fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Fá 175 milljóna bónus vegna fyrirframgreiðslu Landsbankans

50 milljarða fyrirframgreiðsla skilar fjórum stjórnendum LBI yfir 40 milljónum á mann í bónus – Áttu enga aðkomu að skuldabréfaútgáfu bankans – Fyrstu bónusar greiddir út eigi síðar en 2019

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 27. september 2016 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæplega fimmtíu milljarða króna fyrirframgreiðsla Landsbankans til LBI eignarhaldsfélags (gamla Landsbankans) tryggir fjórum stjórnendum LBI, þar á meðal tveimur Íslendingum, samtals á bilinu 170 til 175 milljónir í bónus. Fyrirframgreiðslan var innt af hendi til LBI 15. september síðastliðinn í kjölfar þess að Landsbankinn hafði átta dögum áður gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljóna evra en andvirði þess var að stærstum hluta nýtt til að greiða inn á gjaldeyrisskuld bankans við LBI. Í hópi stjórnendanna sem munu skipta með sér bónusgreiðslunni eru lögmennirnir Kolbeinn Árnason, stjórnarmaður í LBI og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Ársæll Hafsteinsson, forstjóri félagsins. Fyrstu bónusar til þeirra verða greiddir út eigi síðar en 1. janúar árið 2019.

Þær bónusgreiðslur sem þrír stjórnarmenn og framkvæmdastjóri LBI hafa nú þegar áunnið sér, vegna ákvörðunar Landsbankans um að borga inn á skuldina við LBI, eru á grundvelli ákvæðis í bónuskerfi sem var samþykkt á aðalfundi félagsins í apríl á þessu ári. Samkvæmt skilmálum bónuskerfisins, sem DV hefur undir höndum og hefur áður upplýst um, þá fá stjórnendur LBI meðal annars tiltekinn hluta hverju sinn af þeirri fjárhæð sem Landsbankinn greiðir inn á skuldabréfið við LBI. Bónuskerfi félagsins er afar umfangsmikið og gangi tilteknar forsendur eftir sem kerfið byggir á gætu þessir lykilstjórnendur LBI hver um sig fengið samtals hundruð milljóna króna í bónus á komandi árum, eins og fram kom í forsíðufrétt DV þann 30. ágúst síðastliðinn.

Ársæll Hafsteinsson, forstóri LBI, vildi í samtali við DV ekkert tjá sig um mögulegar bónusgreiðslur til handa stjórnendum félagsins umfram það sem fram hefði komið í þeim gögnum sem voru lögð fyrir aðalfund LBI fyrr á árinu þegar hluthafar samþykktu bónuskerfið. Hann tók hins vegar fram að fyrirframgreiðsla Landsbankans, sem flýtir fyrir endurheimtum hluthafa félagsins, þýði ekki að stjórnendur LBI eigi núna strax í vændum bónusgreiðslu enda þótt þeir kunni að eiga rétt á henni síðar meir.

Fyrirsjáanleg fyrirframgreiðsla

Markmið bónuskerfisins er að búa til hvata fyrir stjórnendur félagsins sem miða að því að hámarka virði óseldra eigna og þar með endurheimtur kröfuhafa sem tóku formlega við eignarhaldi LBI í kjölfar þess að slitabú gamla Landsbankans lauk nauðasamningum um síðastliðin áramót. Auk Kolbeins og Ársæls eiga stjórnarmennirnir Richard Katz, sem er jafnframt formaður stjórnar LBI, og Christian Anders Digemose, danskur ráðgjafi sem hefur starfað sem lögmaður fyrir kröfuhafa föllnu bankana, einnig rétt á hlutdeild í þeim bónusum sem verða greiddir út til æðstu stjórnenda LBI. Í skilmálum bónuskerfisins, sem eru mjög ítarlegir og telja fjórtán blaðsíður, er ekki tilgreint sérstaklega hvernig bónusgreiðslurnar skiptast hlutfallslega á milli stjórnendanna fjögurra. Sé tekið mið af þeim bónus sem þessi eina fyrirframgreiðsla Landsbankans mun skila þeim þá hafa stjórnendurnir núna áunnið sér að meðaltali 42 til 44 milljónir króna á mann.

