Leikurinn sem um ræðir kallast Senior Assassin og hefur hann notið vinsælda meðal útskriftarnemenda í bandarískum menntaskólum. Leikurinn byggist á því að klukka aðra leikmenn með vatnsbyssum, baunabyssum eða gelbyssum á meðan maður reynir sjálfur að þrauka eins lengi og hægt er. Leikurinn heldur svo áfram þar til aðeins einn leikmaður er eftir.
Leikurinn getur staðið yfir í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði og þurfa leikmenn oftar en ekki að beita töluverðri útsjónarsemi til að klukka andstæðinginn – sérstaklega þar sem ekki má klukka þá á ákveðnum stöðum, til dæmis á heimili viðkomandi eða í skóla.
Slysið sem um ræðir varð í Texas þann 20. apríl síðastliðinn þegar hinn 17 ára gamli Isaac Leal hugðist klukka skólafélaga sinn í úthverfi Arlington. Vopnaður vatnsbyssu kom hann auga á skólafélagann í jeppabifreið og brá hann á það ráð að hoppa upp á afturstuðara bifreiðarinnar á meðan hún var kyrrstæð.
Ökumaðurinn sem skotmarkið var í brást við með því að aka af stað og var henni ekið á talsverðum hraða með Isaac aftan á. Hann missti takið þegar bifreiðinni var ekið ofan í holu á veginum og skall hann með höfuðið í götuna. Hann var fluttur alvarlega slasaður á Medical City-sjúkrahúsið í Arlington og er hann enn í öndunarvél, rúmum tveimur vikum eftir slysið. Óvíst er með batahorfur.
Isaac átti að útskrifast úr námi síðar í þessum mánuði en læknar óttast að hann muni aldrei ná sér eftir slysið og jafnvel þurfa umönnun allan sólarhringinn.
Í frétt New York Post kemur fram að lögregla hafi ítrekað varað við leiknum vegna fjölda atvika sem komið hafa upp í tengslum við hann. DV fjallaði til dæmis um eitt mál í fyrrasumar þar sem 18 ára piltur lamaðist fyrir neðan mitti eftir að hafa verið skotinn af föður stúlku sem hann ætlaði að klukka.
Hefur lögregla bent á að þar sem leikmenn eru stundum með vatnsbyssur, sem geta líkst alvöru byssum, haldi fólk að verið sé að framkvæma alvöru árás. Eru til dæmis þess að lögregla hafi verið kölluð til með mikinn viðbúnað. Þá hafa nokkur umferðarslys orðið þegar sem einstaklingar reyna að flýja undan árásarmanni sínum með því að hlaupa yfir götur eða keyra hratt.
Sjá einnig: Vafasamur leikur hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir tvær fjölskyldur