fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Ég vildi að ég gæti bara sleppt jólunum og þyrfti ekki að pína mig á hverjum degi“

Þúsundir Íslendinga hafa ekki efni á að halda jól – Álag, kvíði og niðurlæging – „Afskaplega niðrandi að þurfa að reiða sig á náðir annarra til að geta veitt börnunum sínum það sem þau eiga skilið“

Auður Ösp
Laugardaginn 16. desember 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er svo grátleg staða, að þurfa að neita börnunum sínum um allt. Ég er sjálf algjört jólabarn og mér finnst skelfilega erfitt að þurfa að fela það fyrir þeim hvað ég kvíði jólunum mikið.“ Þetta segir einstæð móðir á landsbyggðinni en hún á erfitt með að sjá fram á að geta haldið jól með börnunum sínum. Hún þarf að reiða sig á samfélagsmiðla til að geta sett mat á borðið á aðfangadagskvöld og hefur aldrei keypt flugelda fyrir gamlárskvöld.

Fjöldi íslenskra fjölskyldna hefur ekki efni á að halda heilög jól nú í ár. Stór hluti hópsins eru mæður á örorkubótum sem sjá ekki aðra lausn en að leita á náðir hjálparstofnana eða Facebook fyrir hátíðarnar. Þær lýsa skömm og niðurlægingu vegna aðstæðna sinna en einnig þakklæti fyrir gjafmildi og náungakærleika Íslendinga sem virðist vera allsráðandi í desember. DV ræddi við nokkrar þessara kvenna en allar eiga þær það sameiginlegt að vilja gera hvað sem er til þess að börn þeirra þurfi ekki að líða skort á jólunum.

Erfitt að kyngja stoltinu

„Ég er búin að sækja um aðstoð alls staðar. Það er alveg ótrúlega erfitt að stíga þetta skref og biðja um hjálpina. Í gær fór ég ásamt mömmu minni að sækja um hjálp fyrir hana í Smárakirkju. Á meðan við stóðum þarna í biðröðinni þá fannst mér allir vera að horfa á okkur.“

Anna er einstæð fimm barna móðir sem búsett er á landsbyggðinni. Fleiri en eitt af börnunum glíma við raskanir á borð við ofvirkni, athyglisbrest og mótþróaþrjóskuröskun sem kallar á aukin útgjöld. Hún er óvinnufær vegna liðavefjagigtar auk þess sem hún glímir við afleiðingar slyss sem hún lenti í fyrir nokkrum árum. Að viðbættum barnabótum, meðlagi og öðru hefur hún rúmlega 220 þúsund krónur til ráðstöfunar á mánuði. Eftir reikninga og nauðsynlegustu útgjöld á hún rúmlega 40 þúsund til að lifa af mánuðinn.

Eins og stendur á hún rúmlega 15 þúsund krónur til að lifa af út desember. Ofan á erfiðleikana varð Anna fyrir því áfalli á dögunum að missa föður sinn. Þar sem faðir hennar var í Svíþjóð þá sér fjölskyldan fram á að þurfa að flytja hann heim svo að útför hans geti farið fram. Kostnaðurinn við flutninginn hleypur á rúmlega hálfri milljón og setur það því stórt skarð í reikninginn.

Lokað var fyrir umsóknir hjá Fjölskylduhjálp og mæðrastyrksnefnd í byrjun mánaðarins. Anna vekur athygli á að einstaklingar sem búsettir eru á landsbyggðinni hafa ekki sama aðgang að aðstoð hjálparstofnana fyrir jólin og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra fékk hún úthlutun frá sjóði í heimabæ sínum, inneignarkort í matvöruverslun upp á 25 þúsund krónur, en sú upphæð dugar skammt með stóran barnahóp.

Þegar blaðamaður ræddi við Önnu var hún stödd í Reykjavík til að fylgja einu af börnunum til læknis og ætlaði að nota tækifærið og sækja um aðstoð í leiðinni.

„Ég talaði við Hjálparstofnun kirkjunnar í morgun og fékk þá þau svör að þar sem ég byggi á landsbyggðinni þá þyrfti ég að koma aftur til þeirra og sækja 20. desember. Ég má ekki senda neinn fyrir mig heldur verð ég að koma sjálf. Fólk sem býr úti á landi og þarf aðstoð á ekki peninga til að koma suður fjórum dögum fyrir jól. Ég hef einfaldlega ekki efni á því að koma suður aftur.“

„Þetta er bara það sem þau hafa og þau eru þakklát fyrir allt sem þau fá en auðvitað spyrja þau af hverju þessi og þessi eigi þennan bíl og þennan leik en ekki þau.“

Hún kveðst helst binda vonir við að fá hjálp frá einstaklingum í gegnum viðeigandi hjálparsíður á Facebook. Hún er til að mynda á biðlista hjá Áslaugu Guðnýju Jónsdóttur sem heldur úti Facebook-síðunni Matarhjálp Neyðarkall Jólaaðstoð.

„Síðustu jólin hefur þetta gengið hræðilega en oft hefur þetta reddast einhvern veginn. Í fyrra vorum við til dæmis með læri á gamlárskvöld af því að bóndi sem býr nálægt okkur kom og gaf okkur það. Það var líka Facebook-síðunni Jólakraftaverk að þakka að ég gat gefið börnunum mínum Legójóladagatal. En þau þekkja það til dæmis ekki að fara og sprengja rakettur.

Þetta er bara það sem þau hafa og þau eru þakklát fyrir allt sem þau fá en auðvitað spyrja þau af hverju þessi og þessi eigi þennan bíl og þennan leik en ekki þau. Um daginn þurfti ég að neita þeim um bíl í Hagkaup sem kostaði 600 krónur. Dóttir mín var til dæmis að æfa fimleika og var lögð í grimmilegt einelti af því að hún var ekki í sömu fötum og hinir. Hún var ekki í Adidas-skóm og hún var ekki í 66 gráður norður-úlpu heldur úlpu sem við fengum gefins á Facebook.“

Mynd: Reuters

Grét af gleði

„Það er afskaplega niðrandi að þurfa að reiða sig á náðir annarra til að geta veitt börnunum sínum það sem þau eiga skilið. Að þurfa að biðja fólk að redda sér brauði og osti svo maður geti gefið börnunum sínum nesti í skólann. En maður verður bara að sætta sig við það og kyngja stoltinu. Ég er alveg til í að gera lítið úr mér fyrir börnin mín, ég er til í að gera það sem þarf svo þau geti upplifað góð jól. Þetta er þeirra hátíð.“

Kristín Hall er öryrki vegna MS-sjúkdóms og flogaveiki og býr í leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu ásamt þremur börnum á aldrinum tveggja til þrettán ára. Sökum sjúkdómsins á hún oft erfitt með að sinna yngstu dóttur sinni sem einnig hefur glímt við mikil veikindi. Fjölskylda hennar er búsett erlendis og getur Kristín því takmarkað leitað til hennar eftir hjálp. Barnsfaðir Kristínar hefur að hennar sögn reynst henni afskaplega vel en hefur sjálfur þurft að taka á sig vinnu og tekjuskerðingu til að geta verið til staðar fyrir hana og börnin. Fjölskyldan flutti heim í vor eftir nokkurra mánaða búsetu í Þýskalandi og hefur undanfarna mánuði barist í bökkum við að koma upp nýju heimili.

Kristín Hall.
Kristín Hall.

„Ég þyki hins vegar of tekjuhá sem öryrki þannig að ég fæ ekki styrki eða aðstoð en samt fæ ég ekki vilyrði í banka. Ég ætlaði að sækja um styrk hjá Fjölskylduhjálp núna í desember en fór í MS-kast og eyddi degi í rannsóknum og á meðan rann umsóknarfresturinn út.“

Kristín hefur því einkum reitt sig á aðstoð einstaklinga í gegnum hjálparsíður á Facebook og hefur til að mynda þannig náð að halda afmæli fyrir börnin sín. Vinnufélagi barnsföður hennar tók sig til að mynda til og leigði sumarbústað fyrir fjölskylduna þar sem þau munu dvelja yfir jól og áramót. Þökk sé hjálpsemi og samúð annarra þá sér Kristín fram á að geta haldið jól í ár. Öðruvísi gæti hún ekki haldið jól með fjölskyldu sinni.

„Ég er bara orðlaus af þakklæti. Án þeirra væri þetta ekki hægt.“

Kristín var ein þeirra sem komu að stofnun Facebook-síðunnar Jólakraftaverk fyrir nokkrum misserum og átti þá þátt í því að styðja við bakið á öðrum með matargjöfum og styrkjum. Hún trúir því að hún sé að fá það til baka núna.

„Fyrr í haust fékk ég lambaskrokk á ódýru verði frá vinkonu minni og hugsaði þá með mér að það væru svo margir í sömu stöðu og ég og myndu glaðir vilja fá lambalæri og hrygg um jólin. Þannig að ég gaf nokkrum öðrum af skrokknum og tveimur dögum seinna fékk ég gefins þessa sumarbústaðarferð. Svona virkar karma. Íslendingar geta verið svo kærleiksríkir.“

„Ég fékk síðan 50 þúsund króna styrk frá einni konu og get því keypt jólagjafir fyrir börnin. Vinkona mín hefur síðan boðist til að gefa mér 20 þúsund krónur. Ég get ekki annað en grátið af gleði. Án þeirra gæti ég ekki haldið jól. Það verða pakkar og jólabíómyndir og kósíkvöld. Þau vita að jólin snúast ekki bara um pakkana heldur það að vera saman og eiga góðar stundir.“

Aleigan er 251 króna

„Mér finnst það slæmt að núna er bara ein stór úthlutun 20. desember. Sá matur á síðan að dreifast yfir öll jólin. Áður fyrr mátti koma aftur á milli jóla og nýárs og sækja mat. Þetta eru margir frídagar í röð þannig að ég skil ekki hvernig fólk á að fara að því að láta þetta endast. Ég er þó heppin og er boðið í mat hjá ættingjum á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld. Þannig get ég get nýtt matargjafirnar hina dagana,“ segir önnur kona sem DV ræddi við í tengslum við vinnslu greinarinnar. Sú er einstæð móðir tveggja stúlkna en önnur þeirra glímir við mikla andlega fötlun og þroskaskerðingu. Konan er öryrki og býr í félagslegu húsnæði með dætrum sínum.

„Ég veit ekki hvernig jólin verða núna. Ég á 251 krónu eftir og get ekki einu sinni leyst út nauðsynleg lyf fyrir dóttur mína. Maður reynir það sem maður getur til að redda sér. Ég hef reynt að endurgefa til dæmis afmælisgjafir sem ég hef fengið. Og reynt að dreifa kaupunum, kaupa eina gjöf hér og eina gjöf þar. Svo tek ég þátt í öllum Facebook-leikjum sem ég finn og hef verið það heppin að vinna miða fyrir tvo á jólatónleika. Ég þurfti þá að gera upp á milli barnanna og gat einungis boðið annarri þeirra með þar sem ég gat ekki keypt aukamiða. Hin fékk þó að fara á jólaball fatlaðra með skammtímavistuninni. Ég gat réttlætt þetta þannig.“

Mörg heimili sem berjast í bökkum

„Þetta er auðvitað erfitt fyrir börnin en þau skilja þetta. Þetta er eiginlega erfiðast fyrir mig. Þegar þú getur ekki gefið börnunum þínum það sem þau vilja helst í jólagjöf þá líður þér eins og þú sért að bregðast þeim. Ég vildi að ég gæti bara sleppt jólunum og þyrfti ekki að pína mig á hverjum degi.“

Sigrún Dóra Jónsdóttir er fjögurra barna einstæð móðir og öryrki sem búsett er á Suðurnesjum. Hún skildi við eiginmann sinn árið 2016 og hefur undanfarin misseri barist í bökkum fjárhagslega. Þannig hefur hún nýtt sér öll þau úrræði og aðstoð sem í boði er: félagsþjónustu, barnaverndaryfirvöld og kirkjuna. Hún flutti nýverið í enn eitt leiguhúsnæðið með börnin eftir mikinn barning á leigumarkaðnum. Kostnaðurinn við flutningana setti stórt strik í reikninginn og sér hún fram á afskaplega fátækleg jól í ár.

Sigrún Dóra Jónsdóttir.
Sigrún Dóra Jónsdóttir.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Hún býst við því að geta keypt í jólamatinn með gjafakorti hjá Nettó sem hún fær úthlutað frá Hjálparstofnun kirkjunnar. Þá styrkti yndisleg kona Sigrúnu Dóru um 30 þúsund krónur nú á dögunum. „Þannig að ég ætti að geta keypt í matinn og eytt svo þessum örfáu krónum sem eftir eru til að kaupa gjafir. En þá er eftir allt hitt; fatnaður, gjafapappír, skraut. Það er sama hversu ódýrt eða dýrt þú kaupir, þetta eru alltaf svakaleg útgjöld þegar þú þarft að velta fyrir þér hverri einustu krónu sem þú átt.“

„Tölurnar sem Fjölskylduhjálp gefur út sýna bara lítinn hluta þeirra sem eru í sárri neyð. Það eru miklu fleiri heimili sem eru að ströggla.“

Sigrún Dóra bendir jafnframt á að andstætt við það sem margir halda þá er ekki hlaupið að því fyrir hvern sem er að „fá bara lánað hjá mömmu og pabba“ eða „redda málunum“ með því að hækka yfirdráttinn. „Ég get til dæmis ekkert bara keypt allt á Netgíró þegar ég er ekki með lánstraust. Það er fullt af fólki í sömu stöðu og ég. Það eiga ekkert allir ættingja sem geta bara lánað þeim og það er ekkert hægt að segja bara að mamma reddi þessu. Þetta er ekki svona einfalt.

Tölurnar sem Fjölskylduhjálp gefur út sýna bara lítinn hluta þeirra sem eru í sárri neyð. Það eru miklu fleiri heimili sem eru að ströggla.

Ég er búin að segja við börnin mín að það verði ekki gefnar dýrar jólagjafir í ár. Þau sætta sig við það en það er svo erfitt andlega að þurfa að segja þeim þetta. Ég svaf ekkert í nótt því það þyrmdi yfir mig út af þessu öllu.“

Hún bætir því við að börnin hennar skilji aðstæðurnar. „En auðvitað finnst þeim þetta leiðinlegt. Sérstaklega af því að áður fyrr, þegar við höfðum það betra, þá fengu þau dýrar jólagjafir. Ég finn að ég er búin að keyra mig út og er alveg á mörkunum. Ég finn að það er að slökkna á mér, um leið og ég kem inn um dyrnar heima þá er ég hrædd um að ég muni brotna saman.

En ég redda mér, ég geri það alltaf. Þessi jól koma, alveg sama hvað. Ég trúi á það góða í fólki og ég vil trúa að það sé til meira af góðu fólki en vondu fólki þarna úti.“

Hún hvetur fólk til þess að hugsa um náungann í jólamánuðinum og rétta öðrum hjálparhönd.

„Það þarf svo lítið. Setja smá mat í poka eða lauma jólapakka undir tréð í Kringlunni. Við búum í stórkostlegu samfélagi þar sem almennir borgarar eru magnaðir. Með því að standa saman er allt hægt.“

Góðverkið borgaði sig

Í tengslum við vinnslu greinarinnar talaði blaðamaður við Jón Heiðar Reynisson sem þekkir það af eigin raun að þurfa að treysta á gjafmildi annarra til að geta dregið fram lífið. Saga Jóns Heiðars endar hins vegar vel og er það í fyrsta skipti í ár sem hann sér fram á að geta haldið jól án aðstoðar.

Jón Heiðar greindist með flogaveiki árið 1987 og hefur ekki getað haldist á vinnumarkaðnum vegna kastanna sem fylgja sjúkdómnum. „Fjölskylduhjálpin og mæðrastyrksnefnd héldu hreinlega í mér lífinu í mörg ár. Án þeirra veit ég ekki hvað hefði orðið um mig. Áður en ég fór til þeirra þá lifði ég á tímabili á engu nema kaffi og sykri og var dottinn niður í 45 kíló. Ég hugsaði ekki um þetta sem ölmusu, í mínum augum var þetta það eina sem ég gat gert til að lifa af,“ segir Jón Heiðar, en hann vinnur í dag sem sjálfboðaliði hjá Fjölskylduhjálpinni. „Ég er að reyna að segja takk fyrir mig. Ég get ekki sagt það á neinn annan hátt.“

Fyrr í haust hafði Jón Heiðar náð að skrapa saman 30 þúsund krónum. Þá fékk hann það sterklega á tilfinninguna að þeim peningum væri betur varið í þágu annarrar manneskju. Hann sendi alla peningana til konu í Danmörku sem hann vissi að átti ekki til hnífs og skeiðar. „Ég hafði ekki verið í miklum samskiptum við hana áður og ég veit ekki alveg af hverju ég fékk þetta svona á tilfinninguna. Ég vissi að hún þurfti meira á þessu að halda en ég. Ég gerði þetta ekki með neinni eftirsjá enda er ég er viss um það að ef þú gerir einhverjum gott þá muntu fá það til baka.

Nokkrum dögum síðar fékk hann hringingu frá Happdrætti Háskólans og var boðið að taka þátt. Hann var þá nýbúinn að leggja á dóttur sína í Danmörku. „Ég trúi á forlögin og ákvað í hvelli að ef það væri til ákveðið númer þá myndi ég nota það til áramóta. Það númer var ekki til þannig að ég lagði tölurnar saman og fékk þversummuna af því og bætti við aftast. Sú tala var til.

Almættið var með Jóni Heiðari; hann vann 160 þúsund krónur út á númerið. Hann sér því fram á að geta haldið jól í ár.

„Raunin er sú að þetta kom mér ekki á óvart. Ég trúi ekki á tilviljanir í þessu lífi þegar guð er annars vegar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar