fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Pressan

Sérfræðingar grátbiðja foreldra að hætta að halda mislingapartý – Getur haft alvarlegar afleiðingar

Pressan
Mánudaginn 17. mars 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirvöld í Texas hafa varað við svokölluðum mislingasamkomum, en faraldur mislinga gengur nú í ríkinu. Borið hefur á því að foreldrar barna hafi skipulagt sérstakar samkomur barna til að viljandi smita þau af mislingum í von um að stuðla þannig að ónæmi og fyrirbyggja erfiðari veikindi síðar á lífsleiðinni. Samkomur af þessu tagi þekktust í tengslum við hlaupabóluna, enda einkenni sjúkdómsins verri hjá fullorðnum en hjá börnum.

Það sama á þó ekki við um mislinga. Mislingar eru mjög smitandi og geta verið mjög hættulegir, jafnvel banvænir. Frá því að bóluefni kom við mislingum fækkaði smitum gífurlega en fór svo að fjölga aftur fyrir um áratug síðan, en þessi breyting er gjarnan tengd við ótta foreldra við mögulegar aukaverkanir bóluefna. Sú saga gekk lengi að bóluefnið gæti valdið einhverfu og það, þrátt fyrir að sögurnar ættu rætur að rekja til rannsóknar sem hefur margsinnis verið afsönnuð, dregin til baka og höfundur hennar fallið í ónáð í vísindasamfélaginu.

Nú er kominn upp faraldur mislinga í Texas sem hefur dreift sér til fleiri ríkja Bandaríkjanna. Fljótlega fór að bera á færslum á samfélagsmiðlum um foreldra sem voru að skipuleggja mislingapartý til að smita börn sín viljandi.

Læknirinn Ron Cook sem er yfir heilbrigðisstofnun Texas sagði á blaðamannafundi fyrir nokkru að þetta væri það heimskulegasta sem hann hefði heyrt. Annar sérfræðingur, barnalæknirinn Matthew Harris, sagði foreldra taka gífurlega áhættu með heilsu barna sinna. Hlaupabólan sé eitt, en mislingar séu mun hættulegri. Þegar Harris var læknanemi sá hann óbólusett barn sem glímdi við hörmulegar afleiðingar mislinga. Það fékk bólgur í heila sem munu líklega aldrei batna fullkomlega. „Taugakerfi barnsins var í rúst og það átti aldrei eftir að geta gengið aftur óstutt, gat aldrei talað án aðstoðar og þurfti að nærast í gegnum slöngu. Þetta er, svo það komi skýrt fram, sjaldgæf aukaverkun en hún er algjörlega fyrirbyggjanleg. Þetta er sjúkdómur sem er hægt að koma í veg fyrir með bólusetningu.“

Harris tók fram að það geti gerst að bólusett börn greinist með mislinga en einkenni séu í þeim tilvikum væg og börnin þurfa nánast aldrei að leggjast inn á sjúkrahús. Eitt barn er nú þegar látið í Texas og fullorðinn einstaklingur sem var ekki bólusettur lét lífið í Nýju Mexíkó. Harris segir tilhugsunina um mislingapartý hrollvekjandi.

„Börn með mislinga eru ótrúlega vansæl. Þau eru virkilega veik. Þau ofþorna gjarnan. Þau vilja ekki drekka sem er ástæðan fyrir að mörg þeirra enda á bráðamóttökunni og smita þar aðra.“

Þó nokkur börn hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús í Texas, mörg þeirra vegna lungnabólgu sem má rekja til mislinganna. Bandaríska heilbrigðisstofnunin CDC hefur staðfest minnst 301 smit í 14 ríkjum til þessa, flest eru í Texas og Nýju Mexíkó. Rúmlega 99% þeirra sem hafa smitast eru óbólusett og flest þeirra smituðu eru börn. 34 hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús í Texas.

Nokkur smit hafa greinst í Kanada og þar hafa sérfræðingar varað foreldra við mislingasamkomum. Læknirinn Dr. Sarah Khan varar, í samtali við miðilinn CTV News í Kanada, foreldra við því að stefna börnum sínum í gættu.

Læknirinn Azon Kasmani bendir á að mislingar geti valdið óafturkræfum afleiðingum á borð við langvarandi bólgur í heila sem svo geta valdið heyrnarleysi, blindu, greindarskerðingu, taugaskemmdum og loks geta þær dregið börn til dauða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Rifja upp leikfangaeign Barron Trump eftir umdeild ummæli Bandaríkjaforseta

Rifja upp leikfangaeign Barron Trump eftir umdeild ummæli Bandaríkjaforseta
Pressan
Í gær

Leynilegar njósnaaðgerðir sýna hvernig Bandaríkin eru þegar farin að undirbúa innlimun Grænlands

Leynilegar njósnaaðgerðir sýna hvernig Bandaríkin eru þegar farin að undirbúa innlimun Grænlands
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sturluðustu færslunar sem Hvíta húsið hefur birt undanfarið

Sturluðustu færslunar sem Hvíta húsið hefur birt undanfarið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Uppnám fyrir utan heimili Eddie Hall – „Ég ríf af þér hausinn“

Uppnám fyrir utan heimili Eddie Hall – „Ég ríf af þér hausinn“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tveggja barna móðir fannst heil á húfi 63 árum eftir að hún hvarf

Tveggja barna móðir fannst heil á húfi 63 árum eftir að hún hvarf
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump er enn að hella sér yfir blaðamenn – jafnvel þá sem eru með honum í liði

Trump er enn að hella sér yfir blaðamenn – jafnvel þá sem eru með honum í liði