

Móðir leikarans Corey Haim, Judy Haim, neitar harðlega ásökun Corey Feldman um að sonur hennar hafi misnotað Feldman við tökur þeirra á kvikmyndinni The Lost Boys frá árinu 1987. Haim var 14 ára og Feldman 16 ára þegar myndin kom út.
Gagnrýnir Judy ásökun Feldman og segir hana „enn eina lygi til að eitra fyrir fólki og halda sér í umræðunni“, í viðtali við TMZ á fimmtudag.
Sjá einnig: Segir vin sinn og mótleikara hafa misnotað sig við tökur The Lost Boys
Hún segir það „ekki séns í helvíti“ að sonur sinn hafi misnotað meðleikara sinn og sakar Feldman um að trufla almenning frá því að „einbeita sér að eigin misgjörðum“.
Judy segir son sinn, sem lést árið 2010 úr fylgikvillum lungnabólgu 38 ára að aldri, hafa verið gagnkynhneigður og „einnar konu karlmaður“.
Hún minntist samtals þar sem sonur hennar sagði: „Mér er alveg sama þótt einhver sé samkynhneigður, en ég er ekki samkynhneigður eða neitt slíkt.“
Áður fyrr hélt Feldman, sem er 54 ára, því fram að hann og Haim hefðu báðir verið beittir kynferðisofbeldi á meðan þeir störfuðu í kvikmyndabransanum.
„Corey Feldman talar alltaf um kynlíf og kennir barninu mínu um hluti sem hann er ekki hér til að verja sig fyrir,“ sagði Judy. Segir hún son sinn aldrei hafa verið einn á meðan tökur The Lost Boys stóðu yfir og að fjölskyldumeðlimur hefði alltaf verið með honum.
„Af hverju voru þeir vinir svona lengi ef þetta gerðist? Þetta gengur ekki upp,“ spurði hún.
Judy kallaði ásökunina „svo ærumeiðandi og særandi fyrir arfleifð sonar síns“.
Feldman greinir frá meintri misnotkun í nýrri heimildarmynd sinni Corey Feldman vs. the World.
„Þegar einhver er að reyna að koma kynferðislega að þér, og þú vilt það ekki, og þú ert krakki, og þú ert hræddur … þá gerirðu allt sem þú getur til að koma í veg fyrir að það gerist, og það var það sem var að gerast,“ sagði Feldman. „Corey Haim misnotaði mig kynferðislega.“