Chubby Jos er í hópi þeirra sem evrópsk löggæsluyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að handsama, en hann er grunaður um smygl á miklu magni af kókaíni hefur hlotið þunga dóma fyrir brot sín.
Jos er 34 ára og hefur hann verið á flótta undan réttvísinni í tvö ár og dvalið í Sierra Leone á meðan evrópsk löggæsluyfirvöld hafa leitað hans.
Samkvæmt yfirlýsingum Mohamed Kamarainba Mansaray, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Sierra Leone, hefur Jos notið verndar forsetans Julius Maada Bio. Mansaray heldur því fram að Agnes Bio, dóttir forsetans, hafi eignast barn með Jos í New York.
Hann sakar stjórn Bio um að vernda hollenska glæpamanninn og hindra að hann verði framseldur til Evrópu.
Myndefni sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum hefur meðal annars sýnt Jos í návist forsetafjölskyldunnar, meðal annars í kirkju á nýársdag þar sem hann stóð rétt fyrir aftan forsetann. Sjálfur hefur forsetinn þvertekið fyrir að eiga einhver tengsl við hinn vafasama eiturlyfjabarón.
Jos hefur sem fyrr segir verið á lista yfir eftirsóttustu glæpamenn Evrópu vegna kókaínsmygls sem tengist hollenskum og belgískum glæpahringjum. 200 þúsund evrur eru í boði fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku Jos.
Í frétt Mail Online kemur fram að Jos hafi dvalið áfram í Sierra Leone á meðan dóttir forsetans fæddi barn þeirra í New York. Forsetinn heimsótti þá dóttur sína og barnabarnið í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Eftir að sögusagnirnar tóku að magnast gáfu yfirvöld í Sierra Leone út yfirlýsingu þar sem fram kom að forsetinn hefði „enga vitneskju um hver Jos væri né um málefni sem honum tengdust.“
Jos þessi hefur ítrekað verið dæmdur í Hollandi og Belgíu fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl. Í september síðastliðnum hlaut hann átta ára fangelsisdóm í Belgíu, en auk þess bíður hann ákæra fyrir pyndingar og morð. Í fyrra var hann einnig dæmdur í 24 ára fangelsi í Hollandi fyrir þátt sinn í að smygla miklu magni af eiturlyfjum til landsins.
Hann er talinn stýra glæpahring sínum frá höfuðstöðvum sínum í Freetown í Sierra Leone.