
Málið hófst í desember 2006 þegar lögreglan fann líkamsleifar nálægt heimili athafnamannsins Moninders Singh Pandher.
Pandher og Surinder Koli, þjónn hans, voru handteknir eftir að lögreglan fann höfuðkúpur, bein og líkamsleifar sem fylltu tæplega 70 poka í holræsi í Nithari-fátækrahverfinu sem liggur að hinu vel stæða íbúðahverfi í Noida.
Sjá einnig: Raðmorðingjarnir úr hryllingshúsinu dæmdir til dauða – Taldir hafa myrt tugi barna og kvenna
Málið hefur lengi verið til meðferðar hjá indverskum dómstólum og voru þeir Pandher og Koli dæmdir til dauða árið 2017. Voru þeir sakaðir um að hafa nauðgað og myrt tugi barna og kvenna úr fátækrahverfunum nærri „hryllingshúsinu“.
Þeir eru síðan sagðir hafa losað sig við líkin í nærliggjandi holræsi. Lögreglan segir að Koli hafi lokkað fórnarlömb allt niður í þriggja ára aldur inn í „hryllingshúsið“ þar sem þeim var nauðgað og síðan myrt.
Dauðadómarnir voru felldir úr gildi og segir BBC frá því að þann 12. nóvember síðastliðinn hafi Koli endanlega verið sýknaður. Byggðist ákvörðun réttarins á því að játning Koli á sínum tíma hafi verið fengin fram með pyntingum. Árið 2023 var Pandher sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum og nú hefur Koli einnig verið leystur úr haldi eftir að hafa setið inni í 18 ár.
Fréttamaður BBC heimsótti Nithari-fátækrahverfið fyrr í þessum mánuði og ræddi við aðstandendur tveggja fórnarlamba í málinu. Segja þeir að sýknudómurinn hafi opnað gömul sár og vakið óbærilega spurningu sem enginn virðist geta svarað: „Ef Pandher og Koli gerðu þetta ekki, hver drap þá börnin okkar?“
Lögmaður Koli, Yug Mohid Chaudry, segir við BBC að öll sönnunargögn lögreglu hafi verið fölsuð og lögregla hafi farið auðveldustu leiðina við rannsókn málsins. Hún hafi einblínt á „fátækan þjón“ en hunsað aðrar vísbendingar, þar á meðal hugsanlegum tengslum við glæpahópa sem stunda það að selja líffæri úr fólki. Hæstiréttur Indlands tók undir þetta.
Í frétt BBC segir að í Nithari ríki djúpstæð örvænting og sumir aðstandenda hafi misst trú á réttarríkinu.