Fókus

Hjálmar er ekki hrifinn af Holu-Hjálmari

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 25. febrúar 2018 15:00

Samgöngu- og skipulagsmál verða í brennidepli í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor. Núverandi meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata leggur áherslu á þéttingu byggðar og að styrkja almenningssamgöngur, þá sérstaklega með nýrri borgarlínu. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn hefur gagnrýnt meirihlutann harðlega og ætla að fjölga lóðum í Úlfarsárdal, byggja íbúðir í Örfirisey og leggja borgarlínu á hilluna. Hjálmar Sveinsson er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, blaðamaður DV fékk hann til að fara með sér í strætó upp í Grafarvog.

„Ég tek reyndar ekki oft strætó, ég hjóla mjög mikið og svo á ég einkabíl. Það er mikill misskilningur að ég eða meirihlutinn í borginni sé alfarið á móti því að fólk keyri, það sem við viljum er að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti þannig að fólk sé ekki nauðbeygt til að eiga bíl ef það býr í Reykjavík. Í dag eru það 72% sem nota einkabíl til að komast á milli staða, við viljum færa það niður í 58% og létta þannig á umferðinni,“ segir Hjálmar á strætóstoppistöðinni fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur. Við tökum leið 6 upp í Spöngina í Grafarvogi og þaðan til baka niður í bæ.

Fargjaldið er 460 krónur, blaðamaður verður sér út um smáforrit Strætó en Hjálmar borgar með klinki. Aðspurður hvort það væri ekki ráð að gera ókeypis í strætó segir Hjálmar: „Þeir eru að prófa það í nokkrum minni borgum í Þýskalandi, til að minnka koldíoxíðlosun frá umferðinni. En í könnunum sem hafa verið gerðar kemur í ljós var að fargjaldið skipti þá sem keyra alltaf í vinnuna engu máli, þeir keyra af því að það var fljótlegra og þægilegra en að taka strætó. Þannig er hægt að fá fleiri til að taka strætó, með því að gera hann fljótlegri og þægilegri en bílinn. En auðvitað skiptir fargjaldið almennt séð einhverju máli. Það er mikilvægt að það sé á góðum kjörum fyrir þá fyrir þá sem nota vagninn daglega og enn lægra fyrir nema.“

Gata í Reykjavík eftir veturinn 2015-2016.
Gata í Reykjavík eftir veturinn 2015-2016.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hjálmar er umdeildur meðal borgarbúa, hefur hann meðal annars verið kallaður Holu-Hjálmar, viðurnefni sem hann notaði sjálfur í prófkjörsslag Samfylkingarinnar fyrr á þessu ári. Hvað finnst honum um þetta viðurnefni? „Mér finnst viðurnefni ekkert skemmtileg yfirleitt en ég nýtti mér það til að benda á að nú stendur yfir eitt mesta malbikunarátak í sögu borgarinnar. Í fyrra voru götur borgarinnar malbikaðar fyrir 1,3 milljarða. Það var sögulegt met. Í ár verður malbikað fyrir tæpa 2 milljarða. Göturnar á höfuðborgarsvæðinu komu illa undan vetri árin 2015 og 16. Borgin hefur brugðist við því af miklum krafti.“

Hvernig finnst þér að samgöngurnar í borginni ættu að vera?

„Þær ættu að vera þannig að þú hafir alvöru valkosti. Við vitum að margir vilja nota bíla og geta ekki annað af ýmsum ástæðum, það er ekki meiningin að breyta því. En það er mikilvægt að aðrir vistvænir samgöngumátar séu alvöru valkostir, þá fyrst og fremst almenningssamgöngur, liður í því er borgarlína. Svo fer alltaf fjölgandi þeim sem hjóla fyrir utan þá sem komast allar sínar ferðir fótgangandi því vinna og þjónusta er nógu nálæg. Það má ekki nauðbeygja fólk til að þurfa að eiga bíl. Það á að vera frjálst val“

Leið 6 keyrir framhjá Landspítalanum við Hringbraut, bílastæðið er fullt. „Þetta er ekki mjög skemmtilegt ásýndar. Í nýja deilskipulaginu fyrir Landspítalasvæðið er gert ráð fyrir bílastæðahúsi á nokkrum hæðum. Reyndar Landspítalinn tók sig talsvert á þegar þettadeiluskipulag var unnið varðandi sínar samgöngustefnu. Þá kom í ljós í skoðanakönnun á þessum risastóra vinnustað að margir starfsmenn vildu nota aðra samgöngumáta en bíl ef þeir væru nógu hraðvirkir, skilvirkir og þægilegir. Það er talsverður hópur í samfélaginu sem vill gjarnan nota aðra samgöngumáta en bílinn og borgin þarf að komast til móts við þann hóp.“

Vagninn keyrir austur á Miklubraut framhjá Klambratúni „Það er ekki háannatími núna, ég var að keyra þessa leið á föstudaginn milli kl. 16 og 17 í seigfljótandi umferð. Þá keyrði fullur strætó á nýju forgangsreininni framúr allri bílaröðinni. Forgangsreinar eru einföld og ódýr ráðstöfun til að koma fjölda fólks á milli staða.“

Er það borgarlínan, að strætó sé þá alltaf á eigin akgrein?

