
Rússar afhjúpuðu á dögunum fyrsta gervigreindarvélmennið sem hefur verið hannað þar í landi. Þar með ætluðu Rússar að koma sér á kortið í vélmenna- og gervigreindarkapphlaupinu þar sem Bandaríkin og Kína fara fremst í flokki.
Vélmennið sem kallast AIdol átti að kynna það með pomp og prakt á sérstakri sýningu í Moskvu á mánudaginn. Lagið Gonna Fly Now, sem er frægt úr kvikmyndinni Rocky, var spilað þegar AIdol gekk inn á sviðið, veifaði, tók svo örfá skref og datt á „andlitið“.
Vladimir Vitukhin, forstjóri rússneska tæknifyrirtækisins Idol, segir að þarna hafi verið um stillingarvanda að ræða. Mögulega hafi skynjarar í vélmenninu ekki þolað sterku ljósin á sviðinu og það haft framangreindar afleiðingar á hreyfigetu AIdol. Vitukhin sagði að mistök væru til að læra af þeim.
Gervigreindarvélmennið var smíðað til að gera þrennt: ganga, handleika hluti og til að eiga samskipti við fólk. AIdol er með andlit og getur tjáð minnst 12 grundvallartilfinningar og sýnt hundruð svipbrigða. Vélmennið er eins ekki háð því að vera nettengt.
Myndbandið af fallinu má sjá hér að neðan: