Eiginkona Schumachers sögð vonast enn eftir kraftaverki

Sagður eiga sína góðu og slæmu daga

Tæp fjögur ár eru liðin frá slysinu.
Michael Schumacher Tæp fjögur ár eru liðin frá slysinu.
Mynd: Reuters

„Corinna og börnin vonast enn eftir kraftaverki,“ segir fjölskylduvinur þýska ökuþórsins Michael Schumacher í samtali við þýska blaðið Bunte.

Schumacher slasaðist sem kunnugt er alvarlega í skíðaslysi þann 29. desember árið 2013. Schumacher var í dái í sex mánuði eftir slysið sem varð í frönsku Ölpunum. Hann var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús nærri Lausanne í Sviss en undanfarin misseri hefur hann verið heima hjá sér þar sem langt og strangt endurhæfingarferli hefur staðið yfir.

Bunte greinir frá því að Schumacher eigi sína góðu og slæmu daga. Ekki er greint nákvæmlega frá líðan hans en þó kemur fram í umfjölluninni að Schumacher virðist afslappaður og líða vel í örmum þeirra sem standa honum næst. Hann geti átt í einhverjum samskiptum við þá sem þekkja hann vel.

Fjölskylduvinurinn sem Bunte ræðir við segir að Schumacher hafi það gott miðað við aðstæður. Hann njóti góðs af því í dag að hafa verið afreksíþróttamaður í fremstu röð í mörg ár.

Corinna, eiginkona Schumachers, og börn þeirra hjóna eru sögð vonast enn eftir kraftaverki. Fjölskyldan sjálf hefur ekki rætt opinberlega um slysið eða líðan Schumachers undanfarin ár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.