Fréttir

Thomas úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 15:32

Héraðsdómur Reykjaness hefur orðið við kröfu lögreglu þess efnis að Thomas Møller Olsen, sem grunaður er um aðild að andláti Birnu Brjánsdóttur, sæti gæsluvarðhaldi næstu tvær vikurnar.

Þetta staðfesti Jón H.B. Snorrason, saksóknari hjá lögreglu, í samtali við RÚV. Jón sagði að lögregla hefði farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Thomas hefur nú setið í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur.

Aðspurður hvort það styttist í að gefin verði út ákæra sagði Jón að lögregla hefði tvo mánuði til stefnu. „Ég geri ráð fyrir að við verðum tilbúnir með það í tíma.“

Þá sagðist Jón eiga von á því að gæsluvarðhaldsúrskurðinum yrði áfrýjað til Hæstaréttar af verjanda Thomas.

Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér á fjórða tímanum í dag kemur fram að mál Birnu Brjánsdóttur hafi verið í algjörum forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmargir hafi komið að rannsókn þess, en þegar mest var unnu nokkrir tugir starfsmanna embættisins að málinu. Rannsókninni hefur miðað vel, en enn er beðið lokaniðurstöðu krufningar og lífsýnarannsókna.

Ekki hafa borist nýjar upplýsingar um ferðir rauða Kia Rio bílsins laugardagsmorguninn 14. janúar frá kl. 7 – 11.30.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af