fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

10 athyglisverðustu hugmyndirnar í Betri Reykjavík

Metfjöldi hugmynda barst í ár – Risasprellikarl, hundakaffihús og gapastokkur

Auður Ösp
Laugardaginn 15. apríl 2017 16:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg hefur síðustu sjö ár efnt til hugmyndasöfnunar þar sem íbúar geta komið með uppástungur að framkvæmdum og viðhaldsverkefnum í borginni. Frestur til að skila inn hugmyndum rann út þann 24. mars síðastliðinn og mun kosning fara fram í haust. Fram kemur í tilkynningu að metþátttaka hafi verið í ár en alls voru 1.080 hugmyndir lagðar fram. Til 8. apríl verður mögulegt að rökstyðja, ræða og gefa hugmyndum vægi á vefnum hverfidmitt.is en hugmyndir sem teknar verða í áframhaldandi vinnslu verða að fá fylgi tíu íbúa. Þá mun hverfisráð borgarinnar taka ákvörðun um 25 hugmyndir fyrir borgarhlutana tíu í júní næstkomandi og í október verður loks blásið til kosninga meðal íbúa Reykjavíkur.

Uppástungurnar eru jafn mismunandi og þær eru margar og inni á milli leynast nokkrar sem myndu líklega seint teljast raunsæjar. DV tók saman nokkrar af athyglisverðustu hugmyndunum í ár.

Miðborg

Gapastokkur á Austurvöll

Ragnar Björnsson stingur upp á að komið verði fyrir gapastokki á Austurvelli fyrir „spillta stjórnmálamenn sem hafa logið sig til valda og brugðist trausti kjósenda.“ Leggur Ragnar til að gestum og gangandi verði boðið að rassskella stjórnmálamennina fyrir væga þóknun sem gæti runnið til Fjölskylduhjálpar. Aðspurður um rök segir hann þau liggja ljós fyrir.

Skilti fyrir endurnar

Sveindís Anja Vilborgar stingur upp á að komið verði upp fallegu skilti við Tjörnina í Reykjavík þar sem vegfarendum er ráðið frá því að gefa öndunum brauð. Í stað þess væru vegfarendur hvattir til að gefa fuglunum fæðu á borð við steinalaus vínber, elduð hrísgrjón og fuglafræ. Í rökstuðningi segir Sveindís að yndislegt fuglalíf sé við Tjörnina en það sé þó vel vitað að brauð geri fuglunum ekki gott. „Skiltið væri fallegt, skýrt og einfalt og kæmi skilaboðunum vel áleiðis, fuglarnir yrðu heilbrigðari og Tjörnin hreinni.“

Stytta til heiðurs Jóni Páli

Hólmfríður Ben Benediktsdóttir stingur upp á að reist verði stytta af Jóni Páli Sigmarssyni kraftlyftingamanni að hnykla vöðvana. Styttan gæti verið áletruð með hinum fleygu orðum „Ekkert mál fyrir Jón Pál.“ Stingur Hólmfríður upp á að styttunni verði komið fyrir í Hljómskálagarðinum og að þá mættu vera þar í kring skemmtileg útitæki til að efla krafta, svo sem aflraunasteinar, fyrir bæði börn og fullorðna.

„Orðatiltæki Jóns Páls: „Ekkert mál fyrir Jón Pál“ lifir meðal manna en yngra fólk veit ekki hvaðan það er sprottið þó það þekki og jafnvel noti orðatiltækið. Höldum nafni þessa sterkasta manns á lofti því ímynd hans er bæði jákvæð og skemmtileg,“ ritar Hólmfríður en uppástunga hennar fær einkar góð viðbrögð á síðunni.

Reykjavík Eye

Tómas Helgi Bergs stingur upp á parísarhjóli við Hallgrímskirkju, sem yrði þá í líkingu við London Eye-hjólið fræga í Lundúnum. Hjólið myndi heita Reykjavík Eye og segir Tómas að hægt sé að fá meiri yfirsýn og taka betri myndir úr hjólinu en úr Hallgrímskirkjuturni. Þannig myndu skapast betri aðstæður til ljósmyndunar fyrir erlenda ferðamenn og Íslendinga.

