
Fjölskylda hins 14 ára gamla Max Hall safnar peningum fyrir son sinn til að fá meðferð erlendis vegna heilaæxlis sem þeim hefur verið sagt að sé óskurðtækt. Fjölskyldan er örvæntingarfull og vill gera allt til að Max lifi af eftir að „unglingamígreni“ hans reyndist vera óskurðtækt æxli.
Max var hraustur unglingur, en í rúmt ár hafði hann kvartað yfir höfuðverkjum. „Við vorum fullvissuð um að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af, talið var að þetta væru unglingamígreni,“ útskýra foreldrar hans, Jackie og Stephen, á söfnunarsíðunni GoFundMe. Fjölskyldan er búsett í bænum Corby í Northamptonshire í Bretlandi.
Þann 27. nóvember, aðeins sex dögum eftir að Max varð 14 ára, segja foreldrar han, að „heimurinn okkar hafi breyst á augabragði. Max fékk skyndilega óvænt flog. Annað flog fylgdi skömmu síðar og hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var settur í öndunarvél.“
Tveimur dögum síðar „fengum við hörmulegustu fréttir sem foreldri getur heyrt: Max er með stórt heilaæxli.“ Vegna staðsetningar æxlisins, er það „talið ólæknandi“.
Fjölskyldan hrósar Max sem „ fyndnum, góðhjörtuðum, blíðum og kærleiksríkum. Hann er stóri bróðir George, sem er 13 ára, og Hope, sem er 11 ára.“

Þau vonast til að fjáröflunin muni hjálpa Max að fá ónæmismeðferð erlendis. Á meðan segir fjölskyldan: „Við erum farin að sjá sum einkenni sem æxlið veldur.“
„Minni og málfar Max er að verða fyrir áhrifum. Hann gleymir orðum, ruglar saman setningum eða gleymir samræðum sem við höfum átt rétt í þessu. Það er hjartnæmt fyrir okkur að horfa á og heyra, en Max heldur áfram að takast á við hverja stund með sama ótrúlega anda og hann hefur alltaf haft: jákvæðni, húmor og hugrekki.“
Þann 12. desember gat Max farið í stutta heimsókn í skólann og „hann ljómaði alveg um leið og hann sá vini sína og kennara. Hann brosti allan tímann og fannst hann svo sérstakur. Það þýddi allt fyrir hann þó hann hafi sofið stærstan hluta síðdegisins á eftir, því jafnvel hamingjusömustu stundirnar taka svo mikið á hann núna,“ útskýrði fjölskylda hans.