fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Innlendur annáll – Febrúar

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 29. desember 2017 15:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

1. febrúar – Hlutabréf Icelandair hríðfalla

Í kjölfar tilkynningar ársuppgjörs Icelandair Group hríðféllu hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands, eða um 22,85%. Ástæðan fyrir slæmu uppgjöri var rakin til þess að bókanir á flugferðum voru hægari en gert var ráð fyrir.

2. febrúar – Átta ára fangelsi fyrir manndrápstilraun og nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi karlmann í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás gegn sambýliskonu sinni og barnsmóður í Hafnarfirði í fyrrasumar. Var hann talinn hafa misþyrmt konunni í um tvær klukkustundir.

3. febrúar – Birna borin til grafar

Útför Birnu Brjánsdóttur fór fram í Hallgrímskirkju. Birna hvarf að morgni 15. janúar og fannst látin við Selvogsvita 22. janúar, eftir mikla leit lögreglu, björgunarsveita, Landhelgisgæslu og almennings. Aðstandendur afþökkuðu blóm og kransa og fóru þess á leit við fjölmiðla að taka ekki myndir af syrgjandi fólki.

6. febrúar – Benedikt vill draga úr notkun reiðufjár

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði nefnd sem skoða átti aðstæður og leiðir þess hvernig minnka mætti notkun reiðufjár hér á landi, í viðleitninni til að berjast gegn svartri atvinnustarfsemi. Benedikt lagði til að fyrirtæki hættu að greiða laun í peningum og verðþak mætti setja á varning í smásölu, sem greiddur væri með reiðufé. Hugmyndir Benedikts hlutu mikla gagnrýni.

6. febrúar – Birgitta laus úr Brasilíufangelsi

Birgitta Gyða Bjarnadóttir var dæmd í fimm ára fangelsi í Brasilíu árið 2015 fyrir kókaínsmygl ásamt kærasta sínum, Hlyni Kristni Rúnarssyni. Hún var látin laus 6. febrúar eftir að hafa áfrýjað dómnum, en hún lýsti aðstæðunum í fangelsinu sem „skelfilegum“.

Héldu áhrifamikinn fyrirlestur um nauðgun.
Þórdís Elva og Tom Stranger Héldu áhrifamikinn fyrirlestur um nauðgun.

7. febrúar – Þórdís hélt fyrirlestur með nauðgara sínum

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hélt áhrifamikinn TED-fyrirlestur, sem miðlað var á netinu, ásamt Tom Stranger, manninum sem nauðgaði Þórdísi er hún var 16 ára. Tilefnið var útgáfa bókar þeirra, Handan fyrirgefningar, þar sem þau kryfja málið til mergjar en þar segir Þórdís meðal annars að ekki sé nóg að brotaþolar tjái sig, heldur þurfi gerendur einnig að rjúfa þögnina og axla ábyrgð.

7. febrúar – Óánægja lögreglu með fréttir RÚV af Birnumálinu

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem fór með rannsókn á láti Birnu Brjánsdóttur, sagði við DV að óánægju gætti meðal þeirra sem að rannsókninni kæmu, vegna fréttaflutnings RÚV af málinu kvöldið áður, þar sem fram kom að dánarorsök Birnu hefði verið drukknun. Grímur hafði þennan sama morgun, í viðtali við RÚV, ekki viljað gefa upp banamein Birnu, þar sem það gæti skaðað rannsóknarhagsmuni málsins.

10. febrúar – Nýstárlegir Costco-skilmálar kynntir

Fyrirhuguð opnun bandarísku verslunarkeðjunnar Costco var kynnt fyrir almenningi í febrúar. Þar komu fram nýstárlegar reglur sem eru óþekktar í verslun hér á landi, meðal annars að allar kvittanir væru skoðaðar við útgöngu, viðskiptavinir þyrftu að klæðast skyrtum og skóm og handhafar Costco-korta yrðu að vera minnst 18 ára og aðeins handhafinn gæti notað kortið. Þá eru dýr bönnuð, en aðeins lögreglumenn mættu bera skotvopn.

12. febrúar – Bjargaði börnunum úr brennandi húsi

Eldur kviknaði í íbúð fjölbýlishúss í Hraunbænum um 11-leytið þann 12. febrúar. Unnar Þór Sæmundson á heima í íbúðinni fyrir ofan eldsupptökin og flúði með fjölskyldu sinni úr íbúðinni fram á reykfylltan stigaganginn. Ekki urðu meiri háttar slys á fólki, en einn 15 ára drengur brenndist þó á höndum.

12. febrúar – Tilkynntu andlát lifandi konu

Guðný Ásgeirsdóttir, 94 ára íbúi á dvalarheimili fyrir aldraða, var fyrir mistök tilkynnt látin til ættingja sinna. Þegar barnabarn hennar kom til að kveðja hana hinsta sinni, opnaði hún augun og var hin hressasta. Kom í ljós að nafnaruglingur hafði átt sér stað þar sem önnur kona með svipað nafn hefði látist og hringt hefði verið í ættingja rangrar konu.

17. febrúar – Forsetinn stendur við loforðið og gefur laun sín

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, stóð við það loforð sitt að gefa hluta launa sinna til góðgerðarmála, eftir að kjararáð ákvað að hækka laun æðstu embættismanna. Samtals hefur Guðni gefið samtals 1,2 milljónir síðan í nóvember 2016, eða 300.000 á mánuði. Guðni sagðist ekki hafa beðið um þessa launahækkun, ekki vitað af henni, né þurfa á henni að halda.

18. febrúar – Meirihluti á móti áfengisfrumvarpi

Samkvæmt netkönnun DV var meirihluti landsmanna á móti nýju áfengisfrumvarpi sem leyfði sölu áfengis í verslunum, eða 53,6%. Þeir sem voru fylgjandi frumvarpinu voru 44,2% en óvissir voru 2,1% Samtals tóku 6.735 þátt í könnuninni.

20. febrúar – Staðfestir hótun ráðherra í kjaradeilu

Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, hélt því fram að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, hefði hótað deiluaðilum í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu, skömmu áður en samningar tókust. Þorgerður neitaði sök, en Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands, staðfesti frásögn Vilhjálms og sagði framkomu ráðherra, henni „ekki til sóma“.

Stóð í ströngu í sjómannaverkfalli.
Þorgerður Katrín Stóð í ströngu í sjómannaverkfalli.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

21. febrúar – Ásta Guðrún baðst afsökunar á íbúðarkaupaummælum

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, birti afsökunarbeiðni á Facebook vegna orða sem hún lét falla í Silfrinu, um að hún sæi sér ekki fært að geta keypt íbúð fyrir þrítugt. Ásta verður þrítug eftir þrjú ár og laun hennar eru um 800.000 á mánuði, eftir skatt. Sagði Ásta að orð hennar hefðu verið sögð í „hugsanaleysi“.

22. febrúar – Svanhildur ráðin forstjóri Hörpu

Svanhildur Konráðsdóttir, áður sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, var ráðin forstjóri Hörpu. Alls sóttu 38 um starfið en samdóma álit ráðgjafa og stjórnar Hörpu var um ráðninguna.

  1. febrúar – Metsnjókoma
    Sökum mikillar snjókomu á suðvesturhorninu þurfti lögregla að biðja fólk um að vera ekki á ferli að ástæðulausu og halda sig heima þar til búið væri að ryðja helstu götur. Mikið var um fasta bíla sem töfðu snjómokstur og mældist snjódýpt 51 cm, en metið í febrúarmánuði er 48 cm frá 1952. Mesta snjódýpt sem mælst hefur er 55 cm frá 1937.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar