Reiðilestur fyrrum leyniskyttu bandaríska hersins hefur vakið töluverða athygli á TikTok. Þar fordæmir hann ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að senda herlið inn í borgir sem lúta stjórn demókrata. Það sé ekkert tilefni fyrir slíkar aðgerðir og uppgjafahermenn eigi betra skilið en að þeirra eigin stjórnvöld séu að breyta heimilum þeirra í vígvöll.
Þessi fyrrum leyniskytta gengur undir notendanafninu @cfh.unflitered. Hann segir í myndbandi að hann hafi fengið fjölda fyrirspurna um ákvörðun Donald Trump um að senda herinn til Portland til að stöðva þar mótmæli gegn ríkisstjórninni og útlendingastofnun.
„Ég hef setið hér í tvo tíma að hugsa um hvað í fjandanum ég ætti að segja. Margir eru að spyrja mig um afstöðu mína gagnvart því að Donald Trump ætli að senda hermenn til Portland. Ég meina, hvað í fjandanum get ég eiginlega sagt úr þessu?“
Hann fordæmir þá ákvörðun stjórnvalda að stimpla samtök sem berjast gegn fasisma sem hryðjuverkasamtök.
„Hann stimplaði fólkið sem er á móti fasisma sem hryðjuverkamenn. Svo fólkið sem er á móti fasisma er nú óvinur Bandaríkjanna? Síðan sendir hann hermenn til blárra borga [borgir undir stjórn demókrata]. Það er galið.“
Leyniskyttan segir stuðningsmenn Trump aðhyllast alræði. Ekki bara það heldur séu þeir að taka slíku opnum örmum. Hann hæðist eins af sjálftitluðum föðurlandsvinum sem hafa aldrei gegnt herþjónustu en segjast nú reiðubúnir undir stríð. Þessir aðilar séu ekkert annað en aumingjar og dekurdýr.
„Stríðið í Írak og Afganistan stóð yfir í 20 fokking ár. Þið höfðuð tækifærið til að sýna heiminum að þið séuð fokking karlmenn, en nú viljið þið draga þessar aðstæður hingað til heimalands míns þar sem ég ætla að ala börnin mín upp. Hvernig dirfist þið? Hvernig í fjandanum dirfist þið?“
Hann segist ávallt hafa vitað að það yrðu óöryggir og ofdekraðir karlmenn sem myndu fórna frelsinu fyrir völd.
„Ég vissi alltaf að það yrðu fjandans dekurdýrin sem myndu fella þjóð okkar. Dekraðar og óöruggar frekjur sem myndu fórna réttindum sem þeim eru tryggð í stjórnarskránni svo þeir geti gefið alræði til eins mannfjanda. Hættið að fokka upp landinu mínu.“
Það séu fleiri á sama máli og hann. Þetta hafi hann heyrt frá uppgjafahermönnum sem hann þekki. Margir þeirra hafi kosið Trump en dauðsjá nú eftir því.
„Frændi minn er uppgjafahermaður, mikill MAGA-maður. Hann var að senda mér löng skilaboð um að hann styðji ekki lengur Trump og sé sannfærður um að forsetinn sé að reyna að koma á alræðisstjórn.“
Margir taka undir með honum í athugasemdum, sérstaklega aðrir uppgjafahermenn sem og íbúar í Portland sem kannast ekki við að þar ríki neyðarástand af nokkru tagi. Sumir telja að ráðgjafar Trump séu að ljúga að honum. Forsetinn fái líklega að sjá gömul myndbönd frá óeirðum sem áttu sér þar stað árið 2020 eftir að svartur maður, George Floyd, lést í haldi lögreglu.
„Sonur minn býr í Portland og eina vandamálið sem þeir glíma við þar er skortur á samkennd og samastaður fyrir útigangsfólk,“ skrifar einn og annar tekur fram að það sé ótrúlega hallærislegt að sjá „fjölda sorglegra gaura með ekkert sjálfstraust mæta á mótmæli, vopnaðir upp fyrir haus“. Mótmælin séu friðsæl enda á vegum venjulegs fólks sem er að láta í ljós andstöðu sína við aðgerðir stjórnvalda.
Einn skrifar hreinlega: „Alvöru karlmennska er að standa upp fyrir þeim sem geta það ekki sjálfir án þess að kæra sig kollugan um hvað öðrum finnst um þig“
@cfh.unfiltered 10/06: Warning, I don’t hold back in this video. I share my personal opinion on Trump going against court orders and deploying National Guard to Portland and Chicago. If this video upsets you, you need to self reflect. #nationalguardportland #nationalguardchicago #portlandwarzone #trumptoday ♬ original sound – CFH unfiltered