Fókus

Sanna Magdalena kom að móður sinni rænulausri á gólfinu

Vildi ekki valda dótturinni áhyggjum

Jóhanna María Einarsdóttir
Laugardaginn 12. nóvember 2016 18:45

Henni varð flökurt þegar hún fékk loks mat. Uppþvottalögur var notaður sem sturtusápa, dagblöð sem klósettpappír og stundum þegar hún kom heim var búið að skrúfa fyrir rafmagnið. Einn daginn fann hún móður sína rænulausa á gólfinu en liðið hafði yfir hana vegna næringarskorts. Þannig lýsir Sanna Magdalena Mörtudóttir æsku sinni í hjartnæmum pistli.

Þar sem hún fjallaði um það að búa með einstæðri móður sinni og lifa við fátækt þegar hún var ung. Hún segir að þær mæðgur hefðu ósjaldan átt erfitt með að ná endum saman og oftar en ekki dugðu mánaðarlaunin ekki fyrir nauðsynjavörum. Hún segist fá kökk í hálsinn við að heyra fréttir af fólki sem á ekki pening fyrir mat, þar sem hún hefur reynslu af því sem barn.

„Ýmislegt var komið í reynslubankann við tíu ára aldurinn,“ segir hún og er ekkert að ýkja. Í pistlinum rekur hún minningar sem eru meira en lítið uggandi miðað við að vera minningar svo ungs barns.

„Að standa með mömmu sinni í röð fyrir utan Mæðrastyrksnefnd á miðvikudögum klukkan 5 til að fá mat. Skeina sér með dagblöðum, af því að klósettpappír er lúxusvara, maður kaupir frekar mat heldur en klósettpappír. Vita að ef mamma manns átti enn pening eftir 18. hvers mánaðar að þá hafi nú einhver reikningur ekki verið greiddur í upphafi mánaðar og vona svo innilega að það gerist ekkert slæmt í kjölfarið. Fríka pínu út við að heyra klinkhljóð í dag því það minnir mann á þegar mamma manns var að telja restina af peningnum sem átti að duga út mánuðinn […] Hjóla í nístingskulda og frosti á sumardekkjum með flöskur, 7 kr. stykkið ,leysa út pening og fá 198 krónur, þá gat maður keypt tvö milka stykki sem þá kostuðu 98 krónur í Bónus …“

Vildi ekki valda dóttur sinni áhyggjum

Flestir eru sammála um að ung börn eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur af peningum, enda séu þeir vandamál fullorðinna. Að hafa áhyggjur af peningum er ekki það sama og að læra á peninga. Börn eiga enda að fá að vera börn, en það getur verið erfitt þegar áhyggjurnar eru alltumlykjandi eins og dæmin sanna í tilfelli Sönnu og móður hennar.

Sanna segir að hún hafi haft ákveðinn skilning á ástandinu þrátt fyrir að hafa verið ung. Hún man eftir ýmsu varðandi fjárhagsvandamál og vonaðist oft til þess að laun móður hennar dygðu út mánuðinn, þó að hún vissi að það væri ansi fjarstæðukennt. Að auki segist hún hafa skoðað leigulistann með móður sinni sem beið eftir ódýrari íbúð frá félagsmálayfirvöldum „ég meina hvaða 8 ára krakki veit hvað leigulistinn er?!“

Þessu lauk ekki þarna því hún segir einnig frá því að móður hennar hefði verið á lyfjum sem höfðu þær aukaverkanir að þær drógu úr matarlyst. Á þeim tíma hafði móðir hennar örlítið meira á milli handanna og gat keypt úlpu handa dóttur sinni. En einn daginn kom Sanna að móður sinni rænulausri á gólfinu en ,, … því hún hafði ekki borðað svo lengi og vildi ekki valda mér áhyggjum.“

Margir lifa enn undir fátæktarmörkum

Sanna segir að fólk verði oft hissa á því og trúir því varla að svona geti ástandið verið hjá fólki, þegar hún hefur sagt frá æsku sinni og vonar hún að pistill hennar geti „veitt smá innsýn í hvernig hlutirnir geta raunverulega verið, sérstaklega þar sem svo mikil umræða hefur verið um þetta upp á síðkastið og vona ég svo innilega að fólk þurfi ekki að upplifa skort af neinu tagi.“ Hún segir á öðrum stað:

„Vera svo flökurt að þegar þú færð loksins mat að þá er erfitt að borða hann,“ segir hún og bætir við:
„Komast að margnota gildi uppþvottalög, voða fín sturtusápa og fínasta sjampó.“

Hún bætir við að móðir hennar hafi hugsað vel um hana. Sett hana í 1. sæti. Þá hafði fátæktin ýmis önnur áhrif.

„Hugsa á milljón hvernig þú eigir að redda þér 800 kalli þegar vinkona þín biður þig um að koma með sér í bíó. Að fara í mat til bekkjarsystur sinnar og líta yfir alla fínu diskana og glerglösin og hugsa vá, þau eru rík. Koma heim og það er allt dimmt því það er búið að skrúfa fyrir rafmagnið.“

Það er staðreynd að fólk lifir enn undir fátæktarmörkum á Íslandi og er í vandræðum hver mánaðamót. Eitt af því rak Sönnu til að skrifa pistilinn þar sem nú styttist í jól og margir sem kvíða tímanum sem er fram undan.

Hér má lesa pistilinn í fullri lengd hér.

Jóhanna María Einarsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“