
Gus hvarf af afskekktri jörð afa síns og ömmu um 40 kílómetrum suður af bænum Yunta í suðurhluta Ástralíu þann 27. september síðastliðinn. Er talið að hann hafi ráfað burt og ekki ratað heim.
Umfangsmikil leit stóð yfir vikum saman sem hundruð sjálfboðaliða tóku þátt í. Einu ummerkin sem fundust í leitinni var eitt fótspor um 500 metrum frá heimili fjölskyldunnar.
Í leitinni sem mun hefjast í vikunni verður sérhæfður búnaður notaður til að skoða sex opin og ógirt námuop sem liggja í 5,5 til 12 kílómetra fjarlægð frá bænum Oak Park þar sem Gus sást síðast.
Aðstoðarlögreglustjórinn Linda Williams segir að umrædd námuop séu utan þeirra svæða sem fínkembd hafa verið og ekkert hafi verið skráð í opinberum gögnum um tilvist þeirra.
„Við erum staðráðin í að fara allar mögulegar leiðir til að finna Gus Lamont til að fjölskylda hans fái einhver svör,” segir Linda og bætir við að aðgerðirnar munu annað hvort leiða í ljós vísbendingar eða útiloka þessi svæði alfarið í áframhaldandi vinnu lögreglu.
Í frétt Mail Online sem fjallar um málið kemur fram að heimamenn á svæðinu hafi lýst yfir áhyggjum sínum af ógirtum námugöngum á svæðinu og Gus hefði mögulega getað fallið ofan í eitthvert þeirra.
„Þetta er það sem fólk hér talar um. Flest eru þessi op ekki á neinum kortum og sum þeirra sjást auðveldlega, en önnur alls ekki,” sagði einn íbúi á svæðinu nokkrum dögum eftir að Gus hvarf.