Konan sem um ræðir heitir Holly LaFavers og hafði hún rétt syni sínum Liam símann þar sem hann fékk að vafra um og leika sér. Hann ákvað að kíkja á vefsíðu Amazon þar sem hann sá nokkuð sem honum leist vel á og lagði inn pöntun þar sem kreditkort móður hans var tengt við reikninginn.
Um var að ræða hvorki fleiri né færri en 70 þúsund sleikipinna og vissi Holly vart hvaðan á hana stóð veðrið þegar starfsmenn Amazon báru hvern kassann á fætur öðrum að útidyrunum. Alls var um að ræða 30 kassa af Dum-Dums sleikipinnum sem kostuðu samtals 4.200 dollara, tæpar 550 þúsund krónur.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að Liam hafi útskýrt kaupin fyrir móður sinni með þeim orðum að hann langaði að halda stórt karnival þar sem sleikipinnarnir yrðu gefnir í verðlaun. Holly segir að sonur hennar sé seinþroska og það geti komið niður á ákvarðanatöku hans.
Þegar Holly áttaði sig á því sleikipinnarnir væru á leið heim til hennar hafði hún samband við Amazon og reyndi að stöðva pöntunina. Það var hins vegar of seint og var pöntunin þá þegar á leiðinni.
Holly reyndi að koma nokkrum kössum upp á vini og vandamenn og auglýsti þá meira að segja til sölu. Eftir að fjölmiðlar byrjuðu að fjalla um málið segir hún að forsvarsmenn Amazon hafi sett sig í samband og boðist til þess að endurgreiða henni. Það er skemmst frá því að segja að Holly þáði það boð með þökkum.