fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Hópastarfið var kæft í „fagleikriti fáránleikans“

Starfaði með unglingum í vanda í 23 ár – Hrakinn úr starfi fyrir að reyna að hjálpa stúlkum

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 5. ágúst 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Bergmann Davíðsson er 47 ára og búsettur á Selfossi. Hann ákvað snemma á ævinni að starfa með börnum og unglingum í vanda vegna þess að hann þekkti það af eigin raun. Hann ólst sjálfur upp sem olnbogabarn í samfélaginu og var sendur á milli heimila víða um land. Ástæðan var lesblinda en skólakerfið kunni ekki að taka á vandamálum sem því á þeim tíma. Afleiðingarnar voru skelfilegar og Davíð mátti þola ofbeldi og misnotkun í vist sinni.

Um langa hríð hjálpaði hann ungum drengjum, sem komnir voru í afbrot og neyslu, við að rjúfa vítahringinn. En hann gerði það ekki eftir handbókinni heldur með því að nálgast þá á jafningjagrundvelli og sýna þeim afleiðingarnar í verki. Helsta fyrirstaðan var þó kerfið sjálft sem orsakaði að starfið sem hann hafði byggt upp með drengjunum lagðist af.

16 ára drengur með um 100 mál á bakinu

„Ég er búinn að koma ansi víða við í þessu kerfi,“ segir Davíð sem sagði skilið við starfið í febrúar síðastliðnum. „Ég byrjaði í útideildinni á Tryggvagötu árið 1994. Það var frábært úrræði. Vettvangur þar sem foreldrar og börn gátu mætt án þess að panta tíma.“ Þar voru haldnir útitónleikar og ýmislegt fleira gert fyrir börnin. En útideildinni var lokað skömmu seinna vegna skipulagsbreytinga hjá Reykjavíkurborg.

Davíð vann þá með félagsmálastofnun í Árbæjarhverfi en hélt síðan til Eyjafjarðar. Hann starfaði sem unglingaráðgjafi á Dalvík, Ólafsfirði og í Hrísey í um það bil eitt og hálft ár. Vorið 2001 hóf hann störf á meðferðarheimilinu Stuðlum í Reykjavík þar sem hann vann í 16 ár.

Í útideildinni sat hann yfirheyrslur yfir ungum drengjum hjá lögreglunni. Hann sá sömu drengina koma aftur og aftur, stundum nokkrum sinnum í viku. Einn 14 ára drengur hafði safnað upp 27 málum á málaskrá hjá lögreglunni. Tveimur árum síðar voru málin orðin nærri 100 og hann kominn með þrjá dóma og ótal fjársektir á bakið. Margir af þeim drengjum sem hann kynntist urðu síðar landsþekktir afbrotamenn á fullorðinsárum.

Flugurnar settust á skítinn

Eftir nokkurn tíma var Davíð orðinn uppgefinn á ástandinu og fannst aðferðirnar algjörlega tilgangslausar. Drengirnir voru settir fyrir framan skrifborð og messað yfir þeim. Davíð segir þá hafa tekið „kamelljónið“ á þetta. Skilaboðin fóru inn um annað eyrað en út um hitt, þeir meðtóku ekkert.

Hann sagði Birni „Væringja“ Ragnarssyni, sem vann með honum í útideildinni, frá þessu og spurði hvort það væru ekki til einhverjar aðrar leiðir. En Björn kom að stofnun Mótorsmiðjunnar svokölluðu árið 1994.

„Þegar þú setur hrossaskít út á tún þá koma ákveðnar flugur og setjast á skítinn.“

Björn sagði Davíð að hann hefði fengið símtal frá sóknarpresti Fella- og Hólakirkju vegna strákagengis sem var til vandræða í hverfinu. Þá hafi Björn beitt „mykjukenningunni“; „Þegar þú setur hrossaskít út á tún þá koma ákveðnar flugur og setjast á skítinn.“ Björn klæddi sig í leðurgallann, ók á mótorhjóli sínu upp í hverfi, kveikti sér í sígarettu og beið. „Auðvitað komu flugurnar og settust á skítinn.“