Ekki þarf að koma á óvart að Landsbankinn hafi leitast eftir því að fyrirframgreiða inn á skuldabréf bankans við LBI. Ávöxtunarkrafan á skuldabréfaútgáfur íslensku viðskiptabankanna á erlendum mörkuðum hefur farið hratt lækkandi á undanförnum mánuðum og því voru góðar aðstæður fyrir bankann til að endurfjármagna erlendar skuldir sínar á hagstæðari vaxtakjörum. Fram kom í tilkynningu Landsbankans vegna skuldabréfaútgáfunnar að með henni myndi bankinn lækka „verulega fjármagnskostnað“ sinn en bréfin, sem eru með gjalddaga í mars 2021, voru seld á kjörum sem jafngilda 190 punkta álagi ofan á millibankavexti. Það eru umtalsvert lægri vextir en bankinn þarf að greiða af skuldabréfunum til LBI.

Hærri bónus við fyrirframgreiðslu

Heildareignir LBI voru um 1.435 milljónir evra, jafnvirði um 183 milljarða króna á núverandi gengi, um mitt þetta ár en langsamlega stærsta eign félagsins var þá 111 milljarða skuldabréf í erlendri mynt á hendur nýja Landsbankanum. Í kjölfar fyrirframgreiðslu Landsbankans fyrr í þessum mánuði nemur útistandandi skuld bankans við LBI samtals 522 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 60 milljarða króna, sem er á gjalddaga árið 2020 og 2024. Þótt stjórnendur LBI hafi átt umtalsverða persónulega hagsmuni af því að Landsbankinn myndi greiða inn á skuldina við félagið þá hafði enginn þeirra aðkomu að fyrrnefndri 500 milljóna evra skuldabréfaútgáfu bankans. Engu að síður mun sú útgáfa skila þeim sem fyrr segir bónusgreiðslum upp á samtals 170 til 175 milljónir króna.

23 milljóna þóknun fyrir 40 vinnudaga

Þær bónusgreiðslur sem stjórnarmenn LBI hafa nú þegar áunnið sér koma til viðbótar við þau ríflegu laun sem þeir þiggja sem stjórnarmenn í félaginu. Þannig var upplýst um það í DV þann 12. apríl síðastliðinn að Kolbeinn Árnason, sem sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrr á árinu, fái að jafnvirði 23 milljónir króna í þóknun á ári fyrir stjórnarsetu í gamla Landsbankanum (LBI). Þau laun miðast við að Kolbeinn starfi fyrir stjórnina að hámarki 40 daga á ári – átta vinnustundir á dag – en ef hann vinnur meira fær hann tæplega 600 þúsund króna greiðslu fyrir hvern dag umfram þessa 40 daga.

Bandaríkjamaðurinn Richard Katz, sem var kjörinn stjórnarformaður LBI, fær 400 þúsund Bandaríkjadali, jafnvirði 45 milljóna króna, í þóknun á ári. Digemose fær um 200 þúsund dali, jafnvirði 23 milljóna króna, í þóknun fyrir stjórnarsetuna en auk þess á hann rétt á umtalsverðum viðbótargreiðslum ef hann vinnur meira en 40 daga á ári, rétt eins og Kolbeinn.

Áður en Kolbeinn tók til starfa sem framkvæmdastjóri SFS sumarið 2013 hafði hann verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings. Kolbeinn var einn af lykilstarfsmönnum Kaupþings og vann náið með slitastjórn og helstu ráðgjöfum kröfuhafa við að útbúa þann nauðasamning sem var lagður fyrir Seðlabankann í október 2012 en hlaut aldrei brautargengi. Ársæll Hafsteinsson var ráðinn forstjóri LBI fyrr á árinu en hann hafði starfað fyrir skilanefnd og slitastjórn gamla Landsbankans allt frá 2008. Þar áður var Ársæll framkvæmdastjóri lögfræði- og útlánasviðs Landsbanka Íslands.

Útlit er fyrir að ávöxtunarkrafa íslensku bankanna haldi áfram að lækka á komandi mánuðum, meðal annars með hliðsjón af hækkun á lánshæfismati ríkisins, og því eru verulegar líkur á því að Landsbankinn muni áður en langt um líður borga upp að fullu skuldabréfin við LBI. Ef höfuðstóll útistandandi skuldar bankans við LBI, sem nú stendur í um 60 milljörðum, verður greiddur upp um mitt næsta ár, svo dæmi sé tekið, þá myndi slík fyrirframgreiðsla að óbreyttu þýða að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri LBI myndu ávinna sér 185 til 200 milljónir til viðbótar í bónusa. Eftir því sem greiðslur af skuldabréfinu berast fyrr til LBI, samkvæmt þeirri reikningsformúlu sem er lögð til grundvallar í skilmálum bónuskerfisins, því hærri bónusa fá stjórnendur LBI í sinn hlut. Slíkar fyrirframgreiðslur Landsbankans geta aukið áætlaðar endurheimtur hluthafa LBI að teknu tilliti til núvirðis fjárstreymis af þessari stærstu eign félagsins.

