fbpx
Miðvikudagur 17.september 2025
Pressan

Sjúkdómurinn sem getur gert bros óbærilegt

Pressan
Þriðjudaginn 22. apríl 2025 22:00

Mynd: Freepik.com. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrenndartaugarverkur ( e. trigeminal neuralgia) er líklega ekki einn þekktasti sjúkdómur heims en þó vel þekktur innan læknavísindanna. Sjúkdómurinn lýsir sér einkum í afar sársaukafullum verkjum í andliti og getur það farið svo að brosi fólk, sem haldið er sjúkdómnum, er mögulegt að afleiðingin verði verkur sem getur verið óbærilegur.

Í umfjöllun New York Post kemur fram að sjúkdómurinn sé taugasjúkdómur sem felur þá í sér mikinn þrýsting á svokallaða þrenndartaug sem er taug í andliti en í gegnum hana fáum við skynjun í andliti og yfirborði augna. Verkirnir koma yfirleitt í köstum og eru oft afar sársaukafullir. Vegna þessa mikla og reglulega sársauka er þrenndartaugarverkur stundum kallaður „sjálfsvígssjúkdómurinn“.

Í Bandaríkjunum greinast um 15.000 manns með sjúkdóminn á hverju ári. Í nýlegri grein í Læknablaðinu kemur fram að nýgengi sjúkdómsins sé á bilinu 4-5 tilfelli á hverja 100.000 íbúa ár hvert  og því ættu að greinast um 16-20 einstaklingar á ári með þrenndartaugarverk á Íslandi.

Þrenndartaugarverkur herjar einkum á fólk yfir fimmtugu og fremur konur en karla. Þó getur yngra fólk sannarlega fengið sjúkdóminn og dæmi eru um að börn séu haldin honum.

Verkirnir koma eins og áður segir oft í köstum og hefur verið lýst á þann hátt að þeir séu eins og að fá rafstuð í andlitið.

Ósköp hversdagslegar athafnir geta komið verkjaköstunum af stað til dæmis að bursta tennur, raka sig, setja á sig farða, tyggja, tala, geispa og jafnvel bros getur leitt af sér verkina.

Algengasta orsök þrenndartaugarverkja er, samkvæmt Læknablaðinu, talin vera þrýstingur aðlægrar æðar á taugina, við upptök hennar í heilastofni.

Óbærilegt

Bandarískur maður sem haldinn er þrenndartaugarverk segir sársaukann þann langversta sem hann nokkurn tímann hafi á ævinni fundið. Það hafi verið eins og einhver hefði stungið hann í andlitið með hníf sem rafmagnsvír væri áfastur við. Hann hafi fengið krampaköst vegna sársaukans og átt erfitt með að halda augnsambandi við fólk þar sem honum hafi vöknað svo um augu.

Þrenndartaugarverkur hefur eins og áður segir verið nefndur sjálfsvígssjúkdómurinn þar sem hann skerði lífsgæði svo mikið að fólk verði afar þunglynt og kvíðið sem endi síðan með því að það sjái aðeins eina leið út.

Í umfjöllun New York Post kemur fram að í könnun meðal um 300 manna með þrenndartaugarverk hafi þriðjungur svarenda sagst hafa glímt við sjálfsvígshugsanir.

MS-sjúklingar, fólk með of háan blóðþrýsting og reykingafólk er útsettara fyrir þrenndartaugaverk en aðrir.

Lausnir

Þrenndartaugarverkur er því miður ólæknanlegur en lyfjameðferð getur í mörgum tilfellum haldið einkennum niðri með því að draga úr sársaukaboðum í taugakerfinu til heilans. Dugi það ekki til eru nokkrar aðgerðir sem koma til greina eins og til dæmis skurðaðgerð þar sem teflon bútur er settur á milli æðar sem þrýstir á þrenndartaugina og taugarinnar sjálfrar. Sú aðgerð hefur virkað mjög vel fyrir suma bandaríska sjúklinga sem segja verkina hafa horfið og í Læknablaðinu kemur fram að þessi aðgerð virðist bera mestan árangur af þeim aðgerðum sem nýttar eru við þrenndartaugarverk en hún virðist ekki þó verða til þess að bókstaflega allir sjúklingar losni við verkina um aldur og ævi. Í umfjöllun Læknablaðsins segir að um 90 prósent sjúklinga séu verkjalausir strax eftir aðgerð og um 70 prósent séu enn verkjalausir 10 árum eftir aðgerðina.

Ljóst er því að hægt er að lina þjáningar margra sem haldnir eru þessum sársaukafulla sjúkdómi sem þrenndarataugarverkur er. Eftir stendur þó að, a.m.k. þar til meðferð hefur hafist, getur bros, í tilfelli þeirra sem eru með þrenndartaugarverk, dagsljósi í dimmu breytt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Sakamál: Myrti fjölskylduna og bað síðan um að fá að fara heim

Sakamál: Myrti fjölskylduna og bað síðan um að fá að fara heim
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ofbeldismaður fleygði 7 ára fram af brú eftir voðaverk – Nú mætir hún geranda sínum fyrir dómi

Ofbeldismaður fleygði 7 ára fram af brú eftir voðaverk – Nú mætir hún geranda sínum fyrir dómi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hægri- og vinstrimenn Bandaríkjanna keppast við að sverja af sér meinta skotmanninn – En hvað er vitað um skoðanir hans?

Hægri- og vinstrimenn Bandaríkjanna keppast við að sverja af sér meinta skotmanninn – En hvað er vitað um skoðanir hans?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona getur þú prófað hversu heilbrigð lungun þín eru

Svona getur þú prófað hversu heilbrigð lungun þín eru
Pressan
Fyrir 5 dögum

Dularfulli brúðkaupsgesturinn – Brúðurin komst að sannleikanum mörgum árum síðar

Dularfulli brúðkaupsgesturinn – Brúðurin komst að sannleikanum mörgum árum síðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Falsfréttir um morðið á Charlie Kirk kollsteyptu lífi Kanadamanns á lífeyrisaldri

Falsfréttir um morðið á Charlie Kirk kollsteyptu lífi Kanadamanns á lífeyrisaldri