Guðmundur leitar að manni: Býður 150 þúsund krónur í fundarlaun – Hefur þú upplýsingar um málið?

Mynd: Eyþór Árnason/Eythor Arnason © Eyþór Árnason

Guðmundur Theódór Jónsson fasteignasali býður 150 þúsund krónur í fundarlaun til þess aðila sem getur gefið upplýsingar um innbrotsþjóf sem braust inn á heimili hans í nótt. Guðmundur lýsir þessu yfir í Facebook-hópi Garðbæinga. Hann segir að útidyrahurðin hafi verið kviklæst og málið hafi verið tilkynnt lögreglu.

„Það var farið inn í húsið hjá mér í nótt í Hæðahverfi í Garðabæ. Eitthvað virðist hafa fælt viðkomandi því þeir fóru bara inn í forstofuna og ekki lengra, en þar náðu þeir að stela báðum bíllyklunum, kortaveskinu og ferðahátalara. Er tilbúinn til að greiða 150.000 kr. til þess aðila sem getur gefið upplýsingar um hver var á ferðinni þannig að þýfið finnist,“ segir Guðmundur.

Hann segir enn fremur að ef innbrotsþjófurinn gefi sig fram og skili því sem hann tók þá verði engir eftirmálar. Guðmundur biðlar til þeirra sem þeirra sem kunna að vera með myndavélakerfi utan á sínum húsum í hverfinu að fara yfir myndir frá miðnætti og til klukkan sjö í morgun. „Þannig má sjá hverjir voru á ferðinni í hverfinu á þessum tíma og þrengja hringinn,“ segir Guðmundur.

Hann segir í samtali við DV helst tvær ástæður fyrir því að hann sé reiðubúinn að borga svo háa upphæð í fundarlaun: „Í fyrsta lagi er það kostnaðurinn, bara lyklarnir kosta 130.000 krónur í umboðinu. Svo kostar hátalarinn eitthvað og því fylgir nokkur kostnaður að endurnýja öll skilríki. Eins er nauðsynlegt að hafa hendur í hári svona aðila, sem fara inn á heimili hjá fólki og láta greipar sópa. Slíkt á ekki að líðast.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.