Hann leiddi þá úr Breiðholtinu niður í útideild þar sem þeir hittust svo vikulega og bökuðu pítsur frá grunni. Þeir horfðu á kvikmyndir og ræddu um mótorhjól. „Seinna komu þeir með skellinöðrurnar sínar sem voru búnar að vera í geymslu í mörg ár og löguðu þær. Þannig varð Mótorsmiðjan til.“

Fór með drengina á vettvang

Davíð og Björn fóru til annarra Norðurlanda til að kynna sér hvernig tekið væri á ungum afbrotamönnum þar. Davíð segir það hafa verið magnaða lífsreynslu og þeir hafi séð mörg mjög góð úrræði sem voru í boði fyrir krakkana. Lögreglumenn smíðuðu racer-hjól með þeim, spiluðu körfubolta, sömdu tónlist og margt fleira.

„Það var stórkostlegt að horfa á þetta.“
Sá árangur af hópastarfinu „Það var stórkostlegt að horfa á þetta.“

Mynd: Brynja

Eftir að Björn kom heim fór hann að hugsa hvað hann gæti gert til að aðlaga þetta íslenskum veruleika. Þá ákvað hann að kom á fót hinu svokallaða hópastarfi. Lykillinn að því starfi var það sem Davíð kallar „learning by doing“. Hann fór með unga drengi á vettvang þar sem þeir gátu fundið fyrir afleiðingum gjörða sinna á eigin skinni.

Davíð fékk björgunarsveitir til samstarfs. „Þetta opnaði fyrir þeim nýjan veruleika. Að kynnast öðruvísi spennu. Lögbrot eru oft á tíðum framin vegna spennunnar til að byrja með og eiturlyfjaneysla líka.“ Drengirnir voru meðal annars látnir síga niður kletta. Þar lærðu þeir að treysta á búnaðinn og sjálfa sig. „Þeir stóðu á brúninni, nötrandi á beinunum við að fara niður örfáa metra. Þeir treysta engum. En sigurinn við það að komast niður … þetta var mögulega stærsti sigur þeirra í lífinu. Það var stórkostlegt að horfa á þetta.“

Hann fór með þá á gúmmíbát út á sjó við Seltjarnarnes. Þar voru þeir settir út í blautbúning og skildir eftir í svolitla stund, aleinir í öldugangi. Þetta vakti þá til umhugsunar um hvað það er að vera einsamall og hafa litla stjórn á aðstæðunum. Þeir komu hræddir upp í bátinn aftur en þetta fékk þá til að hugsa um þær ógöngur sem afbrot geta leitt mann út í.

Margt fleira í þessum dúr var gert í hópstarfinu. Þeir fóru á sjúkrahús til að sjá afleiðingar ofbeldis og vímuefnaneyslu. Í reykköfun hjá slökkviliðinu til að læra að treysta félögum sínum. Til fyrrverandi fanga sem sagði þeim frá tilfinningunum sem fylgja því að sitja á bak við lás og slá. Til tryggingafélaga til að læra um bótaskyldu. „Ég fékk þá alltaf til að tengja.“

Þeim mistekst í skólakerfinu

Davíð segir hópstarfið hafa fjallað um það að „vera heyrður og séður á jafningjagrundvelli“ og hann segir árangurinn af starfinu vera ótvíræðan. „Ég er enn þá að heyra í þessum drengjum, stundum vikulega. Þeir biðja um leiðbeiningar í lífinu eða koma í kaffi til að spjalla um daginn og veginn.“ Hann segir að drengirnir hafi lært að treysta honum og hafi sagt honum ýmsa hluti úr lífi sínu sem þeir hefðu aldrei sagt neinum yfir skrifborðið á einhverjum fundi.

„Þessir strákar sem koma til okkar eru langflestir með bókina sem sinn stærsta óvin í lífinu. Þeim mistekst í skólakerfinu. Þeir eru með lágt sjálfsmat og þeir hífa það upp með afbrotum og neyslu. Þar fá þeir viðurkenningu með sínum líkum.“

Með hundinum Töffara.
Davíð Með hundinum Töffara.

