Fortíðin hefur svo sannarlega bankað á dyrnar hjá hinum 77 ára gamla George Legere í Connecticut í Bandaríkjunum. Hann var nýlega handtekinn í tengslum við rannsókn á dauða 21 árs konu sem stungin var til bana árið 1973, hún hét Janet Couture. Fannst hún látin á heimili sínu þann 13. október það ár.
Árið 2021 var Legere handtekinn vegna annars þá óupplýsts máls, en hann var sakaður um að hafa frelsissvipt konu árið 1984. Í kjölfarið voru opnaðar rannsóknir á mörgum óupplýstum málum sem hann er talinn tengjast, og varða árásir á konur. Elstu málin eru frá því fyrir 1970. Lögregla segir að Legere hafi upphaflega verið grunaður um morðið á Janet Couture en ekki hafi verið fyrir hendi nægilega sterk sönnunargögn til að ákæra hann.
Lögregla telur að Legere hafi farið inn um glugga að heimili Couture og síðan stungið hana til bana. Hann var handtekinn vegna málsins núna í vikunni en er að afplána 25 ára fangelsisdóm fyrir brotið frá 1984 sem hann var handtekinn fyrir árið 2021.
Í tilkynningu frá lögreglunni í East Hartford um málið segir: „Að veita fjölskyldum brotaþola málalyktir er í forgangi hjá rannsóknarlögreglumönnum okkar. Við reynum að ná fram réttlæti í öllum málum og skiptir þá engu máli hvað langur tími hefur liðið. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir Couture-fjölskylduna og við vonum að þetta færi þeim sálarfrið.“
Sjá nánar hér.