Parísarhjól við Hallgrímskirkju er ein af hugmyndunum sem kom fram.
Reykjavík Eye Parísarhjól við Hallgrímskirkju er ein af hugmyndunum sem kom fram.

Kaffihús fyrir ferfætlinga

Heiða Dóra Jónsdóttir stingur upp á sérstöku hundakaffihúsi en slíka staði má finna víða erlendis. „Væri ekki gaman að geta tekið hunda inn á kaffihús með sér í staðinn fyrir að tjóðra þá fyrir utan við staur? Heppileg staðsetning væri milli Klambratúns og Hlemms, eða þar í kring,“ ritar Heiða en tæplega 60 manns hafa lýst velþóknun á uppástungunni á síðunni.

Breiðholt

Kisur á öll hjúkrunarheimili

Auður Óskarsdóttir vill fá ketti á öll hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Bendir hún á að mikið sé um heimilislausa ketti í borginni. „Þessir kettir geta gert sig heimakomna inn á hjúkrunarheimili og veitt vistmönnum félagsskap,“ ritar Auður og bætir við að ákveðnar rannsóknir hafa bent til þess að það sé mikill félagslegur ávinningur fyrir einstaklinga að umgangast gæludýr. „Oft er mikill félagsskapur af þessum dýrum sem myndi koma sér vel fyrir vistmenn hjúkrunarheimila, sem eiga það til að vera einangraður hópur.“

Risasprellikarl

Arnar Snæberg Jónsson stingur upp á að stærsta sprellikarli í heimi verði komið fyrir á hentugu grænu svæði í Breiðholti. „Settur verði niður 10–12 metra hár staur og sprellikarlinn festur tryggilega efst á hann. Áhugasamir sprellarar geta síðan kíkt við og togað í spottann og séð karlinn veifa höndum og fótum í einskærri gleði við mikla ánægju viðstaddra. Síðan mætti skipta út sprellikarlinum reglulega og setja upp sprellikonu og jafnvel sprellidýr. Þannig yrði fjölbreytni tryggð, enda fylgir öllu sprelli nokkur alvara.“

Arnar bætir við að eftir talsverða rannsóknarvinnu virðist sem að risasprellikarl af þessu tagi sé einsdæmi á heimsvísu. Þetta yrði því fyrsti sprellikarlinn til almenningsnota og líklega sá stærsti í heimi. „Fyrirbærið er því einstakt á heimsvísu, skemmtilegt, gott aðdráttarafl og öflug markaðssetning á Breiðholtinu.“

Kjalarnes

Kynningarskilti á Kjalarnesið

Elfa Björk Ellertsdóttir stingur upp á að komið verði fyrir kynningarskilti þar sem fólk er hvatt til þess að staldra við á Kjalarnesi og njóta náttúrufegurðar, sjóbaða og fleiri tómstunda sem nesið hefur að bjóða. „Það þarf að vekja athygli fólks á Kjalarnesi og að þetta sé meira en hjáleið á þjóðvegi 1.“

Hlíðar

Bjórgarður við Kjarvalsstaði

Bolli Héðinsson leggur til að sumarbjórgarði verði komið fyrir við Kjarvalsstaði, í samstarfi við bjórframleiðendur. Bjórgarðurinn yrði opinn frá maí til loka ágúst og eingöngu um helgar. Hægt væri að setja upp bjórgarðsborð og fá hljómsveit til að leika tónlist. Bolli bendir á að þeir sem þekki til bjórgarða í Þýskalandi viti hversu lifandi mannlíf getur þrifist þar. Auk bjórs væri hægt að bjóða upp á mat beint af grilli.

Vesturbær

Gönguleið helguð Þórbergi Þórðarsyni

Elfa Björt Gylfadóttir stingur upp á að heiðruð verði minning Þórbergs Þórðarsonar rithöfunds með því að merkja leiðina sem Þórbergur gekk daglega frá heimili sínu við Hringbraut um Vesturbæinn. Þórbergur bjó lengi við Hringbraut og á fleiri stöðum í Vesturbænum, sem kemur mikið við sögu bókum hans.

Stingur Elfa upp á að á gönguleiðinni verði komið fyrir skilti með fróðleik, til dæmis um Müllersæfingar, orðasöfnun eða upplýsingar og/eða texti úr bókum Þórbergs, og vekja þannig áhuga á verkum hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar