
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, eða stríðsmálaráðherrann eins og hann vill kalla sig, segir að ungir Bandaríkjamenn séu margir of feitir eða heimskir til að ganga í herinn.
Þetta kom fram í ávarpi hans til nýliða í hernum.
„Alltof mikið af unga fólkinu okkar er alltof feitt eða alltof heimskt, nei ekki heimskt, það er ekki rétta orðið. Þið vitið, við erum bara ekki að mennta það nægilega vel eða það er komið á sakaskrá, eða með ADHD og allt þetta.“
Ráðherrann, Pete Hegseth, hefur hert inntökuskilyrðin í herinn en hann segist sjálfur hafa fært herinn frá því að vera „vók“ yfir í að vera stofnun með stríðsandann í forgrunni. Vill hann meina að þessi stefnubreyting hafi orðið því til leiða að fleiri en áður vilja nú ganga í herinn.
Hegseth telur herinn ekki rétta staðinn fyrir fólk í ofþyngd og hefur hann gagnrýnt herforingja fyrir að vera í of góðum holdum. Það sé ekki góð ímynd fyrir herinn.
Vill ráðherrann meina að honum hafi tekist að gera herinn meira aðlaðandi með því að slaufa öllum „vók“ verkefnum og með því að gera strangari kröfur til hermanna. Herinn hefur þegar náð markmiðum sínum í ár hvað varðar nýliðun og ekki hefur tekist betur til síðustu 15 árin. Reyndar náði herinn líka markmiði sínu í fyrra sem verður ekki alfarið talið nýrri ríkisstjórn að þakka og eins er talið að dræmari aðsókn undanfarinna ára megi skýra að hluta til með faraldri COVID.
Hvað sem því líður þá er ráðherrann lukkulegur með nýliðana sína og segir ljóst að ungir Bandaríkjamenn vilja her þar sem enginn afsláttur er gefinn af kröfum vegna inngildingar, fjölbreytni eða jafnréttis. Eins telur hann að aðsóknin sé traustsyfirlýsing unga fólksins til ríkisstjórnarinnar og leiðtoga hersins.