fbpx
Mánudagur 29.september 2025
Pressan

Líkið í frystinum sem varð smánarblettur í réttarsögu Sviss – Hver myrti Christine Zwahlen?

Pressan
Sunnudaginn 28. september 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1985 fannst Christine Zwahlen myrt í frysti á heimili sínu nærri Bern í Sviss. Spjót lögreglunnar beindust strax að eiginmanni hennar, Bruno, sem hafði verið henni ótrúr. Svo sannfærð var lögreglan um að Bruno væri sá seki að aðrir möguleikar voru ekki kannaðir sem að lokum reyndist lögreglunni dýrkeypt.

Það voru foreldrar Christine sem fundu hana látna. Þeir höfðu ekki heyrt frá henni í nokkra daga sem var óvenjulegt. Þegar þau fóru að heimili hennar í Kehsatz, sem er nærri Bern, þann 1. ágúst árið 1985, reyndist enginn vera heima.

Þegar þau fóru í kjallara hússins ákváðu þau að opna frystinn þar og fundu þar dóttur sína. Hún var nakin, með gráan ruslapoka yfir höfðinu á sér og hendur hennar og fætur voru bundin.

Banamein Christine var höfuðhögg og líklegast þótti að hún hefði legið í frystinum í tæpa viku.

Einstefna í rannsókninni

Lögreglan réðst ekki í umfangsmikla rannsókn. Foreldrar Christine bentu strax á eiginmann hennar og lögreglu þótti það sennileg kenning enda eru eiginmenn líklegir gerendur í málum sem þessum. Um kvöldið sama dag var Bruno handtekinn á heimili viðhalds síns.

Bruno harðneitaði þó að hafa banað konu sinni, og það þótt lögreglan reyndi að beita ýmsum brögðum til að ná fram játningu. Loks var ákveðið að ákæra Bruno án þess að játning væri fyrirliggjandi.

Þann 4. desember árið 1987 var Bruno sakfelldur og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Aðalmeðferð málsins tók aðeins þrjár vikur sem þykir stutt í jafn alvarlegu máli. Ákæruvaldið lagði fram takmarkað af áþreifanlegum og beinum sönnunargögnum og engin vitni leidd fram.

Magainnihaldið dularfulla

Réttarmeinafræðingur taldi líklegt að Christine hefði látið lífið kvöldið 26. júlí eða morguninn 27. júlí. Bruno hafði varið aðfaranótt 27. júlí á heimili sínu. Hann hafi farið út um morguninn og mælt sér mót við Christine á kaffihúsi nokkrum tímum síðar. Hún hafi þó ekki mætt á stefnumótið. Lögreglu fannst þetta ósennileg skýring en gerði þó ekkert til að hrekja þessa fjarvistarsönnun hans.

Því var haldið fram að Bruni hefði barið eiginkonu sína í höfuðið með hamri eða öðrum þungum hlut. Síðan hafi hann bundið ruslapoka um höfuð hennar. Christine hafi líklega verið á lífi en svo kafnað út af pokanum. Lögreglan útskýrði þó ekki hvers vegna það var ekki meira blóð á vettvangi eða merki um að blóð hefði verið þurrkað upp. Ekkert morðvopn var lagt fram og lögregla gat ekki útskýrt hvers vegna Christine fannst nakin með hendur og fætur bundna.

Dánartími var ákvarðaður meðal annars með því að greina magainnihald líksins. Magainnihaldið var það sem benti til þess að hún hefði borðað 1-3 klukkustundum áður en hún lést, en sagði þó ekkert til um hvenær hún borðaði máltíðina. Bruno hafði lýst því í skýrslugjöf að hann hafði borðað kvöldmat með Christine þann 26. júlí. Hún hafi fengið sér svokallaða hawaii-samloku, með skinku, osti og ananas. Bruno bætti við að stundum fengi hún sér peru í staðinn fyrir ananasinn.

Þetta skipti miklu máli enda mátti greina í magainnihaldinu merki um peru, kjötálegg, ost og brauð. Hins vegar fannst líka peruhýði. Bruno tók fram að Christine notaði ananas og perur úr dós á samlokuna sína, en ekkert hýði var í dósunum. Hvorki lögregla né dómari gátu útskýrt hýðið og fóru loks þá leið að saka réttarmeinafræðinga um að hafa ruglað saman sýnum. Eins var horft framhjá vitnisburði fólks sem hafði séð til Christine eftir meinta dánarstund.

Metsöluhöfundur viðrar nýja kenningu

Bruno var sakfelldur og hélt fjölskipaður dómurinn og lögreglan að þar með væri málið úr sögunni. Raunin varð önnur. Málið hafði vakið mikla athygli svo eðlilega var skrifuð um það metsölubók sem byggði á gögnum málsins og viðtölum við fólk sem þekkti til. Bókin ályktaði að Bruno væri saklaus og að framið hefði verið réttarmorð. Höfundur bókarinnar fylgdi henni eftir með annarri bók þar sem því var beinlínis haldið fram að foreldrar Christine hefðu myrt hana.

Foreldrar hennar voru mjög strangtrúuð. Christine kom í líf þeirra í gegnum ættleiðingu eftir að þau höfðu árum saman glímt við ófrjósemi. Hún var augasteininn þeirra og þau þoldu ekki að hún væri komin með eiginmann sem neitaði að leyfa þeim að stjórna sér. Christine var farin að vera með mótþróa við þau og kvarta undan tíðum afskiptum þeirra, óboðnum heimsóknum og stöðugum símhringingum.

Smánarbletturinn í frystinum

Árið 1991 var sakfellingu Bruno hnekkt fyrir áfrýjunardómstól og honum sleppt úr fangelsi. Dómarar áfrýjunardómstóls töldu að ákæruvaldinu hefði engan veginn tekist að sanna sekt svo hafið væri yfir skynsaman vafa. Bæði væri um að ræða ósamræmi í réttarmeinaskýrslum, ekki víst hvenær Christine hefði látið lífið og hvort að Bruno hafi verið viðstaddur þegar hún lést.

Ákæruvaldið var ekki af baki dottið og aftur var Bruno ákærður og dreginn fyrir dóm. Aðalmeðferð hófst í apríl 1993 og rúmlega 70 blaðamenn voru viðstaddir. Að þessu sinni gáfu 88 einstaklingar skýrslu fyrir dómi, bæði vitni og sérfræðingar. Bruno var sýknaður.

Næstu þrjú árin reyndi ákæruvaldið allar leiðir til að fá málið aftur tekið upp. Bruno hafði í millitíðinni fengið háar bætur frá ríkinu fyrir tímann sem hann varði í fangelsi að ósekju. Árið 1998 sögðu dómarar að mál væri að linni. Morð Christine yrði skráð í kerfin sem óleyst og ákæruvaldið skyldi láta af tilraunum sínum til að koma Bruno aftur á bak við lás og slá.

Málið þótti gífurlegt hneyksli og smánarblettur á bæði lögreglunni í Bern sem og dómstólum. Enn í dag er ekki vitað hver myrti Christine, hvenær hún dó eða hvers vegna. Líklegt er þó talið að ef lögreglan hefði rannsakað málið með fullnægjandi hætti í stað þess að beina spjótunum strax að Bruno og reyna að beita öllum brögðum til að staðfesta þann grun sinn frekar en að sannreyna hann, þá hefði útkoman sennilega orðið önnur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Systur sem lögðu minningarstað um Charlie Kirk í rúst leita til almennings um hjálp við að borga reikninginn

Systur sem lögðu minningarstað um Charlie Kirk í rúst leita til almennings um hjálp við að borga reikninginn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Myndbandið fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla – Nú hefur unglingurinn hlotið dóm

Myndbandið fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla – Nú hefur unglingurinn hlotið dóm
Pressan
Fyrir 5 dögum

Foreldrar tveggja 17 ára drengja þurfa að greiða milljónir eftir heimskulegt uppátæki þeirra

Foreldrar tveggja 17 ára drengja þurfa að greiða milljónir eftir heimskulegt uppátæki þeirra
Pressan
Fyrir 6 dögum

Réttarhöld í einu elsta óupplýsta morðmáli Frakklands hófust í dag – „Kraftaverk að við séum komin hingað“

Réttarhöld í einu elsta óupplýsta morðmáli Frakklands hófust í dag – „Kraftaverk að við séum komin hingað“