Stjarnan klikkaði á dauðafæri að fá þrjú stig í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í kvöld er liðið mætti Keflavík.
Hilmar Árni Halldórsson gerði tvö mörk fyrir Stjörnuna seint í leiknum og leit út fyrir að liðið væri að næla í þrjá punkta.
Nýliðarnir í Keflavík neituðu þó að gefast upp og jöfnuðu metin í lok leiksins og 2-2 jafntefli niðurstaðan í Garðabæ.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Það var virkilega gaman að sjá Óttar Bjarna Guðmundsson í vörn Stjörnunnar, eftir erfitt fyrsta tímabil í Garðabænum þar sem hann spilaði lítið, þá kom Óttar öflugur til leiks í dag.
Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur var gjörsamlega magnaður í fyrri hálfleik, David De Gea frammistaða hjá kauða.
Það var skemmtileg stemming í Garðabæ, fólk var mætt snemma á völlinn og Dúllu-vatnið gaf kraft í stúkuna.
Hilmar Árni Halldórsson heldur áfram frá síðasta sumri að draga vagninn fyrir Stjörnuna, kláraði þröngt færi afar vel sem gerði fyrsta markið. Seinna markið var svo algjört einstaklingsframtak.
Ísak Óli Ólafsson varnarmaður Keflavíkur, fæddur árið 2000. Frábær varnarmaður og skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi deildinni. Mikið efni.
Jöfnunarmark Frans Elvarssonar, stórkostlegt. Hamraði boltanum í netið af löngu færi til að tryggja Keflavík stig.
Mínus:
Til að keppa um titla þarf Stjarnan að klára svona leiki, í dag hefði liðið átt að vera búið að gera út um hann í fyrri hálfleik.
Færanýting heimamanna í fyrri hálfleik var afar léleg, mörg góð færi og stundum slæmar ákvarðarnir sem komu í veg fyrir að góð færi kæmu.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ mætti fyrir leik og undirritaði samning um eitthvað sem engu máli skiptir. Kjánaleg uppákoma og ljóst er að mjög stutt er í kosningar