
Bernard d’Ormale, eftirlifandi eiginmaður Bardot, sagði í samtali við Paris Match að hún hefði nýverið gengist undir tvær aðgerðir vegna krabbameins og verið orðin verulega bakveik og með mikla verki af þeim sökum.
Á köflum, þegar þjáningarnar voru mestar, sagði hann að hún hefði stundum sagt við sig að hún væri orðin þreytt á að þjást og sagt: „Ég er búin að fá nóg, ég vil fara.“
D’Ormale og Brigitte gengu í hjónaband árið 1992 og segir hann að Bardot hafi látist í rúmi sínu á heimili þeirra í Saint-Tropez í Frakklandi að morgni 28. desember, með ketti hjónanna við hlið sér.
Hann sagði að hann hefði verið hálfsofandi við hlið hennar þegar hún kallaði mjúklega á hann með einkagælunafni þeirra, „Pioupiou“, áður en hún dró síðasta andardráttinn.
Bardot varð heimsfræg kvikmyndastjarna á fimmta og sjötta áratugnum. Síðar á ævinni sneri hún baki við leiklist og varð þekkt baráttukona fyrir réttindum dýra. Hún kom til dæmis í viðtal við DV árið 2008 þar sem hún fordæmdi harðlega dráp á ísbirni í Skagafirði.
