem taka þátt í pallborðsumræðunum er Pape Mamadou Faye, framherji Víkings Ólafsvíkur. Hann þekkir af eigin reynslu kynþáttahatrið sem finna má í knattspyrnunni og mun deila þeirri reynslu með ráðstefnugestum og ræða mögulegar lausnir ásamt fleiri þolendum hatursorðræðu.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og dagskrá hennar má finna á vef Æskulýðsvettvangsins þar sem einnig er hægt að skrá sig, sjá hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.