Travis var þekktur sem vandræðaunglingur og hafði sést á vappi við heimili Sally þennan örlagaríka dag. Lögreglan taldi að hann hefði ætlað sér að brjótast inn í húsinu í þeirri von að finna verðmæti, en innbrotið fór úr böndunum þegar Sally og Joseph komu að honum.
Lewis neitaði í fyrstu sök en sönnunargögnin voru óyggjandi, meðal annars fingraför sem fundust í húsinu. Réttað var yfir honum líkt og um fullorðinn einstakling væri að ræða og fór svo að hann var dæmdur í 28 ára fangelsi.
Á meðan á afplánun stóð hafði Travis orð á sér fyrir að vera fremur stilltur fangi sem sjaldan olli vandræðum. Þá vakti sérstaka athygli sambandið sem hann átti við dóttur Sally, Mörthu McKay, sem hafði snúið sér að andlegum málefnum og trú á fyrirgefningu.
Martha setti sig sjálf í samband við hann með því að skrifa bréf, og í kjölfarið töluðu þau reglulega í síma. Smám saman fór hún að heimsækja hann í fangelsið. Hún trúði því að hann hefði gert afdrifarík mistök í æsku en ætti samt sem áður skilið annað tækifæri.
Árið 2018, eftir að Travis hafði afplánað 23 ár af 28 ára fangelsisdómi, var honum veitt reynslulausn. Martha ákvað þá að gera það sem í hennar valdi stæði til að gera líf hans utan fangelsis bærilegra. Hún átti hús við Horseshoe Lake þar sem fjölskylda hennar hafði lengi búið, og sagan segir að hún hafi boðið Travis vinnu og jafnvel húsaskjól. Að minnsta kosti fékk hún hann til að vinna við viðhald á eignum Snowden-fjölskyldunnar við vatnið.
Martha virðist hafa séð í honum manneskju sem þráði annað tækifæri og hún virtist tilbúin að veita það. Vinir hennar hafa síðar sagt að hún hafi litið á það sem andlega skyldu sína að fyrirgefa – að sýna manninum sem myrti móður hennar miskunn.
En á bak við þessa mynd af fyrirgefningu kraumaði annað. Fljótlega eftir að Travis var sleppt virðist hann hafa dregist aftur í sama gamla farið. Hann átti í fjárhagserfiðleikum og dróst aftur að smáglæpum og svikum.
Þann 25. mars 2020 mætti lögregla að heimili Mörthu og þar blasti hryllingurinn við: Martha fannst látin inni í húsinu, með áverka eftir eggvopn og barefli. Travis var á vettvangi en lagði á flótta. Hann stökk út um glugga á efri hæð hússins, reyndi að flýja á bíl sem festist í leðju skammt frá, og hljóp síðan örvæntingarfullur út í vatnið. Travis var ekki ýkja vel syndur og hvarf hann fljótlega sjónum lögreglu – og drukknaði skömmu síðar. Lík hans fannst í vatninu rétt hjá heimilinu, sem hafði nú orðið vettvangur morðs í annað sinn á 23 árum.
Lögreglan komst aldrei að endanlegri niðurstöðu um hvatann að morðinu, þar sem Travis lést sjálfur stuttu síðar og engin réttarhöld fóru fram. Flest bendir þó til þess að Martha hafi uppgötvað að hann væri aftur farinn að feta braut smáglæpa og að hann hafi ætlað sér að hafa peninga eða verðmæti af henni – með skelfilegum afleiðingum.