
Þessu heldur J. Michael Waller fram í viðtali við Fox News Digital en hann starfaði meðal annars fyrir CIA í Póllandi. Hann kveðst þekkja dæmi um þessa taktík frá Kínverjum og Rússum.
Waller notar hugtakið „honeypot“ í þessu samhengi en það vísar til þess að skotmarkið laðast að einhverju sem virðist girnilegt, líkt og býfluga að hunangi, en í raun sé um gildru að ræða. Hann segir að þessi taktík sé notuð í ýmsum tilgangi; til að stela leyndarmálum eða koma pólitíkusum í vandræði og lýsir hann þessu sem „skítugri aðferð“ til að halda forskoti á Bandaríkjunum.
Á meðan Waller starfaði fyrir CIA í Póllandi segist hann hafa orðið var við unga kínverska konu, um 25 ára gamla, sem sýndi áhuga á störfum hans. Eftir frekara samtal áttaði hann sig á því að hún var njósnari og tilkynnti hana til pólskra yfirvalda þar sem hún var opinber starfsmaður á þeim tíma. Að sögn Waller var konan rekin úr landi innan fárra daga.
Að hans sögn vissi konan ýmislegt um fortíð hans, jafnvel hluti sem ekki voru opinberir.
„Þeir nýta sér það að fólk er einmana, vill bara hafa gaman eða þarf félagsskap, hvað sem er,“ sagði hann í viðtalinu og bætti við að verið væri að nota kynlíf sem vopn.
Í fréttinni er rifjað upp að fyrr á þessu ári hafi bandarísk yfirvöld bannað starfsmönnum sínum í Kína að eiga í rómantískum eða kynferðislegum samböndum við kínverska ríkisborgara.
Stefnan var sett af fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns, rétt áður en hann lét af störfum þegar Donald Trump tók við embætti forseta í janúar. Starfsmenn sem brjóta regluna verða neyddir til að yfirgefa Kína.
Waller segir þessa aðferð vera eitt form af sálfræðilegum hernaði og markmiðið sé að „rugla í hausnum á fólki“ eins og hann orðar það. Hann segir Kínverja sérstaklega beina sjónum sínum að einstaklingum með sérfræðiþekkingu, til dæmis á sviðum forritunar eða verkfræði. Þá er sjónum einnig beint að stjórnmálamönnum.
„Þeir geta unnið markvisst að slíkum kynferðislegum nálgunum til lengri tíma, byggt upp tilfinningatengsl og gengið svo langt að þeir nái að láta skotmarkið verða ástfangið, gifta sig og eignast börn með þeim,“ sagði hann. „Þetta er hluti af þjálfun þeirra.“
Í frétt Fox eru rifjuð upp ummæli sem Aliia Roza, fyrrverandi rússneskur „kynlífsnjósnari,“ sagði nýlega við New York Post þess efnis að erlendir útsendarar beini sjónum sínum sérstaklega að Silicon Valley í þeim tilgangi að komast yfir upplýsingar um nýjustu tækni og viðskiptaleyndarmál.
Waller hvetur fólk til að vera á varðbergi.
„Ef einstaklega aðlaðandi kínversk kona sýnir þér skyndilega mikinn áhuga – og þú ert augljóslega ekki í sömu deild – þá er ástæða til að gruna að hún sé njósnari,“ sagði Waller.