Vill setja gott fordæmi

„Ég skammast mín ekki fyrir veikindi mín og vil sem þingmaður setja gott fordæmi í þeim málum. Þunglyndið hefur sótt á mig aftur með sinni vægðalausu grimmd og þá er bara eitt að gera: að leita sér hjálpar.“
Á þessum orðum hefst pistill sem birtist á Facebook eftir Gunnar Hrafn Jónsson sem er nýkjörinn þingmaður Pírata.
Gunnar greinir frá því að hann ætli að taka sér tímabundið leyfi frá þingstörfum, enda segist hann engum verða að gagni þar fárveikur. Þá kveðst hann, þrátt fyrir allt, sjá fegurðina og að hann hafi mikið til að vera þakklátur fyrir.
Þá þakkar Gunnar, sem starfaði áður sem fréttamaður hjá RÚV, vinum sínum fyrir að hafa staðið við bakið á sér sem og dóttur sinni fyrir að halda sér gangandi í gegnum svartnættið.