Björn Valur telur að ríkisstjórn þessara þriggja flokka geti orðið farsæl

Forsendan sú að Katrín verði forsætisráðherra

Fyrrverandi varaformaður VG og fyrrverandi þingmaður.
Björn Valur Gíslason Fyrrverandi varaformaður VG og fyrrverandi þingmaður.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður Vinstri grænna, segir að þriggja flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi alla burði til að verða farsæl.

Þetta segir Björn á bloggsíðu sinni.

Í færslunni vísar Björn Valur til ummæla Katrínar Jakobsdóttur á RÚV þar sem hún sagðist ekki útiloka að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum. Björn Valur spyr hvort sú ríkisstjórn yrði góð.

„Ríkisstjórn þessara þriggja flokka hefði sex þingmenn umfram stjórnarandstöðuna og því með traustan meirihluta á þingi. Þinglið hennar yrði ágæt blanda af pólitískum reynsluboltum og nýjum þingmönnum sem gætu auðveldlega staðið af sér atlögur lýðskrumara í stjórnarandstöðu,“ segir Björn Valur.

Hann segir að ríkisstjórn þessara þriggja flokka myndi að líkindum ekki ráðast í miklar eða umdeildar kerfisbreytingar hvort sem um væri að ræða í stjórnarskrármálinu, í sjávarútvegi eða landbúnaðarmálum, en þess í stað einbeita sér að minna umdeildum málum og treysta frekar heilbrigðis- og velferðarkerfið.

„Ríkisstjórn Vinstri grænna, sjálfstæðisflokks og framsóknar hefði tækifæri til að gera góða hluta samhliða því að skapa pólitískan stöðugleika í landinu. Forsenda fyrir farsælu samstarfi þessara flokka er að ríkisstjórn þeirra verði undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Það hljóta formenn sjálfstæðisflokks og framsóknar að skilja,“ segir Björn Valur að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.