
Breska ríkisútvarpið, BBC, segir frá því að aftökurnar hafi verið framkvæmdar í skugga dómsmáls sem höfðað hefur verið gegn yfirvöldum vegna dauðarefsinga fyrir fíkniefnabrot.
Fíkniefnalöggjöfin er afar ströng í Singapúr og segja yfirvöld að hún sé nauðsynleg til að fæla fólk frá því að sýsla með fíkniefni. Samkvæmt lögunum hljóta þeir sem dæmdir eru fyrir að flytja, selja eða afhenda tiltekið magn af ópíumskyldum efnum, kókaíni, metamfetamíni eða kannabis sjálfkrafa dauðadóm.
Það eru sjö aðgerðasinnar sem standa að fyrrnefndu dómsmáli, en þeir halda því fram að sjálfkrafa dauðarefsing fyrir ákveðnar tegundir fíkniefnabrota feli í sér brot gegn ákvæðum stjórnarskrár landsins.
Yfirvöld hafna gagnrýninni og segja afnám dauðarefsingar leiða til aukinnar brotastarfsemi og fleiri dauðsfalla.
Einn þeirra sem var tekinn af lífi í síðustu viku var flutningabílstjóri frá Malasíu, Saminathan Selvaraju. Hann var sakfelldur fyrir að hafa flutt rúmlega 300 grömm af heróíni frá Malasíu til Singapúr árið 2013. Hann hafnaði því að hafa haft vitneskju um að efnin væru í bílnum, en dómstóll féllst ekki á varnir hans og niðurstaðan stóð óhögguð þrátt fyrir áfrýjanir.