Íslenska karlalandsliðið í handbolta hóf leik á HM með afskaplega þægilegum sigri á Grænhöfðaeyjum í Zagreb.
Sigur Strákanna okkar í kvöld var aldrei í hættu. Íslenska liðið sigldi fram úr strax í byrjun og leiddi 18-8 þegar flautað var til hálfleiks.
Munurinn á liðunum í seinni hálfleik varð mest 14 mörk en var hann 13 mörk þegar yfir leið. Lokatölur 34-21.
Orri Freyr Þorkelsson var atkvæðamestur í liði Íslands í kvöld með átta mörk og er hann jafnframt maður leiksins í boði Olís.
Næsti leikur Íslands er á laugardag gegn Kúbu, sem steinlá fyrir Slóvenum í hinum leiknum í þessum riðli í kvöld. Ef allt er eðlilegt verður því úrslitaleikur milli Íslands og Slóveníu í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudag.