Rob er maðurinn á bak við heimildarmynd, Maddie: The Unseen Evidence, sem frumsýnd var á Channel 4 í gærkvöldi.
Madeleine hvarf í Praia da Luz í Portúgal árið 2007 þegar hún var í sumarleyfi með fjölskyldu sinni. Lögregluyfirvöld í Þýskalandi segjast ganga út frá því að Madeleine hafi verið myrt og í mörg ár hefur hinn þýski Christian Brueckner legið undir grun. Saksóknarar hafa þó ekki ákært hann þar sem ólíklegt þykir að þau dugi til sakfellingar.
En hvers eðlis eru þessi gögn sem lögregla telur bendla þýska barnaníðinginn Brueckner við málið?
Áhorfendur heimildarmyndarinnar fá ákveðna innsýn í það og í gær var til dæmis greint upplýsingum sem fram koma í myndinni um hrollvekjandi uppgötvun sem gerð var í yfirgefnu verksmiðjuhúsnæði í Neuwegersleben í Þýskalandi árið 2016. Verksmiðjuhúsnæðið var í eigu Brueckner en þar fundust meðal annars barnaklæði, leikföng, grímur, ólögleg skotvopn og efni sem talið er tengjast barnaníði.
Sjá einnig: Hrollvekjandi uppgötvun í niðurníddu verksmiðjuhúsnæði sögð benda til þess að Madeleine McCann sé látin
Sérstaklega vakti athygli harður diskur og minnislyklar sem voru grafnir undir hræi hunds sem var í eigu Brueckners; á þeim fundust myndir og skrif sem lýsa viðurstyggilegri þráhyggju Brueckner gagnvart börnum.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að Brueckner hafði átt í samskiptum við aðra barnaníðinga í gegnum netið, þar sem hann lýsti sjúkum fantasíum um að ræna og misnota börn.
Í pistli sínum á vef The Sun í morgun segir Rob að heimsbyggðin þurfi að búa sig undir það að upplýsingar um hvað nákvæmlega gerðist þennan örlagaríka dag árið 2007 líti dagsins ljós. „Þetta mun ganga gegn allri rökhugsun og mannlegu velsæmi,“ segir hann meðal annars og segir síðan:
„En á þessari stundu er afar mikilvægt að skilja alvöruna á bak við það sem við stöndum nú frammi fyrir: Hinn grunaði í málinu, Christian Brueckner – hættulegur nauðgari og barnaníðingur – mun að óbreyttu geta um frjálst höfuð strokið þann 17. September næstkomandi. Ef það gerist má gera ráð fyrir að hann yfirgefi Þýskaland og ferðist til lands sem er ekki með framsalssamning og taki þannig með sér allar vonir um að hann verði nokkurn tímann ákærður í máli Madeleine McCann.“
Rob segir að það sé enginn vafi í hans huga að Brueckner eigi ekki að ganga frjáls.
„Ég hef ekki aðeins farið í gegnum fyrri brot hans, sem eru ógeðsleg í smáatriðum, heldur ég hef einnig séð með eigin augum umfang þeirra sönnunargagna sem styðja við það að hann sé sekur. Eftir að hafa haldið þessari vitneskju fyrir sjálfan mig í marga mánuði, er það hreint út sagt léttir að geta loks deilt þessum upplýsingum með heiminum,“ segir hann og telur að gögnin sem fram koma innihaldi upplýsingar sem vel eiga heima fyrir dómi.
Christian þessi var dæmdur í sjö ára fangelsi árið 2019 fyrir nauðgun á 72 ára bandarískri konu árið 2005. Þá hefur hann hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum, til dæmis árið 1999, 2016 og 2017.
Rob segir í grein sinni að til séu gögn sem staðfesti að Christian var á svæðinu þegar Madeleine var numin á brott. Þá hafi hann játað í samtölum við vitni að hún hafi „ekki öskrað“ þegar hún var numin á brott. „Við vitum líka af 80 gígabæta hörðum diski og fartölvu sem inniheldur myndir frá Portúgal – sem tengist sterklega þeirri trú lögreglu að Maddie sé látin. En hins vegar – og enn ógeðslegra – er sú vitneskja sem við höfum og gefur innsýn í hugarheim Brueckners,“ segir hann og vísar í samtöl hans við aðra barnaníðinga þar sem hann lýsti viðbjóðslegum draumórum sínum um mannrán og kynferðisbrot.
„Þegar þú horfir yfir gögnin og sérð og heyrir ógeðslegar fantasíur hans og viðbjóðslegar myndir hlýturðu að spyrja þig: „Hvað í ósköpunum er þessi maður fær um að gera?“