Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í fangelsi í Bretlandi fyrir að hafa hótað áhöfn flugvélar sem maðurinn var farþegi í ásamt konu sinni og þremur börnum. Voru hótanirnar afar grófar og raunar sjúklegar. Hótaði hann meðal annars allri áhöfninni sprengjuárás og einni flugfreyjunni hótaði hann því að henni yrði fyrst hópnauðgað og svo kveikt í henni.
Fjallað er um málið í mörgum breskum fjölmiðlum.
Maðurinn heitir Salman Iftikhar en fram kemur að hann sé vel stæður og reki eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í að finna starfsfólk fyrir aðra. Hann hlaut 15 mánaða fangelsisdóm fyrir athæfið. Hann var ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum farþegi á fyrsta farrými flugvélar flugfélagsins Virgin Atlantic sem var á leið frá London til Lahore í Pakistan í febrúar 2023.
Iftikhar drakk ótæpilega af kampavíni um borð en þegar hann náði sér í ísmola á barnum, með berum höndum. Áhöfnin bað hann um að gera þetta ekki en þá trompaðist Iftikhar og hóf að dæla út úr sér hrinu sjúklegra hótana sem hann beindi ekki síst að flugfreyjunni Angie Walsh.
Annar farþegi tók hluta atburðarásarinnar upp á myndband.
Iftikhar sakaði Walsh um rasisma í sinn garð en hann er dökkur á hörund en hæun hvít. Hún neitaði því og þá var Iftikhar enn reiðari og hóf að hóta Walsh og kollegum hennar í gríð og erg eftir að hann var beðinn um að setjast aftur í sætið sitt:
„Ekki segja mér fyrir verkum, helvítis rasistatíkin þín. Ég veit hvaðan í Cardiff þú ert.“
Ekki kemur fram hvort að Iftikhar hafi virkilega þekkt til Walsh.
Flugstjórinn var þá látinn vita af hegðun Iftikhar og kveikti hann þá á ljósunum í farþegarýminu sem beina því til farþega að setjast og spenna sætisbeltin og varð Iftikhar þá enn reiðari og jós frekari svívirðingum yfir Walsh.
Áhöfnin fór þá að nefna það hvort heppilegast væri ekki að lenda flugvélinni sem fyrst og þá í Tyrklandi en hún var eins og áður segir á leið til Pakistan. Iftikhar sagði að það væri lítið mál sín vegna hann hefði sambönd í Tyrklandi.
Eiginkona Iftikhar og börn hans þrábáðu hann að láta af hegðun sinni en hegðun hans varð sífellt verri og ýtti hann eiginkonu sinni. Á myndbandinu sem annar farþegi tók og fjölmiðlar birtu má greinilega heyra að Iftikhar var orðinn þvoglumæltur og því ölvaður. Hann spurði áhöfnina hvort hún vissi hver hann væri en þegar hann var beðinn um að róa sig viðhafði hann afar grófar hótanir og greip í handlegg flugþjóns og sagði honum að þegja.
Iftikhar hótaði fyrst að fremja sprengjuárás á hótelinu sem flugáhöfnin gisti á í Lahore en hann vissi hvert hótelið var og í hvaða herbergjum áhöfnin átti að gista. Greip hann því næst í hönd Walsh, kreisti hana og viðhafði enn sjúklegri hótanir í hennar garð:
„Þú munt liggja dauð á hótelinu þínu. Hvíta drullutíkin verður dauð. Hæðin á hótelinu þínu verður sprengd og hún mun hverfa. Þú verður dregin á hárinu úr herberginu þínu, hópnauðgað og svo verður kveikt í þér.“
Á þessum tímapunkti grátbáðu börn Iftikhar hann um að hætta.
Vélinni var hins vegar flogið á áfangastað í Pakistan og yfirvöld þar gerðu ekkert í málinu en Iftikhar var loks handtekinn ári seinna á ríkulegu heimili fjölskyldunnar í Bretlandi.
Áhafnarmeðlimir voru hins vegar í áfalli eftir hinar sjúklegu hótanir hans en þó sérstaklega Angie Walsh. Hún gat ekkert sofið á hótelinu í Lahore en hún fór í kjölfarið í veikindaleyfi vegna þessa mikla áfalls sem hún varð fyrir.
Walsh er með mikla reynslu að baki sem flugfreyja og hefur lent í ýmsu á ferli sínum. Hún var við vinnu í flugi í Bandaríkjunum 11. september 2001 og hefur flogið inn á stríðssvæði en segir að þessi reynsla hafi hins vegar bugað hana.
Iftikhar játaði hótanir og kynþáttaníð en hann hafði áður hlotið sex dóma fyrir meðal annars líkamsárás og ölvun við akstur. Fjölskylda hans grét þegar hann hlaut þennan nýjasta dóm. Það kemur ekki fram hvort hann hafi beðist afsökunar á hegðun sinni en lögmaður hans sagði hann þjást af blóðleysi sem orsakaði minnisleysi.
Virgin Atlantic hrósaði hins vegar Angie Walsh í yfirlýsingu og sagðist stolt af henni og kollegum hennar sem hafi brugðist við af mikilli fagmennsku.
Myndband af hluta atburðarásarinnar og verulega ógnandu hegðun Iftikhar má sjá hér fyrir neðan.