Mynd: Brynja

Hann segir flesta þessa stráka hafa mikla á hæfileika á vissum sviðum en hraði samfélagsins og kröfur, til dæmis um prófskírteini og tölvukunnáttu, sé svo mikill að þeir finni sér ekki farveg. „Ég fór einu sinni með dreng á slökkviliðsstöðina og hann stóð sig með prýði í öllu sem við gerðum þar. Allt í einu opnuðust nýjar dyr fyrir honum.“ En þegar hann komst að því hvað hann þyrfti að gera til að verða slökkviliðsmaður, sérstaklega varðandi bóknám, „þá lokuðust dyrnar aftur.“

Davíð segir ekki eingöngu hægt að kenna kerfinu um hvernig komið er fyrir þessum strákum, málið sé mun flóknara en það. „En við gætum staðið okkur svo miklu betur. Af hverju byrjum við ekki fyrr í stað þess að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði?“

Hann veltir því einnig fyrir sér hvort starf, sambærilegt hópstarfinu, ætti ekki heima í skilorðseftirliti. Samkvæmt hegningarlögum sé mögulegt að dæma menn til slíkrar meðferðar en það sé engin hefð fyrir því hér á landi.

Frumkvæði kæft innan kerfisins

Davíð segist hafa fengið töluverða andspyrnu frá barnaverndinni vegna hópstarfsins og það sé erfitt að hafa frumkvæði í þessu kerfi. „Það er fjöldi hæfs og mjög góðs fólks að vinna í þessu kerfi en það þorir engu vegna ótta um að verða rekið. Fólkið sem stjórnar þessu kerfi hefur ekki talað við ungling í 10–15 ár. Það er í engum tengslum við þennan veruleika.“

Þann 14. nóvember var Davíð boðaður á fund hjá Barnastofu þar hann var sakaður um að hafa valdið hagsmunaárekstri í sínum störfum. Davíð hafði spurt starfsmann á neyðarvistun barnaverndar Reykjavíkur hvort ekki væri þörf á hópstarfi fyrir stúlkur, sambærilegu því sem hann stýrði fyrir drengi.

„Henni leist vel á þetta. Ég hafði samband við Vilborgu Gissurardóttur pólfara til þess að fá hana með okkur í lið. Það er fullt af flottum fyrirmyndum þarna úti fyrir stúlkur í vanda. Þetta fór svo mikið fyrir brjóstið á fólkinu í barnavernd Reykjavíkur að þetta var tilkynnt til Barnastofu. Ég var tekinn á teppið og fékk áminningu.“

„Hvar finnast þær svo? Í einhverju greni með fullorðnum síglæpamönnum.“

„Af hverju var hópstarf með stelpum svona hættulegt? Þetta eru stelpur sem hafa sjálfsmyndina í klessu, þær strjúka af heimilum sínum og hvar finnast þær svo? Í einhverju greni með fullorðnum síglæpamönnum. Af hverju mátti ekki reyna eitthvað annað?“ spyr Davíð.

Davíð segist ekki sjá hagsmunaáreksturinn í þessu „fagleikriti fáránleikans“. „Þau sögðu að ég væri að notfæra mér hópstarfið í hagnaðarskyni.“ Hann fékk lítið borgað fyrir starfið, 222 þúsund krónur fyrir skatt fyrir mikla vinnu sem fór aðallega fram á kvöldin. Starfið hafi fyrst og fremst verið unnið af hugsjón.

Hann segist hafa velt því fyrir sér að leita til umboðsmanns Alþingis til að fá áminningunni hnekkt en hann hefur einfaldlega ekki trú á kerfinu og vill ekki eyða meiri tíma og orku í þetta. Hann ákvað því í febrúar á þessu ári að segja upp störfum hjá Stuðlum og snúa sér alfarið að öðru, það væri ekki hægt að starfa áfram undir þessum þrýstingi.

„Helsti dragbítur kerfisins er kerfið sjálft.“ Í dag er enginn að sinna hópstarfinu sem Davíð finnst mjög miður. Hann hefur þó ekki alfarið sagt skilið við það að vinna fyrir börn í vanda því hann situr nú við skriftir að bók sem mun bera titilinn „Bókin er óvinur minn.“ Hún fjallar um olnbogabarn í skólakerfinu sem hífir upp sjálfsmyndina með afbrotum og neyslu, byggð á reynslu hans úr starfinu en skrifuð í skáldsagnastíl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar