Julie fékk afhent óhugnanlegt bréf í lestinni: Í kjölfarið greip hún til óvenjulegs ráðs

Hér sést bréfið sem hún fékk afhent.
Julie Dragland Hér sést bréfið sem hún fékk afhent.

Julie Dragland, 32 ára bandarísk kona, lenti í óhugnanlegri reynslu þegar hún var á leið heim til sín í lest síðastliðinn laugardag. Ókunnug kona vatt sér upp að henni og rétti henni bréf þar sem henni var hótað öllu illu ef hún færi ekki að fyrirmælum.

„Það er tveimur byssum miðað á þig núna. Ef þú vilt lifa, er þér hollast að láta mig fá veskið + símann + og ekki snúa þér við og ekki vera með læti,“ stóð meðal annars í bréfinu. Umrædd lest var á leið til Dublin í Kaliforníu frá Daly City þegar atvikið varð síðdegis á laugardag.

Julie vissi sem var að þarna var einhver sem vildi hafa af henni verðmæti með einfaldri en árangursríkri aðferð. Í aðstæðum sem þessum eru góð ráð dýr en í stað þess að láta hinn óprúttna aðila komast upp með ránið ákvað Julie að fara aðra leið. Hún ákvað að sviðsetja yfirlið til að draga athygli annarra í lestinni að sér.

Julie segist telja sig hafa séð sambærilegt atriði í sjónvarpsþáttunum vinsælu Law and Order.

Í samtali við CBS San Francisco segir Julie að hún hafi byrjað að hristast og skjálfa. Aðrir farþegar hafi veitt þessu athygli og spurt hana hvort það væri í lagi með hana. Þetta varð til þess að þjófurinn yfirgaf lestina næst þegar hún stöðvaði og Julie hélt verðmætum sínum.

Hún greindi fyrst frá málinu á Twitter þar sem hún birti mynd af umræddu bréfi. Hún segir að konan sem afhenti henni bréfið hafi verið miðaldra hvít kona með skjalatösku í fanginu.

Hún segir að gefi viðkomandi sig fram við lögreglu muni hún ekki kæra í ljósi þess að þjófnaðurinn tókst ekki. Þrátt fyrir það viðurkennir hún að sér hafi verið verulega brugðið. „Ég var mjög hrætt og hugsaði hvort ég yrði virkilega skotin ef ég afhenti ekki símann og veskið.

Lögreglan hefur farið yfir eftirlitsmyndavélar í lestinni með það að marki að finna hinn grunaða þjóf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.