
Lík hennar fannst í mýri nærri Lelystad í lok maí í fyrra, sex dögum eftir að hún hvarf af heimili fjölskyldunnar í bænum Joure í norðurhluta Hollands.
Morðið virðist hafa verið skipulagt því þegar Ryan fannst voru hendur hennar bundnar fyrir aftan bak og fætur hennar teipaðir saman. Átti hún því engan möguleika á að bjarga sér þegar henni var varpað út í mýrina.
Saksóknarar segja að málið sé dæmigert kvennamorð (e. femicide) og það hafi verið framið til að refsa Ryan fyrir óhlýðni. Fjölskyldan hafi talið að hegðun Ryan væri að skoða heiður og orðspor hennar út á við.
Bræður hennar, Mohamed, 23 ára, og Muhanad Al Najjar, 25 ára, eru fyrir dómi vegna málsins en þeir eru taldir hafa framið sjálft morðið. Faðir Ryan er grunaður um að hafa fyrirskipað morðið en hann flúði til Sýrlands, þaðan sem fjölskyldan er, eftir að Ryan fannst látin. Hann er talinn dvelja í norðurhluta Sýrlands og segja hollensk yfirvöld að nær vonlaust sé að fá hann framseldan.
Í frétt Mail Online, sem fjallar um málið, kemur fram að það sem hafi farið fyrir brjóstið á karlmönnunum í fjölskyldu Ryan hafi verið sú staðreynd að hún tók upp vestræna siði, útbjó myndbönd sem hún birti á samfélagsmiðlum, notaði farða og neitaði að bera slæðu.
Telja saksóknarar að kveikjan að morðinu hafi verið myndband á TikTok, þar sem Ryan var í beinni útsendingu, án slæðu.
Bræðurnir neita báðir sök og segja að faðir þeirra beri einn ábyrgð á morðinu. Hann hafi sent hollenskum fjölmiðlum tölvupóst og játað verknaðinn. Saksóknarar hafna þessu hins vegar og benda á síma- og staðsetningargögn sýni að allir þrír hafi verið á vettvangi þegar Ryan hvarf.
Bræðurnir eiga yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi vegna málsins en dómur í málinu verður kveðinn upp þann 5. janúar næstkomandi.