fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Fókus

Þór vill að hætt verði að framleiða Biggest Loser á Íslandi

Segir þáttinn eyðileggja heilsu þátttakenda

Kristín Clausen
Föstudaginn 17. júní 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir kannast eflaust við Þór Viðar Jónsson en hann tók þátt í fyrstu þáttaröðinni af íslenskri útgáfu raunveruleikaþáttarins Biggest Loser árið 2013. Þór missti tæplega 50 kíló meðan á keppninni stóð. Hann endaði í fimmta sæti í og í öðru sæti í heimakeppninni. Tæpum tveimur árum síðar var hann þó aftur kominn á byrjunarreit. Í dag sér Þór mikið eftir því að hafa tekið þátt í þættinum. Hann segir prógrammið heilsuspillandi og vill að hætt verði að framleiða þættina á Íslandi.

Flestum gengur illa að viðhalda árangrinum

Þór er 42 ára og bjó í Kanada í 25 ár. Hann flutti til Íslands árið 2011 og vill hvergi annars staðar vera. Þegar Þór tók ákvörðun um að skrá sig í Biggest Loser var hann kominn inn á Reykjalund þar sem hann var í undirbúningi fyrir hjáveituaðgerð á maga. Hann ákvað slá því á frest og taldi að með því að taka þátt myndi honum loksins takast að umbreyta lífsstílnum og lifa heilbrigðu lífi til frambúðar.

En sú varð ekki raunin. Þór er aftur byrjaður í undirbúningi fyrir hjáveituaðgerð en hann fer í aðgerðina í september. Hann er bjartsýnn á að hún hjálpi honum að losna við aukakílóin í eitt skipti fyrir öll.

Þór segir að Biggest Loser sé ekkert annað en sýning.
Bindur vonir við að hjáveituaðgerðin gangi vel Þór segir að Biggest Loser sé ekkert annað en sýning.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég tók ákvörðun um að fara í Biggest Loser af því að þetta er vinsæll sjónvarpsþáttur og ég hélt að mörgum hefði gengið vel. En svo er ekki. Það er þannig að 90 til 95 prósent þeirra sem fara í megrunarkúra enda á verri stað.“

Þór bætir við: „Við keppendurnir í fyrstu seríunni erum eins og fjölskylda í dag. Okkur hefur flestum gengið illa að viðhalda árangrinum. Aðeins örfáir hafa náð að halda sínu striki eftir að þættinum lauk.“

Þyngjast eftir þátttöku í Biggest Loser

Þór byggir gagnrýni sína ekki einungis á eigin reynslu heldur komu út niðurstöður rannsóknar í vor þar sem þátttakendum í áttundu seríu bandarískrar útgáfu þáttanna var fylgt eftir í sex ár eftir að keppninni lauk.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að það hægði mjög á efnaskiptum keppenda meðan á keppni stóð og eftir að henni lauk. Það gerir að verkum að erfitt er að viðhalda þyngdartapinu til lengri tíma. Nánast allir keppendurnir sem tóku þátt í rannsókninni þyngdust aftur eftir að hafa misst tugi kílóa. Margir voru sömuleiðis orðnir þyngri en áður en þættirnir hófust.

Ástæðan er einföld. Líkaminn bregst við með því að hægja á brennslunni þegar manneskja sem hefur verið í mikilli ofþyngd missir tugi kílóa á skömmum tíma. Það sem kom rannsakendum mest á óvart var að eftir því sem árin liðu og keppendur þyngdust jókst brennslan ekki aftur. Því þurfa þeir sem hafa létt sig á slíkum ógnarhraða að innbyrða töluvert færri hitaeiningar en aðrir.

Vissu ekki betur

Þór ber þó engan kala til þeirra sem standa að íslensku þáttunum. Hann segir alla þá sem koma að gerð þeirra fagmenn fram í fingurgóma. Þór vill að það komi skýrt fram að íslensku þættirnir eru allt öðruvísi en bandaríska fyrirmyndin. Hann bendir á að þrátt fyrir að vel sé staðið að öllu gangi hugmyndafræðin einfaldlega ekki upp. Hann telur réttast að framleiðendur þáttanna á Íslandi hugsi sig tvisvar um áður en þeir hefjast handa við næstu þáttaröð.

Þetta er bara sýning. Ef ég hefði vitað það sem ég veit núna hefði ég aldrei tekið þátt í Biggest Loser.

„Fókusinn er alltaf á að missa kíló. Þess vegna gengur allt út á brennslu. Þjálfararnir vildu ekki láta okkur lyfta of mikið því það byggir líkamann upp,“ segir Þór og bætir við:

„Ég var í liðinu hans Everts. Hann er mjög skynsamur í öllu og sagði okkur að það væri í raun eðlilegra að fólk missti eitt kíló á viku. En af því að þetta var keppni var litið niður á viðkomandi fyrir að hafa ekki staðið sig betur. Tölurnar yfir kíló sem fólk tapar í svona keppni eru rosalegar. Það þýðir að fólk er í vondri stöðu til lengri tíma.“

Þór segir að þættirnir ýti undir fitufordóma og gefi fólki ranghugmyndir um hvernig eigi að breyta um lífsstíl og létta sig: „Vandamálið er að þessir þættir eru ekki fyrir heilsuna en fólk hefur ekki hugmynd um það. Fólk sem situr heima í stofu hugsar hvað það er að gera rangt fyrst einstaklingnum sem birtist á sjónvarpsskjánum tókst að missa fimm kíló á einni viku. Þetta er bara sýning. Ef ég hefði vitað það sem ég veit núna hefði ég aldrei tekið þátt í Biggest Loser.“

Aftur í sama farið

Þór viðurkennir að honum hafi sjaldan liðið jafn vel líkamlega og andlega eins og meðan á keppninni stóð sem og vikurnar eftir að henni lauk. „Þetta var svo ótrúleg breyting. Ég fékk svo mikla orku og þunglyndið hvarf.“

Léttist um 50 kíló á fimm mánuðum.
Þór vill að framleiðslu þáttanna verði hætt Léttist um 50 kíló á fimm mánuðum.

Síðasta mánuðinn áður en keppni lauk missti Þór 10 kíló. Viku eftir lokaþáttinn var hann þó búinn að bæta þeim öllum á sig aftur. Hægt og rólega varð hann líka þreyttur á að mæta í ræktina þar sem hann þurfti að hafa mikið fyrir því að halda sér í formi. „Ég fékk algjört ógeð enda gerði ég varla neitt annað í marga mánuði. Smátt og smátt datt ég í gömlu rútínuna aftur og þunglyndið kom til baka.“

Að lokum segir Þór að Biggest Loser ýti undir fitufordóma. „Þetta er gott sjónvarpsefni. En er það jafn gott þegar við vitum að við erum að eyðileggja líkama fólks?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Háklassa vændiskona fékk 650 þúsund krónur fyrir fjögurra tíma vinnu – „Ég myndi aldrei mæla með þessu starfi fyrir einhvern“

Háklassa vændiskona fékk 650 þúsund krónur fyrir fjögurra tíma vinnu – „Ég myndi aldrei mæla með þessu starfi fyrir einhvern“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hin raunverulega Martha úr Baby Reindeer hótar Stephen King

Hin raunverulega Martha úr Baby Reindeer hótar Stephen King