Bið eftir fyrstu bónusgreiðslu

Sú heildarfjárhæð sem verður að endingu greidd út í bónusa til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra LBI er vitaskuld háð umtalsverðri óvissu og ræðst af því hvernig þeim tekst til við að hámarka virði óseldra eigna félagsins. Til viðbótar við endurheimtur af skuldabréfi Landsbankans þá gera skilmálar bónuskerfisins annars vegar ráð fyrir því að æðstu stjórnendur LBI geti fengið tiltekna hlutdeild af uppsöfnuðum útgreiðslum til hluthafa og hins vegar eiga þeir rétt á að fá 4,5% af þeim fjármunum í erlendri mynt sem skila sér til félagsins í tengslum við margvísleg óleyst ágreiningsmál fyrir dómstólum. Að sögn sérfræðinga á fjármálamarkaði, sem DV leitaði til í því skyni að fá aðstoð við að leggja mat á fjárhæð mögulegra bónusgreiðslna til stjórnenda LBI, þá þykir ljóst að miðað við útfærslu og umfang kaupaukakerfisins þá sé raunhæft að áætla að þær greiðslur kunni að nema samtals hundruðum milljóna á mann.

Samkvæmt skilmálum bónuskerfis LBI þá geta fyrstu bónusgreiðslur til lykilstjórnenda verið inntar af hendi annaðhvort frá og með 1. janúar árið 2019 eða þegar búið verður að umbreyta eignum í reiðufé fyrir að lágmarki 180 milljónir evra, jafnvirði um 23 milljarða króna, og greiða út til hluthafa og eigenda breytanlegra skuldabréfa LBI. Reiðufé sem fellur til vegna skuldabréfsins á hendur nýja Landsbankanum eða óleystra ágreiningsmála er hins vegar undanskilið í þeim efnum. Frá því að LBI tók formlega til starfa sem eignarhaldsfélag, samhliða því að ný stjórn var kjörin á fyrsta aðalfundi félagsins 14. apríl síðastliðinn, hafa greiðslur til hluthafa numið liðlega 60 milljónum evra. Vegna tæplega 50 milljarða króna fyrirframgreiðslu Landsbankans hefur stjórn LBI tilkynnt að félagið hyggist greiða samtals 415 milljónir evra, jafnvirði um 53 milljarða króna, til hluthafa þann 12. október næstkomandi. Í kjölfarið munu endurheimtur hluthafa þá nema samtals 475 milljónum evra en þar sem þær stafa að langstærstum hluta af greiðslum sem hafa borist af Landsbankaskuldabréfinu þá verður enn bið á því að fyrstu bónusgreiðslur berist til stjórnenda LBI.

ESÍ á móti bónuskerfinu

Slitabú LBI lauk nauðasamningum í lok desembermánaðar í fyrra og skömmu síðar barst síðasta hlutagreiðslan – samtals um 211 milljarðar króna – til forgangskröfuhafa sem fengu þar með kröfur sínar greiddar að fullu. Í kjölfarið færðist eignarhaldið á LBI í hendur almennra kröfuhafa en miðað við samþykkt nauðasamningsfrumvarpsins er áætlað að endurheimtur þeirra verði um 14,38%.

Yfir 90% hluthafa LBI eru erlendir aðilar, einkum og sér í lagi vogunarsjóðir og fjármálafyrirtæki, en stærstu hluthafar félagsins eru bandarísku vogunarsjóðirnir Anchorage Capital og Davidson Kempner. Fulltrúar þessara sömu vogunarsjóða unnu að útfærslu bónuskerfisins og eiga sæti í þeirri starfskjaranefnd sem hefur það hlutverk að hafa umsjón með að bónusgreiðslur til stjórnenda LBI séu í samræmi við skilmála kerfisins. Þá er Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) einnig í hópi stærstu eigenda LBI með ríflega 6% hlut. Fulltrúi ESÍ, ásamt einum þýskum heildsölubanka, greiddi atkvæði gegn tillögu stjórnar LBI um bónuskerfi til handa fjórum lykilstjórnendum félagsins á aðalfundi félagsins um miðjan apríl á þessu ári. Tillagan var hins vegar samþykkt með yfir 90% greiddra atkvæða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar