fbpx
Föstudagur 28.nóvember 2025
Pressan

Var dæmdur til dauða fyrir glæp sem að líkindum var aldrei framinn

Pressan
Föstudaginn 28. nóvember 2025 21:30

Mynd: Innocence Project/Jamal Barnes

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir 27 ár á dauðadeild getur hinn 56 ára gamli Jimmy Duncan loks um frjálst höfuð strokið – í bili að minnsta kosti – eftir að dauðadómur hans fyrir morð var felldur úr gildi.

Duncan var ákærður og dæmdur fyrir að nauðga og drekkja 23 mánaða stjúpdóttur sinni, Haley Oliveaux, þann 18. desember 1993.

Duncan hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu í málinu. Hann hélt því fram að hann hefði verið að baða Haley þegar hann brá sér frá í örstutta stund þennan örlagaríka dag. Lýsti hann því að þegar hann kom að henni hefði litla stúlkan verið meðvitundarlaus í baðkarinu og hann strax hafið endurlífgunartilraunir.

Hann hafði samband við neyðarlínuna en Haley var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús.

Þjáðist af flogaveiki

Í frétt People kemur fram að Haley hafi þjáðst af flogaveiki og fengið nokkur köst áður en hún lést. Fékk hún meðal annars höfuðáverka eftir að hafa dottið í einu kastinu sem saksóknarar á þeim tíma töldu að hefði verið eftir ofbeldi Duncans.

Þá þóttu ummerki á kynfærasvæði stúlkunnar gefa til kynna að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, en síðar kom í ljós að engin líkamleg eða lífefnafræðileg greining studdi þá ályktun og kom síðar á daginn að fullyrðing um nauðgun byggðist á röngum túlkunum réttarlæknisfræðilegra gagna.

Síðasta vor úrskurðaði Alvin Sharp, dómari við sakadómstólinn í Louisiana, að ýmislegt við rannsókn málsins hefði verið ábótavant.

Saksóknarar byggðu málið að stórum hluta á meintum bitförum á líki Haley sem áttu að tengja Duncan beint við meiðsli á líkama hennar. Síðar kom í ljós að þessi bitfaragreining reyndist hvorki byggð á viðurkenndum vísindum né trúverðugri aðferð.

Myndband sem síðar fannst sýndi að réttarsérfræðingur hafði þrýst móti af tönnum Duncan á líkama Haley eftir andlát hennar – sem þýðir að bitförin sem áttu að sanna sekt hans voru í raun búin til. „Forsendan fyrir sekt hans er ekki sterk,“ sagði Alvin Sharp.

Baráttunni ekki lokið

Samtökin Innocence Project, sem berjast fyrir réttindum fanga sem að líkindum voru dæmdir ranglega, tóku að sér mál Duncans og segir Chris Fabricant, lögmaður Duncans hjá Innocence Project, að lausn hans úr haldi sé stórt skref í langri baráttu.

„En baráttan er ekki búin. Það var gróft ranglæti að hann skyldi sitja svo lengi inni og aftaka hans hefði verið siðferðislegur skandall,“ segir hann. Sagði hann að málatilbúnaður saksóknara hefði byggst á „ruslvísindum“ frá A til Ö.

Það styrkti líka málstað Duncans að móðir Haley kom fyrir dóminn og lýsti því að hún teldi að dóttir hennar hefði ekki verið myrt. Um sorglegt slys hafi verið að ræða og hún hafi að líkindum fengið flogakast í baðkarinu. „Hún dó vegna þess að hún var veik,“ sagði hún.

Duncan gengur nú laus gegn 150 þúsund dala tryggingu á meðan málið er endurmetið. Saksóknarar reyna að fá úrskurðinum snúið við og er málinu því ekki lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Telja að áhrifavaldurinn sé endanlega genginn af göflunum eftir nýjustu samsæriskenninguna

Telja að áhrifavaldurinn sé endanlega genginn af göflunum eftir nýjustu samsæriskenninguna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandarískir neytendur fá að kenna á tollahækkunum Trumps

Bandarískir neytendur fá að kenna á tollahækkunum Trumps