Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar ekki að þiggja kauphækkun Kjararáðs – „Á ég að vera einhver Móðir Theresa sem gortir sig af því?“
„Ég bað ekki um þessa kauphækkun og vissi ekki af henni. Ég þarf ekki þessa kauphækkun,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum nú rétt í þessu þegar hann var spurður út í ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun kjörinna fulltrúa.
Með ákvörðun Kjararáðs hækkuðu laun forseta Íslands um tæpar 700 þúsund krónur á mánuði en hann var með um 2,3 milljónir króna á mánuði fyrir breytinguna. Eins og komið hefur fram fól ákvörðun ráðsins einnig í sér hækkun launa þingmanna og ráðherra.
„Margir þingmenn hafa lýst andúð sinni á þessari ákvörðun Kjararáðs og ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun og taki málin í sínar hendur. Ég myndi sætta mig fullkomlega við þá niðurstöðu sem úr því kæmi,“ sagði Guðni.
Forsetinn tilkynnti á blaðamannafundinum ákvörðun sína um að veita Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboð en bauð viðstöddum að spyrja hann um önnur mál.
„Forseti hefur ákveðin völd en mér finnst ekki að hann eigi að segja þingheimi fyrir verkum. Ég gæti haft skoðun á því en ég vil vanda mig og er nýr í þessu embætti og er ekki viss um að það væri til þess að þoka góðum málum áfram ef ég væri að skipa þingheimi fyrir í þessu sem öðru. […] Við skulum sjá hvað þingið gerir. Ákveði það að henni verði hnekkt með einhverjum hætti ítreka ég það að ég yrði fullkomlega sáttur við það. Þangað til sé ég til þess að þessi hækkun renni ekki í minn vasa,“ sagði Guðni og vildi ekki svara því hvert hann mun ráðstafa sinni launahækkun.
„Þarf ég að segja það? Á ég að vera einhver Móðir Theresa sem gortir sig af því?“ spurði forsetinn.