Hryðjuverkaárásin í New York – Þetta vitum við núna

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær.

Klukkan var 15.03 að staðartíma í gær þegar 29 ára karlmaður ók pallbíl, sem hann var með á leigu, inn á hjólreiðastíg í Manhattan í New York. Bílinn hafði hann leigt hjá byggingavöruversluninni Home Depot. Hann ók suður eftir hjólreiðastígnum og á bæði fótgangandi vegfarendur sem og reiðhjólafólk.

Eftir um 100 metra akstur, við Chambers Street, lenti hann í árekstri við skólabíl. Tvö börn og tveir fullorðnir slösuðust í þeim árekstri. Eftir áreksturinn steig ökumaður pallbílsins út úr bílnum og veifaði einhverju sem virtust vera tvö skotvopn.

Einkennisklæddur lögreglumaður var á vettvangi og skaut hann ökumanninn einu skoti í maga. Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahús en hann er sagður í lífshættu. Það sem hann hélt á þegar hann steig út úr bílnum reyndust vera byssur sem eru notaðar í paintball.

Átta manns létust í árás mannsins og tugir særðust. Sex manns voru úrskurðaðir látnir á vettvangi en tveir á sjúkrahúsi.

CNN hefur eftir James P. O‘Neill, lögreglustjóra, að málið sé rannsakað sem hryðjuverk á grunni orða sem ökumaðurinn lét falla þegar hann steig út úr pallbílnum.

Talið er að maðurinn hafi verið einn að verki og ekkert bendir til að stærri árás sé í vændum.
Sky-fréttastofan segist hafa heimildir fyrir að ökumaðurinn heiti Sayfullo Saipov og sé 29 ára frá Tampa í Flórída. Yfirvöld hafa ekki staðfest þetta. New York Times segir að hann hafi komið til Bandaríkjanna frá Úsbekistan 2010 og hafi haft atvinnu- og dvalarleyfi.

Norska ríkisútvarpið segir að fimm Argentínumenn hafi látist í árásinni og einn Belgi.

Hér er hægt að lesa umfjöllun DV um málið frá í gærkvöldi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.