Samkvæmt nýjum tölum frá kínverskum tollyfirvöldum jókst útflutningurinn frá landinu um 8,1% í apríl miðað við apríl á síðasta ári. Þetta vekur töluverða athygli, ekki síst í ljósi þess að útflutningurinn dróst mjög mikið saman eftir að Donald Trump lagði háa tolla á kínverskar vörur.
Reuters segir að útflutningurinn hafi aukist mun meira en bæði Reuters og Bloomberg reiknuðu með en báðir miðlar reiknuðu með 2% aukningu.
Útflutningurinn dróst þó saman miðað við mars en þá jókst hann um 12,4% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Ástæðan er að útflytjendur hömuðust við að koma vörum sínum úr landi áður en tollar Trump tóku gildi.
Útflutningurinn til Bandaríkjanna dróst saman um 17,6% í apríl miðað við sama mánuð á síðasta ári.