„Það má segja það, þá verða þeir alltaf á eigin akgrein, þetta verður einskonar lest á gúmmídekkjum. Líklegast svokallaðir liðvagnar sem geta tekið 150 manns. Stoppistöðvarnar á borgarlínunni munu svo líta út eins og lestarpallar, gott skjól og þú gengur beint inn í vagninn, búinn að borga með appi. Þá mun allt ganga hratt fyrir sig. Þetta er mikið notað í minni borgum í Evrópu og Bandaríkjunum.“

Hvað gerist ef það verður hætt við borgarlínu?

„Þá verður algjört kaós. Það voru vissulega vonbrigði að hlutfallsleg fjölgun strætófarþega stendur í stað þrátt fyrir stefnu borgarinnar um eflingu almenningssamgangna. Á móti kemur að strætófarþegum hefur engu að síður fjölgað um 30% á síðustu 5 árum. Gallinn er sá að þeim sem fara allra sinna ferða á bílum hefur fjölgað álíka mikið. . Um30 þúsund manns nota strætó höfuðborgarsvæðinu á hverjum degi, það eru rúmlega 12 milljón innstig á ári í strætó. Hugsaðu þér ef strætó myndi hætta að fara yfir þessi gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar þá myndi bílaumferðin á annatíma aukast hér um 30%.“

Mynd: © DV ehf / Stefán Karlsson

Hjálmar segir að mislæg gatnamót við slíka flöskuhálsa vera dýra framkvæmd sem myndu aðeins gagnast bílum, miklu nær væri að setja Miklubraut frá Kringumýrarbraut að Snorrabraut í stokk. „Það yrði þá áfram einhver yfirborðsumferð, ogborgarlínan myndi keyra þar .. Þá væri hægt að byggja talsvert af fjölbýlishúsum í stíl við byggðina í Hlíðunum á stórum veghelgunarsvæðum sem eru þarna sitt hvoru megin við götuna. Þessi lausn var kynnt á fjölmennum fundi á Kjarvalsstöðum um daginn og fékk mjög góðar viðtökur.“

Vagninn nálgast Skeifuna, þar hafa verið hugmyndir um blandaða byggð. „Það er búið að vera vinna í nokkur ár að nýju skipulagi sem gefur lóðarhöfum þar kost á að byggja þar íbúðir, það gætu orðið allt að þúsund íbúðir, með tíð og tíma auðvitað. Við leggjum samt áherslu á að Skeifan verði áfram öflugt verslunar- og þjónustusvæði. Að þar verði áfram bílaverkstæði, skemmur og Hagkaup.“

Leið 6 er á leiðinni yfir Gullinbrú og inn í Grafarvog, þar er byggðin alls ekki blönduð. „Það er örugglega frábært að búa hérna, en stefnan í dag er að hafa hverfin blönduð. Það er til þess að þjónusta haldist í hverfunum, fólk getur þá jafnvel sótt vinnu í eigin hverfi og það eykur líkurnar á að kaupmaðurinn á horninu dafni. Það er langt síðan menn komu auga á gallana við að skipta borginni í hreina íbúðabyggð og atvinnusvæði. Það er betra að hafa þetta eins og í gömlu borgunum, að hafa byggðina blandaða.“

Ætlið þið að reyna að breyta Reykjavík í evrópska miðaldaborg?

„Nei, það ætlar enginn að gera það,“ segir Hjálmar og hlær. „Stefna aðalskipulagsins gerir ráð fyrir að árið 2030 verði mikill meirihluti áfram á bílum, en þá verða til miklu betri valkostir fyrir hina. Þetta er ekki framtíðarmúsík því þetta er svona núna í vesturhluta borgarinnar, þar sem byggðin er þéttust.Þar eru um 58% allra ferða farnar á bílum.“

Vagninn er ekki langt frá Geldinganesi, þar hafa verið uppi hugmyndir um íbúðabyggð, Hjálmar segir það slæma hugmynd. „Það yrði bara áframhald á útþenslu og dreifingu byggðarinnar. Svo má nú geta þess að Íslendingum hefur tekist að búa á ótrúlegustu stöðum, eins og í Jökulfjörðum og á Jökuldalsheiðinni, en þaðhefur aldrei neinn viljað búa á Geldinganesi. Það er örugglega einhver ástæða fyrir því.“

