Fólkið var að skoða Angkor Wat-musterið í Kambódíu þegar mikið eldingaveður gekk yfir svæðið. Í frétt AP kemur fram að myndbönd á samfélagsmiðlum hafi meðal annars sýnt sjúkrabíla á svæðinu og slasað fólk.
Hout Hak, ráðherra ferðamála í Kambódíu, sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir þar sem hann hvatti fólk til að fjarlægja umrædd myndbönd af samfélagsmiðlum þar sem þau gætu haft skaðleg áhrif á ferðamannaiðnað landsins.
Yfirvöld hafa ekki gefið neinar upplýsingar um málið en hátt settur opinber fulltrúi, sem vildi ekki láta nafns síns getið, staðfesti við AP að þrír hefðu látist og allir væru frá Kambódíu.
Angkor Wat nýtur mikilla vinsælda meðal þeirra sem heimsækja Kambódíu en svæðið nýtur verndar UNESCO.