Reykjavík er nú að ljúka öðru kjörtímabilinu í röð án þess að skipta um meirihluta, svo virðist sem kjósendur í borginni hafi tvær blokkir úr að velja í vor. Helsti áherslumunur blokkanna tveggja er í umhverfis- og skipulagsmálum. „Við erum ekki að keppa við Akureyri eða Selfoss, Reykjavík er að keppa við Kaupmannahöfn, Edinborg og Osló um að vera borg þar sem þekkingar- og þjónustufyrirtæki vilja setja sig niður og fólk vill búa og starfa.“

Hjálmar vísar því alfarið á bug að það sé óráðsía í fjármálum borgarinnar. „Borgin er vel rekin. Stór hluti af skuldum borgarinnar eru framreiknaðar lífeyrisskuldbindingar, ef það væri gert hjá ríkinu þá teldust skuldir ríkisins vera um þúsund milljarðar. Eiginlegar skuldir borgarsjóðs eru um 35 milljarðar á sama tíma og veltan er um 100 milljarðar á ári. Það teldist gott hjá mörgum fyrirtækjum.“

Hvað með mannréttindaráð, lántökur og gæluverkefni?

„Ég myndi ekki kalla mannréttindi gæluverkefni, en þetta eru bara smáaurar miðað við stóru tölurnar. Það myndi engu breyta um fjárhagsstöðu borgarinnar hvort þetta yrði lagt niður eða ekki. Langstærsti útgjaldaliðurinn fer til skóla- og velferðarmál eða tæplega 70%. Restin fer í fjárfestingu í innviðum, íþróttaaðstöðu og menningarmál. Það má alltaf gagnrýna lántökur, en þetta eru lán á hagstæðum kjörum sem við þurfum til fjárfestinga í þágu borgarbúa. Eitt dæmi um það uppbygging Dalskóla í Úlfarsárhverfi, þar kemur líka menningarmiðstöð, sundlaug, bókasafn og auðvitað íþróttaaðstaða á svæðinu. Þetta eru nauðsynlegar framkvæmdir sem kosta allt að 15 milljörðum.“

Vagninn stöðvar á leið út úr Grafarvoginum, þónokkur fjöldi kemur inn í vagninn sem er á leið niður í miðborgina. „Strætó fer núna á tíu mínútna fresti á háannatíma, þá þurfa þeir sem fara með ásnum og sexunni sem við erum í núna, ekki að bíða nema í nokkrar mínútur eftir vagni á morgnanna og síðdegis. Stjórn Strætó hefur samþykkt að leggja af sumaráætlunina og búið er að lengja aksturstímann á kvöldin sem hentar vaktavinnufólki og þeim sem vilja fá sér öl, þeir geta þá fengið sér einn í viðbót og náð síðasta vagni. Svo fer strætó líka á næturna um helgar síðan í byrjun janúar, það getur sparað ungu fólki sem skemmtir sér niðri í bæ mörg þúsund krónur í leigubílakostnað.“

Á leiðinni niður Ártúnsbrekkuna blasir við Sogamýrin þar sem fyrirhugað er að byggja mosku, ekki eru allir par sáttir við það. „Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá búum við í fjölmenningarsamfélagi. Þetta er gömul ákvörðun, minnst 15 ára, sem snýst um að það sé eðlilegt að borgin útvegi fleiri trúfélögum lóðir en bara þjóðkirkjunni. Eitt af þeim félögum er Félag múslima, við höfum séð teikningar af moskunni og þær eru flottar, þetta er frekar lítið hús, ekki mjög áberandi og samræmist íslenskri byggingarhefð. Ég bendi nú á að það er nú þegar moska í Reykjavík, það er Ýmishúsið í Öskjuhlíð.“

Miðbærinn nálgast óðfluga, við blasir Reykjavíkurflugvöllur. „Mín spá er að það verði byggður nýr borgarflugvöllur í Hvassahrauni, ég held að árið 2026 verði sú framkvæmd komin á fullan skrið og hann verði tilbúinn 2030. Kannski fyrr.“
„Við vorum að keyra framhjá byggingarsvæðinu við Hlíðarenda, þetta eru ekki glærur, þetta eru 850 íbúðir sem verða langt komnar í uppsteypu í lok þessa árs. Svo erum við að skipuleggja byggð með álíka mörgum íbúðum í Skerjafirði. Það verður hægt að reka flugvöllinn áfram með miklu lendingaröryggi á tveimur brautum með þessa nýju byggð við Skerjafjörð og á Hlíðarenda í jaðri flugvallarsvæðisins. En nú erum við komin niður á Lækjargötu og ég ætla að fara út á nælstu stoppistöð.“

Ari Brynjólfsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana